SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir30. nóvember 2025

MISSIR OG ÚRVINNSLA

Sigrún Alba Sigurðardóttir. Þegar mamma mín dó. Mál og menning 2025.

 

 

„Það að syrgja er bæði einstaklingsbundið og sammannlegt“ (34) segir á einum stað í bók Sigrúnar Ölbu Sigurðardóttur, Þegar mamma mín dó. Bókin hefst á setningunni sem titilinn er sóttur í – með smá viðbót: „Þegar mamma mín dó vildi ég ekki fara frá henni“ (5). Í upphafs-málsgreinunum lýsir Sigrún nokkuð ítarlega dánarstundu móður sinnar. Hún situr hjá henni, hvílir höndina á öxl hennar, hlustar á andardráttinn hægast og finnur lífið sleppa úr líkamanum. Hún óttast að finna líkamann byrja að kólna, grípur símann og tekur síðustu myndina af móður sinni. Hún skrifar: „Ég hafði ákveðið að ég ætlaði ekki að taka mynd en ég gerði það samt. Mér leið örlítið óþægilega yfir því en ég vissi að ég yrði einhvern tímann fegin að eiga þessa mynd“ (7).

Það er vandi að lýsa svo persónulegri og sárri reynslu eins og frásögnin hefst á án þess að falla ofan í tilfinningaþrunginn harmstíl sem kannski á lítið erindi út fyrir þrengsta hóp ættingja en Sigrún Alba leysir verkefnið vel. Texti hennar er bæði fallegur og yfirvegaður enda er hún reyndur rithöfundur og þessi bók er hennar tíunda útgefna verk. Sigrún er líka ljósmyndari og hefur skrifað bækur um ljósmyndir og ljósmyndara, sem og texta þar sem ljósmyndir eru túlkaðar. Myndin sem hún tók á dánarbeði móður sinnar hjálpar henni að nálgast viðfangsefnið í upphafi frásagnarinnar. Með því að skoða myndina og lýsa henni getur hún tjáð hugsanir og tilfinningar og komið í orð ýmsu sem ella væri erfitt að ná utan um. Myndin kveikir líka minningar um hver móðirin var, hvernig þessi tiltekna mynd nær engan veginn að fanga neitt af persónuleika konunnar sem lifir í hugskotinu í ýmsum myndum. Sigrún framkallar slíkar skyndimyndir í knöppum en vel hugsuðum skrifunum.

Bókin er stutt, frásögnin spannar tæplega níutíu síður og við fyrsta lestur fannst mér hún jafnvel of stutt. Sú skoðun breyttist þó eftir endurlestur – sem ég mæli með – því þá varð mér ljóst hversu gott vald Sigrún hefur á að flétta saman þræði úr ólíkum áttum og undraðist í raun hversu miklu henni tekst að koma til skila í ekki lengra máli. Hún hefur mikla menntun að baki og sérsvið hennar eru á meðal annars á sviði ljósmyndunar, minningafræða og áfallafræða, í alla þessa þekkingarbrunna sækir hún við skrif bókarinnar en stillir þó mjög í hóf því bókin er ekki fræðirit og Sigrún leitast við að gera hana aðgengilega fyrir alla lesendur.

Framarlega í bókinni skrifar hún: „Þau sem upplifað hafa stór áföll þurfa ekki aðeins að lifa af til að segja frá, þau þurfa einnig að finna að á þau sé hlustað, að vitnisburður þeirra sé meðtekinn og samþykktur. Til þess að geta lifað með áfallinu, en ekki í skugga þess, er mikilvægt að geta deilt því með öðrum“ (33). Og aðeins síðar segir: „Fyrsta lögmál sorgarúrvinnslunnar: Þau sem upplifað hafa stór áföll þurfa ekki aðeins að lifa af til að segja frá – þau þurfa líka að segja frá til að lifa“ (34).

Sigrún Alba þekkir áfallavinnu og sorgarúrvinnslu bæði fræðilega og persónulega og hún finnur hvernig það hjálpar henni að skrifa um reynslu sína. Stundum er talað um skriftarþerapíu í þessu sambandi. Skrifin hjálpa til við að henda reiður á tilfinningum, þau vekja upp minningar og geta jafnvel leitt eitthvað óvænt í ljós því undirmeðvitundin getur vaknað við skriftarathöfnina sjálfa og dregið eitt óvænt fram í dagsljósið.

Hugleiðingar Sigrúnar Ölbu og skrif um dauða móður sinnar kveikja hjá henni minningar um andlát annarra úr nánustu fjölskyldu hennar. Einn bókarkaflinn hefst með orðunum: „Þegar amma mín dó“ og endar á svipað hátt og upphafsetningin sem áður var vísað til: „Þegar amma mín dó átti ég erfitt með að sleppa af henni hendinni“ (14). En tæplega þrjátíu ár eru liðin frá andláti ömmunnar og Sigrún kornung kona sem upplifði þarna í fyrsta sinn dauða ástvinar. Hún viðurkennir að hún hafi þá óttast dauðann og í margar vikur á eftir dreymir hana sama drauminn – eða martröðina – sem lýsir þeim ótta á magnaðan myndrænan hátt.

Það er þó fyrst og fremst minningar um veikindi og andlát föður Sigrúnar sem sækja að henni í kjölfar andláts móðurinnar. Hann lést átta árum á undan konu sinni og andláti hans tengjast flóknar minningar um erfiðar ákvarðanir og óeðlilega ábyrgð sem sett var á einkadótturina í því ferli. Erfiðar tilfinningar vakna aftur, meðal annars sektarkennd yfir því að hafa á einhvern hátt brugðist rangt við eða einfaldlega brugðist. Eitt af því sem Sigrún Alba vill gera með bók sinni er að opna umræðuna um álagið sem skapast í kringum veikindi og dauðsföll, álag sem sérstaklega bitnar á konum, dætrum, sem gert er að taka á sig ábyrgð sem þær eru kannski hvorki tilbúnar né viljugar til að gera. Í þessum hluta má greina gagnrýni á heilbrigðiskerfi okkar en líka tillögur til úrbóta – hvernig okkur ætti að vera í lófa lagið að búa betur að deyjandi fólki og koma betur til móts við aðstandendur þeirra. Þetta er mikilvægur hluti texta Sigrúnar Ölbu en hann er hvorki uppáþrengjandi né reiðilegur, heldur fyrst og fremst réttmæt gangrýni og umhugsunarverð.

En hjartað í frásögn Sigrúnar snýst um sorgarferlið og úrvinnsluna. Hún kemur að því málefni frá ýmsum ólíkum hliðum, persónulegum, fræðilegum og ljóðrænum. Hún lýsir vel hvernig líkami okkar bregst við sorg og áföllum en einnig hvernig skilningarvitin skerpast. Á einum stað bregður hún á það ráð að lýsa reynslunni í ljóði. Það hefst svona:

 

Litirnir aldrei jafn skærir,
Lyktin af umhverfinu aldrei jafn margslungin.
Hvítir veggir sjúkrastofunnar, mjúk sængin,
Vonarneisti sem slokknar.
Við sitjum eftir,
á fallegum sumardegi
horfum yfir fjörðinn,
og vitum að heimurinn er að breytast.
Sólin heit og sterk,
útlensk sól við íslenskan fjörð. (25)

 

Lokalínur ljóðsins eru svo þessar:

 

Allir litir skærari,
sólin heitari,
lyktin yfirþyrmandi,
húðin klístraðri,
og lífið togar í mig. (26)

 

Þrátt fyrir allt og sem betur fer togar lífið í okkur þótt ástvinir veikist og deyi. Bók Sigrúnar Ölbu sýnir okkur það og hennar persónulega sorgarúrvinnsla ætti að geta hjálpað öðrum í svipuðum sporum. En það er eitt af markmiðum Sigrúnar með bókinni.

 
 
 
Soffía Auður Birgisdóttir
Ritdómurinn var fluttur í Víðsjá á rás 1, 27. nóvember 2025

Tengt efni