HLUTUR JÖTNA LEIÐRÉTTUR
Ingunn Ásdísardóttir. Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir í nýju ljósi, ReykjavíkurAkademían og Hið íslenska bókmenntafélag 2024, 264 bls.
Í ár og aldir hafa megindrættirnir í norrænni goðafræði legið nokkuð ljósir fyrir í vitund manna, hérlendis sem erlendis, við þekkjum helstu persónur og leikendur, æsi, vani, dverga og jötna, heimkynni þeirra, eðli og átök. Eða hvað? Er það svo? Á undanförnum árum og áratugum hefur verið að renna upp fyrir mörgum að ýmislegt sem við teljum okkur vita um norræna goðafræði kunni að vera málum blandið. Þetta á kannski að sjálfsögðu helst við þá sem leggja sig eftir slíku efni, fræðimenn og aðra áhugasama.
Norræn goðafræði, eins og okkur hefur verið kennd hún, er komin til okkar í gegnum Snorra Sturluson, verk hans Snorra-Edda er svo til eina heimildin sem til er um þetta efni – að undanskildum sjálfum eddukvæðunum og ýmsum textum og textabrotum sem finna má í öðrum miðaldabókmenntum. Norræn goðafræði kemur til okkar í gegnum túlkun Snorra Sturlusonar og svo virðist sem að um ár og aldir hafi fáir efast um að hans túlkun sé sönn og rétt. En það er sem sagt að renna upp fyrir fræðafólki að túlkun Snorra á efniviði eddukvæða getur mögulega verið kolröng, auk þess sem að hann eykur við heimildaefnið og skreytir að vild. Já Snorri Sturluson var skáld, hann notar aðferðir skálda og fer víða frjálslega með. Sjálf var ég grunlaus um þetta athæfi Snorra Sturlusonar þangað ég að ég las Gunnlaðar sögu eftir Svövu Jakobsdóttur og í kjölfarið merkilega og ítarlega fræðigrein hennar þar sem hún fer í saumana á þeim erindum Hávamála sem liggja að hluta til skáldsögunni til grundvallar. Þar endurtúlkar Svava nokkur erindi kvæðisins og kollvarpar túlkun Snorra á frásögninni af samskiptum Óðins og Gunnlaðar. Hún rýnir í texta Hávamála og neitar að taka gilda túlkunarhefð sem trúað hefur skýringum Snorra að því er virðist oft án mikillar íhugunar.
Á undanförnum árum og áratugum hafa æ fleiri fræðimenn neitað að taka gilda túlkunarhefðina og rýnt sjálfir í texta kvæðanna og ýmsum tekist að færa sönnur á rangfærslur og tilbúning Snorra Sturlusonar. Ingunn Ásdísardóttir tilheyrir þeim hópi. Hún hefur um árabil fengist við rannsóknir á norrænum goðsögum. Árið 2007 kom út bók hennar Frigg og Freyja, kvenleg goðmögn í heiðnum sið og síðastliðið haust sendi hún frá sér bókina Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir í nýju ljósi. Fyrri bókin byggði á meistaraprófsritgerð Ingunnar í þjóðfræði en sú síðari byggir á doktorsritgerð sem hún varði við Háskóla Íslands vorið 2018. Doktorsritgerðin var skrifuð á ensku en mikill fengur er af því að fá verkið í íslenskri gerð enda er um merkt innlegg í íslenskar – sem og alþjóðlegar – goðsagnarannsóknir að ræða.
Sérstaða rannsókna Ingunnar felst meðal annars í því að hún beinir sjónum að jötnunum en fáir hafa sýnt þeim sérstakan áhuga hingað til, fræðimenn hafi verið uppteknari af ásunum, jötnarnir hafa aðallega komið við sögu þegar rýnt er í samskipti ása og jötna – og þá yfirleitt út frá sjónarmiði ásanna, sem oftast bera sigurorð af jötnum í þeim samskiptum. Ingunn rýnir hins vegar í þá fornu texta sem segja frá jötnum og reynir að skilja hvað þeir textar segja okkur án þess að sjónarmið ása sé ráðandi.
Jötnar hundvísir, skiptist í þrjá meginkafla sem hafa yfirskriftirnar „Jötnar“, „Jötunkonur“ og „Heimar jötna og heimkynni“. Á undan fer „Inngangur“ þar sem fjallað er um handrit þar sem jötnar koma við sögu og gefið er yfirlit yfir rannsóknasöguna. Í lokin er svo kafli með niðurstöðum og lokaorðum. Bygging bókarinnar er skýr, hún er vel skrifuð og þannig að allir, lærðir sem leikir, ættu að geta lesið hana sér bæði til gagns og gamans.
Strax í formála gerir Ingunn lesendum ljóst að í rannsókn sinni gengur hún á hólm við Snorra Sturluson. Hún skrifar um jötnana:
Þessi tegund íbúa goðheimsins hefur gengið með illilega skarðan hlut frá borði í umfjöllun fræðimanna. Jötnarnir hafa meira og minna verið afgreiddir bæði í hugum fólks og í fræðilegri umræðu eingöngu sem óvinir og andstæðingar goðanna, hálfgerðar ófreskjur sem hafi það eitt að markmiði að tortíma veröld goða og manna.
Þetta er alvarleg sögufölsun, upphaflega að öllum líkindum komin frá Snorra Sturlusyni, sem í ritum sínum, einkum Snorra-Eddu, túlkar heimildir sínar, eddukvæðin, mjög að geðþótta og út frá forsendum sem hann gefur sér og leggur til grundvallar endursögnum sínum og túlkun. (15)
Orðalag Ingunnar, „alvarleg sögufölsun“ grípur strax athyglina og sjálfri kom mér í hug sú undarlega staðreynd, sem oft hefur vafist fyrir mér, að jötnameyjum er yfirleitt lýst sem undrafögrum verum sem æsirnir ágirnast sem stangast illilega á við ímynd jötna sem einhvers konar tröllvaxinna skrímsla, en einmitt þannig er hin hefðbundna mynd af þeim sem miðlað er til skólabarna (þ.e.a.s. ef börn læra enn eitthvað um norræna goðafræði í skólum). Hér má einnig nefna annað bókmenntaverk eftir íslenska konu, nefnilega kvæðabálkinn Blóðhófni eftir Gerði Kristnýju þar sem Skírnismál eru endurtúlkuð á róttækan, feminískan hátt, líkt og nokkrar fræðikonur hafa líka gert, þar má nefna Helgu Kress. Ingunn fer í saumana á þessu máli sem og mörgum öðrum sem varða túlkanir á eddukvæðum. Allar nefndar konur, skáld og fræðikonur, beita femínísku sjónarhorni á textana og við það tekur efniviðurinn undraverðum breytingum – þar sem karlkyns túlkendur sáu áður skemmtisögur um kvennafar og táldragelsi, jafnvel ástarsögur, rísa upp sögur af kynferðislegu ofbeldi og kúgun, svo dæmi sé tekið. Vandleg textarýni leiðir til dæmis í ljós að jötnameyjarnar og aldnar jötunkonur virðast gegna allt öðru og merkilegra hlutverki í goðsagnaheiminum en karlarnir komu auga á. Um miðbik bókar Ingunnar má til að mynda lesa:
Eins og fyrr hefur verið reifað snýst megnið af umfjöllun fræðimanna um hinar norrænu goðsagnir um æsina og það sem að þeim snýr, og jötnar hafa fengið mun minni athygli. Þetta á ekki síst við jötunkonuna með hinn dýra drykk og hlutverk hennar í goðsögunum, hún hefur ekki fengið mikla athygli fræðimanna sem oftar en ekki hafa túlkað hana sem leikfang hinna glæstu ása. (155)
Í rannsókn sinni hundsar Ingunn Ásdísardóttir sem sagt túlkanir Snorra Sturlusonar og skoðar jötnana sem sjálfstætt rannsóknarefni, en ekki út frá hinu „hefðbundna sjónarhorni“ sem ætíð er hliðhollt ásunum og lýsir jötnum sem miklum og hættulegum andstæðingum ása. Kannski veltir einhver fyrir sér hvaða hag Snorri Sturluson hafði af því bjaga mynd jötna lýsingu sinni á heimi goða og jötna. Ingunn hefur mjög sannfærandi tilgátur hvað það varðar og bendir á að þegar tvö trúar- og þekkingarkerfi mætast, þ.e. á tímamótum í átrúnaði, spretti upp átök þar sem þeir sem aðhyllast nýjan átrúnað þurfa að sverta hinn eldri átrúnað til að afla sínum málstað fylgis. Og eins og við vitum eru það sigurvegararnir sem skrifa söguna.
Hér gefst ekki færi á að fara ofan í nærlestur Ingunnar á goðakvæðum eddukvæða og sýna hvernig hún dregur fram nýja mynd af jötnunum hundvísu en aðeins áréttað að hér er um stórmerkilega rannsókn að ræða sem flestir ættu að kynna sér og fyrir áhugasama lesendur er hreinlega spennandi að sjá þá áður óþekktu fleti sem Ingunn dregur fram með því að rýna í heimildir út frá nýju sjónarhorni. Í bók hennar rísa jötnarnir upp sem fornar og vitrar verur sem búa yfir visku, þekkingu og gulli sem æsirnir ágirnast, ekki síður en hinar fögru jötunmeyjar – af minna tilefni hafa menn haldið í bardaga og áróðursstríð.