SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir17. janúar 2026

INNAN VALLAR OG UTAN

Eyrún Ingadóttir. Upphafshögg. Skáldasýslan 2024.

 

Fyrsta ljóðabók Eyrúnar Ingadóttur, Upphafshögg, er óvenju glæsileg að ytra byrði. Hún er prentuð á vandaðan þykkan pappír og á hverri einustu opnu er litmynd tekin úr lofti af teigum, flötum, sandgryfjum og glompum á golfvelli. Einar og sér eru myndirnar líka eins og falleg abstrakt-verk og er ljóðtextinn prentaður ofan á myndirnar. Heiðurinn af þessari glæsilegu bókarhönnun á Gabríel Benedikt Bachmann sem hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir myndverk sín.

Undirtitill ljóðabókarinnar, Ljóð um listina að spila golf, gæti ef til vill fælt frá þá lesendur sem ekki hafa áhuga á golfíþróttinni. En þótt titill, undirtitill og myndræn hönnun bókarinnar vísi öll til þeirrar íþróttar er þar með ekki öll sagan sögð. Þegar ljóðin 36 eru lesin kemur nefnilega í ljós að Eyrún er að yrkja um annað og meira en golf. Golfið er hins vegar hugvitssamlega notað sem táknheimur sem vísar út fyrir sig og beinast liggur við að álykta að ljóðin fjalli um ástarsamband, upphaf þess og þróun – og endalok. Með þetta í huga verður upphafsljóð bókarinnar beinlínis erótískt:

 

 

Fullkomin byrjun
 
drifhöggið
tittlingur
graðfola
með ungmeri
í gerði
 
þráðbeint
 
flötin
samviska
bankamanns
eftir bónus
ársins
 
rennislétt
 
(engin blaðsíðutöl eru í bókinni)
 
 

Eyrún notar hugtök og heiti sem notuð eru í golfi á skemmtilegan hátt í mörgum ljóðanna. Sér í lagi er vísað til fugla og fyrir koma einnig ernir og albatross og líka aðrir fuglar eins og þegar „óheppin gæs“ verður „fugl dagsins“ sem veldur „ósætti / hjá eina pari / vallarins“. Í ljóðinu „Fugladans“ er:

 

fuglafæri
á fimmtu braut
 
örn fyrir meistara
þá gellur í gjögrum
gleðihlátur
er mávur étur
unga úr eggi

 

og í ljóðinu „Lóa – in memorian“ segir af lóu sem kunni ekki að „fylgja / umferðarreglum háloftanna“.

En þegar líða tekur á leikinn fer að syrta í álinn. Í ljóðinu „Vonbrigði“ koma fyrir „skollar“ og „skrambar“ og:

 

á fyrstu braut
brustu vonir
 
framundan hraunbreiða
beljandi fljót
djúpir sandar
 
í dag
deyja draumar

 

Eins og flestir vita eru stórir golfvellir yfirleitt átján holu vellir en eitt ljóðanna hefur yfirskriftina „Ástin á nítjándu“:

 

Þú sem hélst
að allt væri búið
þegar drifhöggið
geigaði á sautjándu braut
 
   fórst þess í stað
   holu í höggi
   á þeirri nítjándu
 
 fannst
nýjan rástíma
annan félaga
 á leikvelli lífsins

 

Þarna kemur skýrt fram að golfvöllurinn er tákn fyrir leikvöll lífsins og golfið sjálft jafnframt glíma parsins sem leikur leikinn. Sá sem spilar utan vallar, finnur nýjan rástíma og annan félaga hefur svindlað í leiknum og nokkru síðar spyr ljóðmælandi:

 

er tíminn eins og tí
sem týnist
eftir gott drif
á grænum teig?
 
er ástin eins og bolti
sem flýgur hátt
en lendir svo
í botnlausri tjörn?“ („Vangaveltur“).

 

En þótt skáldið velti líka fyrir sér, í ljóðinu „Eftirsjá“, hvort hún „hefði átt […] að sleppa því / að sleppa mér / á nítjándu holu“ þá bannar „málfarsráðunautur / golfsambandsins“ orðin „„hefði átt“ á golfvöllum / landsins“. 

Svik í einkalífi hafa komið mörgum góðum golfurum í koll, eins og skáldið minnist í eftirfarandi ljóði:

 

Til Tiger Woods
 
svo ungur
 á sigurgöngu
  um heiminn
 
    hola í höggi
     albatross
      af og til
 
       með heiminn
        í höndum þér
 
         þá vildu
          stúlkurnar
           prófa sex-járnið
            og þú að pútta
             utan vallar
 
              fylltir holurnar
               af svikum
                uns eiginkonan
                 dæmdi þig
                  úr leik
 
                   þú
                    sigraður
                     af sex-járni.

 

Upphafshögg er mjög áhugaverð ljóðabók og sýnir nýja hlið á ritstörfum Eyrúnar Ingadóttur sem er þekkt fyrir annars konar verk, sagnfræðilegar skáldsögur og ævisögur. Undirrituð hafði gaman af því að lesa og pæla í þessari fyrstu ljóðabók Eyrúnar, þótt golfáhugann vanti algjörlega. Það kann að vera að þeir sem eru innvígðir í þá íþrótt njóti ljóðanna enn betur og sjá dýpri merkingu á því tvöfalda sviði sem þar er brugðið upp.

 

 
Soffía Auður Birgisdóttir
Ritdómurinn birtist fyrir í Són, tímriti um ljóðlist og óðfræði

 

Tengt efni