SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir11. desember 2020

FREMSTA OKIÐ... Okfruman

Brynja Hjálmsdóttir. Okfruman. Reykjavík: Una úgáfuhús 2019

 

Fremsta okið: Boðskort í hólmgöngu

 

 
Í upphafi ekkert
og svo
sprenging

 

 

Þannig hefst ein áhugaverðasta ljóðabók ársins, Okfruman, sem er fyrsta ljóðabók Brynju Hjálmsdóttur (f. 1992). Sprengingin vísar til þess þegar sæði hefur sameinast eggi og til verður okfruma sem deilist síðan í sífellt í fleiri frumar, „hrannast upp / iðandi eins og maðkar“ þar til fóstrið er orðið fullburða og barn fæðist. En ferlið heldur áfram:

 

 

 

Þegar barnið kemur út
úr kviðnum halda frumurnar áfram
að hrannast upp
hætta því
aldrei það þarf stöðugt
að endurnýja

 

Saman mynda öll ljóð Okfrumunnar ljóðabálk þar sem fylgt er þroskaferli stúlku frá getnaði, um fæðingu og síðan í gegnum bernsku og unglingsár og fram á fullorðinsár. Ljóðin miðla því hvernig persónuleikinn verður til í gegnum leiki og lærdóma, ástvinamissi, sorgir og þungsinni. Lífið er ekki auðvelt: „Dauðinn kemur barni til manns“ og „jarðarfarirnar hrannast upp“. Þær lífslexíur eru barninu erfiðar og heilar tvær síður í bókinni eru undirlagðar krossum. Ort er líka um skiptingu á dánarbúi, sem reynist mörgum flókið verkefni sem sundrar ættingjum: „Öllu heillegu deilt út / uns ekkert er eftir // enginn heill eftir“. Smellið lítið ljóð fylgir:

 

Hún yrkir ljóð fyrir þau öll
til að hafa í horni þessarar síðu
en gleymir því

 

Á næstu síðu kemur: „Hún er tímabundin / reisir víravírki fyrir miðri síðu til að byrgja minningar inni“ og má skilja áðurnefndar áðurnefndar blaðsíður með krossum sem slíkt víravirki. Áfram bregður höfundur upp myndum þar skáldað er um vírinn, en:

 

Víravirkið er ekki ryðfrítt
gæti hrunið á hverri stundu
 
nú þegar farið er að togast úr vírunum
loðin mygluskán myndast
utan um fjarlægustu andlitum

 

Mörg mögnuð ljóð lýsa áföngum á leið unglingsstúlku til þroska, hún: „Vaknar um nótt öll / blaut skelfingu lostin sér / að hún hefur gjört í rúmið blóð“ og kynhvötin lætur ekki að sér hæða: „Á Íslandi býr hundraðogáttatíuþúsundfjögurhundruðogeinn karl / og hún er ástfangin af þeim öllum“.

Grámann í Garðshorni

Leiðarstefið sem fylgir lýsingum á þroskaferli stúlkunnar er ævintýrið um hinn brögðótta Grámann í Garðshorni sem „læst vera kjöt og bein“ í poka og tekst með því að plata og koma sér úr vandræðum. Vísanir í söguna af Grámanni koma fyrir á nokkrum stöðum og gefa ljóðunum stundum óhugnanlegan tón, eins og til að mynda þegar stúlkan „hefur gjört í rúmið blóð“ kemur auðvitað „Grámann / með rauðgraut í dálítilli skjólu og lét / drjúpa á rekkjuvoðirnar“, sem vísar beint í eitt af brögðum hans í sögunni. Það eru mikil átök og spenna í ljóðum Brynju, í takt við efnið er ljóðmálið víða dimmt og gróteskt, það er rifið ofan af sárum svo skín inn í kviku þar sem birtist: blóð, slím, mygla, spýja, maðkar, sót, svo dæmi séu tekin. Og óvenjuleg er eftirfarandi „ástarjátning“:

 

Þú ert beinagrindin sem heldur uppi þessu slímuga farsi
 
Þú ert görnin sem mótar mig í lystuga pylsu
 
án þín væri ég ekkert
nema kjöt og bein í poka

 

Heildaryfirbragð þessarar fyrstu ljóðabókar Brynju Hjálmsdóttur er dökkt; dauðinn og þunglyndið eru þau stef sem sterkast hljóma, Grámann ásækir ljóðveruna sem reynir að bægja honum frá sér. Hún læsir sig inni og berst gegn svörtu hundunum en slík barátta getur þó verið erfið því: „Fullvaxta martraðir koma / og fara hvergi“.

Eftirfarandi ljóð nær vel að miðla heildarhugsun bókarinnar:

Brynja Hjálmsdóttir

 

Okfruma er ekki ávísun
á líf
 
heldur fáránlegur gúmmítékki
 
fyrsta fruman
fremsta okið
 
ráshnappur (tikk takk
tikk takk) við erum öll
tíma
bundin
 
Okfruma er boðskort í hólmgöngu
barist upp á líf og dauða
 
okfruma er rauðgrautur í klósetti
 
okfruma er undanfari bálfarar
 
okfruma er innsiglaður samningur
um að allt springi í loft upp

 

Okfruman var nýverið tilnefnd til Fjöruverðlaunanna og kemur sú tilnefning þessum ritrýni ekki á óvart. Sjaldgæft er að sjá svo sterkt byrjandaverk sem þessa bók og þá er ljóst að höfundurinn býr einnig yfir myndlistarhæfileikum. Um það bera teikningar eftir höfundinn sem prýða bókina vitni. Þetta eru svarthvítar myndir sem skilja má sem ýmis tilbrigði við okfrumur og skemmtilegt samspil er á milli þeirra og ljóðanna.

Tengt efni