BERNSKUMINNINGAR SVEITASTÚLKU
Þórhildur Ólafsdóttir, Með minnið á heilanum. Frásagnir úr fjarlægum bernskuheimi, Reykjavík: Ugla 2025, 159 bls.
Ýmsir virðast halda að minni okkar virki á líkan hátt og myndaalbúm; að við geymum í hugskotinu minningar úr fortíð og getum flett upp í þeim og rifjað upp þegar þörf krefur. Rannsóknir sálfræðinga og annarra á minni sýna hins vegar að ekki er hægt að kalla fram minninguna óbreytta. Minningar okkar eru ekki eins og ljósmyndir sem geta varðveist í óbreyttu formi um áraraðir. Minnið vinnur á annars konar hátt. Við varðveitum megindrætti úr reynslu okkar í minninu en þegar við köllum fram tiltekna minningu fer ætíð í gang ferli endursköpunar. Endursköpun er órjúfanlegur þáttur upprifjunar. Þegar við rifjum til að mynda upp atvik úr bernsku með orðum þá bætum við gjarnan við nýjum tilfinningum og ályktunum ásamt því sem frásögn okkar getur litast af þekkingu sem við höfum öðlast löngu eftir að atvikið sem rifjað er upp átti sér stað. Minningar okkar eru ætíð hlutdrægar.
Bók Þórhildar Ólafsdóttur, Með minnið á heilanum, hefur undirtitilinn: Frásagnir úr fjarlægum bernskuheimi og Þórhildur gerir sér fullkomlega grein fyrir þessu eðli minninganna og hún gerir það reyndar víða að umtalsefni í bókinni, sem hefst svona:
HVER SKYLDI VERA fyrsta minning mín um kýr? Ómögulegt að fá svar við þessari spurningu, en þær komu áreiðanlega snemma inn í líf mitt, svo mikið pláss tóku þær í tilveru sveitafólksins á sjötta og sjöunda áratugnum. Eitt atvik sé ég vel fyrir mér eftir meira en sextíu ár, skýr brot eða brotabrot af atburðinum í heild hans: við amma erum að sækja lítinn rauðan kvígukálf með hvítan haus upp á barð þar sem afleggjarinn heim að bænum byrjar og póstkassinn mikilvægi stendur negldur á staur. (15)
Þetta er skemmtileg byrjun á minningabók því hún kallast á við hefðbundnar byrjanir slíkra bóka: „Hver skyldi vera fyrsta minning mín…“ um leið og lok setningarinnar eru óvænt: „um kýr?“! Framhaldið staðsetur svo uppruna höfundur rækilega í tíma og rúmi. Við erum að hefja lestur á frásögn af lífi stúlku sem alin var upp í sveit upp úr miðri tuttugustu öld, en Þórhildur er fædd snemma á sjötta áratug síðustu aldar á Vesturlandi og ólst að mestu leyti upp á Syðri-Ánastöðum á Vatnsnesi í Vestur Húnavatnssýslu. Yfirskrift þessa fyrsta kafla er „Líf með kisu, kúm og fólki (1956-1960)“ og nær yfir árin sem stúlkan er 3ja til 7 ára gömul, en minningafræðin benda okkur einmitt á að fyrstu minningar okkar ná yfirleitt ekki aftur fyrir þriggja ára aldurinn. Fram að þriggja ára aldri er talað um óminnistímabil en eftir það fer að rofa til og stakar minningar koma fram og upp úr sjö ára aldri er hægt að tala um nokkuð stöðugt minni, burtséð frá því sem telja má eðlilega gleymsku – eða jafnvel bælingu af einhverjum orsökum.
Bók Þórhildar er samsett af níu meginköflum og hefur hver þeirra yfirskrift sem vísar til efnis kaflans og flestir eru einnig tímasettir með ártölum. Sem dæmi má nefna kaflann „Töðugjöld með Helguhvammsfólki (1957-1963)“, „Sumargestir (1957-1963)“ og „Saumaskapur (1958-1969). Hver kafli er sjálfstæð frásögn en allir tengjast þeir í gegnum tíma, stað og persónur. Aðalpersónur frásagnanna eru kynntar í upphafi bókar með nafnalista og eru, auk sögukonu, foreldrar hennar, ömmur og afar, systkini og ein langamma. Bókin er afar vel skrifuð á vandaðri íslensku og oft bregður fyrir orðum sem líklega eru horfin úr málvitund þeirra sem eru börn á Íslandi í dag og ég held að þessa bók megi jafnvel lesa fyrir börn til að efla málvitund þeirra og orðaforða. Ástríku sambandi kynslóðanna er líka komið til skila á fallegan hátt í bók Þórhildar.
Samlestur fullorðinna og barna er reyndar gildur þráður í bókinni og síðasti kaflinn fjallar einmitt um samskipti barnsins og ömmu yfir bókum. Kaflinn hefur yfirskriftina „Bækurnar og ég (1957-1963)“ en þar fjallar höfundur um hvernig hún lærði að lesa í kjöltu ömmu sinnar sem beitti „bandprjónsaðferð“. Gefum Þórhildi orðið:
Ég man sjálf að áður sat ég oft í kjöltu ömmu minnar, þegar hún las fyrir mig bækur, bandprjónn hennar úr áli eða einhverju slíku léttu efni – það glamraði þægilega í honum þegar hann snerti aðra prjóna – undirstrikaði hverja línu sem hjá leið. Þetta er mynd sem ég á ennþá á filmu í heilanum og get léttilega kallað fram, framkallað. Á rúminu hennar ömmu eða við eldhúsborðið.
Einhvern tímann meðan á samlestri okkar ömmu stóð uppgötvaði ég orðið „sagði“, mynd þess og hljóð tengdust við merkingu orðsins, og þannig urðu orðin til á blaðsíðunni og í mínum litla kolli, koll af kolli, mynd, hljóð og merking. Allt gekk þetta rólega fyrir sig þar til að dag einn kom ég hlaupandi fram í eldhús til ömmu minnar með bókina um Þyrnirós, Mjallhvít eða einhverja slíka, hrópandi í miklum æsingi: „Amma, ég get lesið!“ (117-118)
Höfundur fjallar síðan um ást sína á bókum, segir frá minnisstæðustu bókum æsku sinnar og hvað áhrif lestur þeirra höfðu á hana. Þetta er mjög skemmtilegur kafli aflestrar – alla vega fyrir þá sem sjálfir heilluðust af heimi bókanna í æsku – og líklega er þetta sá kafli bókarinnar sem dregur einna gleggst fram samspil minninga og úrvinnslu hins fullorðna huga sem stýrir skrifunum.
Í „Eftirmála“ bókarinnar gerir Þórhildur Ólafsdóttir grein fyrir tilurð minningabókar sinnar og markmiðinu með skrifunum. Hún segir frá því að veröld bernskunnar hafi sótt á sig af miklum krafti eftir þrjú dauðsföll í nánustu fjölskyldu og að upp úr þeim áföllum hafi hún farið að skrifa um bernskuna til að hjálpa sjálfri sér að ráða við sorgina og finna rætur sínar. Hún vísar í því sambandi einnig til fyrri bóka sinna, ljóðabókarinnar Brot úr spegilflísum (2020) og skáldsögunnar Efndir (2021) þar sem hún notar einnig bernskuheiminn og samspil minninga og reynslu sem efnivið í skáldskap. Hún skrifar: „Minningabrotin […] eru því þriðji hlutinn í nokkurs konar þríleik og eitthvað hlýtur óhjákvæmilega að skarast við skáldsöguna og ljóðin.“ Bernskuheimurinn hefur því reynst Þórhildi gjöfull efniviður og gaman er að sjá hvernig hægt er að nálgast efnið á mismunandi hátt í gegnum ljóð, skáldskap og minningaskrif.
Slík skrif er ríkur og fjölbreyttur flokkur innan íslenskra bókmennta og kennir þar ólíkra grasa. Með minnið á heilanum eftir Þórhildi Ólafsdóttur fellur þar í úrvalsflokk slíkra bóka en þar eru fyrir til dæmis bækur á borð við Eitt er það land eftir Halldóru B. Björnsson og Í barndómi eftir Jakobínu Sigurðardóttur. Kannski er bók Þórhildar ívið lausari í reipunum en bækur Halldóru og Jakobínu því hún er samsett af sjálfstæðum frásögnum sem hver og ein tekur fyrir ákveðinn þátt í bernskulífinu, en saman mynda frásagnirnar níu engu að síður heildstæða mynd af þeirri veröld sem var á íslensku sveitaheimili upp úr miðri síðustu öld.
Soffía Auður Birgisdóttir
Ritdómurinn var fluttur í Víðsjá á RUV, rás 1, 7. október 2025.