SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir20. desember 2018

HVAÐ VARÐ AF STELPUNNI ELLU? Hringsól

Álfrún Gunnlaugsdóttir. Hringsól. Reykjavík: Mál og menning 1987

Í HRINGSÓLI er kona að rifja upp lífshlaup sitt. En þetta er engin alíslensk æviminningabók eins og við þekkjum þær best, þar sem höfundur/sögumaður rekur lið fyrir lið það sem á daga hans hefur drifið, talið í afrekum og landvinningum. Sögukona Hringsóls skýtur sér lengst af undan upprifjuninni, en minningarnar knýja á. „Maður þurrkar ekki burt minningar með klút, búa um sig í manni líkt og hrúðurkarlar“(13). Ein minning vekur upp aðra sem vekur upp enn aðra og þannig koll af kolli, stundum án sjáanlegs samhengis í fyrstu. Það er lífsnauðsyn að rifja upp, reyna að púsla saman þó það sé sárt. Og það er ástæða fyrir þessari viðleitni sögukonu til að koma einhverri mynd á brotin. Hún er orðin gömul og langþreytt á lífinu, kemur engum við lengur, og hefur ákveðið að enda ferð sína. Hún ætlar að enda hana þar sem hún byrjaði, hjá fjallinu heima: „Ég veit að stundin er komin: ætla að ná fundi konu sem býr í þokunni. Eins og fjall bernskunnar. Ástæðulaust fyrir mig að sitja lengur og bíða (9).“

Lokaferðin

Og hún bíður ekki, heldur leggur upp í lokaferð sína, í leigubíl, og farangurinn er einungis göngustafur hennar og upprúllað ullarteppi. Og í vasanum peningur. Þessi nútímalega ferð (í leigubíl) öðlast goðsögulegt gildi í frásögninni. Leigubílstjórinn er í hlutverki Karons og býðst til að hjálpa gömlu konunni áleiðis, og fyrir ómakið fær hann að sjálfsögðu greiddan ferjutollinn: „Runnið upp fyrir mér hver hann var þessi gamli maður. Hann myndi flytja mig ... Þessi peningur verður að nægja fyrir farinu“ (120).

Draugagangur

Slíkar táknrænar vísanir má víða sjá í texta Álfrúnar, oftast er um tákn fyrir líf (ormur, fljúgandi dreki) og dauða (skuggi á leirljósum hesti) að ræða, sem stundum renna þó saman í eitt (fjall bernskunnar). Auk eigin minninga rekur sögukona minningar Daníels, eiginmanns síns. Þegar þau giftust gerðu þau samkomulag með sér:

... að byrja nýtt líf frá rótum alveg og urðu þess vegna að gleyma því sem var liðið,

draga yfir það strik, og Bogga hafði lofað að spyrja ekki um árin sem Daníel var í burtu;

hann ætlaði ekki að spyrja um barn sem dó né hvern eða hverja Bogga hefði elskað. (190)

 

En þau eiga erfitt með að halda samkomulagið. Sérstaklega eftir að Daníel er orðinn gamall og veikur og situr í hornstólnum við gluggann. Þá sækja minningarnar að honum og hann þusar endalaust yfir Boggu, segir frá sömu atvikunum aftur og aftur og ein frásögnin stangast á við aðra. Svo deyr Daníel, en knýr dyra eitt dimmt óveðurkvöld, afturgenginn, og sest í gamla sætið sitt. Getur hann ekki séð Boggu í friði dauður, fremur en þegar hann lifði? Eða er hann kannski bara að villast? Leitar hann dóttur sinnar - eða gamallar myndar? Eða leiddist honum kannski bara í gröfinni eins og Sál í Auðnuleysingja og Tötrughypju hennar Málfríðar; vantaði félagsskap? Eða langar hann að ríða húsum eins og títt er um íslenska drauga? Bogga er síður en svo ánægð með endurkomuna en getur lítið gert, gefst upp fyrir honum eins og svo oft áður, ber honum kaffi - og áfram halda þau að rifja upp, kýta, takast á í illsku.

Úr sveit í borg

Þegar minningabrotum sögukonu hefur verið púslað saman kemur í ljós æviferill sem á yfirborðinu er fremur tilþrifalítill. Hún er fædd í litlu sjávarþorpi úti á landi, missir móður sína ung og elst upp hjá föður sínum og ráðskonu hans, Þórunni, yngri systur sinni, Brynju og stráknum Jónsa, syni Þórunnar. Vegna fátækar og basls tekur faðir hennar því fegins hendi þegar gamall félagi hans býður henni fóstur í Reykjavík.

Í Reykjavík byrjar að halla undan fæti fyrir stúlkunni. Hún er alin upp við strangan aga og ástleysi, ímyndunarafl hennar smám saman brotið á bak aftur og hvergi hlýju að finna nema helst hjá Dísu vinnukonu heimilisins (sem er rekin burt þegar hún fer að skipta sér af málefnum fjölskyldunnar) og hjá Daníel (blíðuhót hans eru þó ætíð af kynferðislegum toga og vekja með henni ugg). Uppvaxtarár hennar í borginni einkennast af endurtekningu og tilbreytingarleysi „dagar og mánuðir hver öðrum líkir“ (24), eina markverða breytingin verður á persónuleika stelpunnar sem smám saman harðnar.

Lýst er sambandi hennar við karlmenn. Fyrstur var Herbert sem hafði bestu hendur sem hún þekkti. Síðan kom Knútur sem vakti um stund upp aftur stelpuna Ellu og kveikti með henni meiri unað en Daníel gat grunað þrátt fyrir allar sínar tilfæringar. Með honum eignast hún son sem hún síðar missti. Svo var það hermaðurinn Jan sem vildi giftast henni. Um síðir giftist hún þó Daníel þótt til hjónabands þeirra virðist stofnað af einberri örvæntingu, hjálparleysi og einmanakennd af hennar hálfu. Fullorðinsár hennar einkennast af hörku sem endurspeglast í sambandi hennar og Daníels, sambandi hennar og Sigurrósar og sambandi (eða öllu heldur sambandsleysi) hennar við dóttur þeirra Daníels, Lilju. Það eina sem virðist megna að vekja með henni blíðar tilfinningar er minningin um soninn sem dó. Hún minnist hans með miklum sársauka, drengsins sem er kannski sá eini sem kemur henni við nú þegar hún er á förum. Minningunni um hann hefur hún haldið við sem „neista sem ekki mátti slokkna. Sá neisti hafði haldið í [henni] lífinu“ (299). Dóttir hennar gat aldrei komið í stað drengsins. Hún þurfti aldrei eins á henni að halda, gat bjargað sér sjálf. Eða þeirri skýringu virðist hún hafa komið sér upp, kannski til að breiða yfir eigin vanrækslu, eða kannski þorði hún ekki að mynda aftur tilfinningatengsl við barn, eftir að hafa misst hitt.

Tilfinningaminni

Þessi æviferill segir þó ansi lítið um innihald sögunnar. Upprifjun sögukonu spinnst ekki rökrétt í kringum þennan línulega feril, heldur vindur hún frásögnina áfram á tilfinningum sem minningarnar vekja með henni. Hún rekur sig áfram af hörku í gegnum líf sitt, verður að muna, - setja niður fyrir sér hverja mynd, reyna að skilja; til að geta dáið.

Það er heldur aldrei alveg á hreinu hvað er satt og hvað skáldskapur í upprifjuninni. Sögukona minnir sjálfa sig og Daníel (og lesandann) sífellt á hverfulleika minnisins. Hún dregur eigin upprifjun, og ekki síst minningar Daníels, í efa, gefur í skyn að skáldað sé í eyðurnar. En hvað er satt og hvað logið skiptir kannski ekki máli i smáatriðum. Aðalatriðið er að smám saman raðast brotin upp í heilsteypta mynd, söguþráðurinn spinnst um heilt mannslíf, vefur úr ótal þráðum þroska- og örlagasögu íslenskrar konu í gegnum fimm áratugi.

Sorgarrammi

Í stuttu máli lýsir sagan því hvernig stúlkan Ella týnist í fjandsamlegu umhverfi, og eigin hörku. Á fyrstu síðu bókarinnar eru strax gefnir fyrirboðar um ógnvænlega framtíð stúlkunnar í kaupmannshúsinu í Reykjavík. Hún stendur fyrir utan dyr þess, í fyrsta skipti, og hurðarhúnninn minnir hana á krepptan hnefa og í kringum læsinguna er svört rönd: Sorgarrammi. Hún er í fylgd Daníels sem tók á móti henni á bryggjunni. Daníel er bróðir Jakobs og mágur Sigurrósar, hjónanna sem tóku hana í fóstur, og því n.k. frændi stelpunnar. Ástarsamband þeirra ber því keim af sifjaspelli þó þau séu ekki tengd blóðböndum, enda verður „frændi“ bannorð sem hún notar til að stríða Daníel með.

Forboðin aldinin

Bogga er enn bara stelpa þegar Daníel fer að koma við hana, strjúka á henni lærin, girnast hana. Þá vissi hún ekki að hann „girntist aðeins forboðnu aldinin“ (162). Flest við Daníel er öfugsnúið. Ekki bara hin afbrigðilega kynhegðun hans fram eftir öllum aldri, eða háttalag hans eftir dauðann, heldur einnig skoðanir hans á tilverunni í heild. Bogga reynir að loka augunum fyrir því lengst af, en gerir sér þó grein fyrir að „þessi maður tortímdi“ (141). Hún veigrar sér þó lengst af frásagnarinnar að minnast Daníels í hans ógnvænlegustu mynd - og þegar sú minning verður ekki lengur umflúin: „Þetta var allt annar maður, með hakakrossi armbindið um handlegg hans“ (310).

En hvernig var sá Daníel sem Bogga þekkti? Hún vildi hann ekki framan af. Hljóp (alfarin að hún hélt) út úr húsinu þegar hún var hvött til að eiga hann. Lætur síðan undan löngu síðar, þegar henni virðast vera allir vegir ófærir. - Eða hvað? Stjórnaði helber eymdin uppgjöf hennar? Eða „brennandi lostinn“? Er hún kannski eftir allt ekki sá varnarlausi þolandi sem hún virðist vera við fyrstu sýn?

Þegar grannt er skoðað kemur í ljós að Bogga og Daníel eiga ýmislegt sameiginlegt sem kannski bindur þau saman - þrátt fyrir allt. Lánlaus bernska, einmanakennd og utangarðsmennska svo eitthvað sé tínt til. Kannski er það sá Daníel sem hún vill kannast við, en ekki nasistinn, öfugugginn og (mögulega) svikarinn.

Bogga og Daníel fara í brúðkaupsferð til Spánar, en þar hefur Daníel dvalið áður, á stríðstímum. Minningar hans snúast aðallega í kringum þann tíma. Hvaða hlutverki hann gegndi í þeim ósköpum verður aldrei fullljóst af frásögninni. Þó er gefið í skyn að hann hafi átt þátt í að svíkja fólk í hendur nasista. Hann er margsaga um þennan tíma, en óhugnaður stríðsins ásækir hann stöðugt. Í minningum hans blandast stöðugt ofbeldi og losti, afbrigðilegar hneigðir hans skýrast á sviði ofbeldis og dauða.

Konur sem þolendur

Í fyrstu skáldsögu Álfrúnar, Þeli, er efnið alls ekki óskylt því sem hún vinnur með í Hringsóli. Þar er m.a. konan Una, sem lýst er með augum sögumanns og vinar hans Einars. Með augum tveggja karlmanna. Hún er þolandi í tvenns konar skilningi: Þolandi í frásögninni; fær aldrei málið sjálf. Og þolandi í samskiptum við karlmenn sögunnar. Bogga í Hringsóli minnir að mörgu leyti á Unu í Þeli. Tilvera þeirra álíka lánlaus og sársaukafull. En í Hringsóli er konan til frásagnar. Hún er gerandi frásagnarinnar, og kannski meiri gerandi í lífi sínu en mann grunar í fyrstu.

Þetta er strax gefið í skyn þegar hún er enn á barnsaldri og beitir skólasystur sína grimmd. Þar er hún í hlutverki kúgarans. Búin að læra að bíta frá sér. Grimmdin virðist líka stjórna gerðum Boggu í sambandinu við Daníel þegar hann er orðinn gamall og farlama. Og eins er um samband hennar og Sigurrósar. Gefið er í skyn að Bogga hafi komið henni úr húsi, rekið hana burtu af heimilinu gamla og veika. Hér er þó aldrei allur sannleikurinn gefinn. Texti Álfrúnar er aldrei einfaldur, oft tvíræð ur, yfirleitt flókinn eins og lífið. Og persónulýsingar hennar einnig. Hér er ekki hægt að skipta persónum niður í gerendur/þolendur, það er flóknara en svo.

Líkt eftir lífinu

Fyrsta bók Álfrúnar, smásagnasafnið Af manna völdum (1982), ber undirtitilinn „tilbrigði um stef“. Stefið sem Álfrún orti þar út frá var óttinn, og nátengt honum er ofbeldið og illskan. Það er samspil þessara þátta í mannlegum samskiptum sem liggur til grundvallar öllum skáldskap Álfrúnar: Smásögunum, skáldsögunni Þeli (1984) og Hringsóli. Í öllum þessum verkum skiptast á tvö megin sögusvið: Annars vegar meginland Evrópu (aðallega Spánn) á stríðstímum, enda varla til ákjósanlegra sögusvið ofbeldis og ótta sem reynsluheimur vesturlandabúans nær yfir. Hins vegar Ísland nútímans þar sem sjónarhorninu er beint að samskiptum einstaklinga og dregið er miskunarlaust fram samspil þessara sömu þátta og sýnt fram á að í samskiptum fólks geysa einnig styrjaldir, sem eru engu að síður ógnvænlegar og eyðandi, þótt vopnin séu önnur.

Fleiri atriði er hægt að draga fram sem einkenna og „sérkenna“ verk Álfrúnar. Hér má nefna sérstæðan stíl hennar og frásagnarhátt. Í öllum verkunum beitir hún upprifjun. Sögumaður rifjar upp atburði úr lífi sínu, vefur úr minningum sögu einstaklinga í heimi ógna og válegra tíðinda. Í Af manna völdum segir á einum stað:

„Á öllum frásögnum er skipulag; ákveðin tengsl milli persóna og viss samræming í atburðarás. Þessu er öðruvísi farið í lífinu. Minningarnar eru gloppóttar, sjaldan nema smábrot, skyndimyndir á stangli" (109).

 

Með frásagnaraðferð sinni er Álfrún kannski að reyna að líkja eftir lífinu. Hún gerir það á sannfærandi og persónulegan hátt. Álfrúnu hefur tekist að skapa sér persónulegan stíl sem auðvelt er að hrífast af. Hún skapar ljóðrænu með hnitmiðuðum setningum og völdum orðum. Hún fer sparlega með orð, sleppir víða persónufornöfnum og samtengingum, gefur aldrei of mikið upp, segir jafn mikið milli lína og í sjálfum textanum. Þessi frásagnarháttur minnir á ljóðagerð í sparsemi sinni og, oft á tíðum, dulinni merkingu.

Meistaratök

Í Hringsóli hefur Álfrún náð meistaratökum á þessari aðferð. Vefurinn er flóknari en áður enda sagan hennar metnaðarfyllsta til þessa. Smám saman sogast lesandinn inn í heim verksins, fær smátt og smátt að vita meira, verður spenntur - og óttasleginn, skilur vel hvers vegna sögukona veigrar sér við að rifja upp sársaukafyllstu minningarnar, finnur til með henni, blygðast sín með henni. Þannig opnast verkið hægt og bítandi, en þó aldrei að fullu. Mörk tíma og rúms eru þurrkuð út. Frásögnin sveiflast stöðugt milli ólíkra tímaskeiða í lífi sögukonu; æska, unglings- og fullorðinsár og ellin skarast stöðugt í frásögninni sem lesandinn upplifir samtímis hugsunum, tilfinningum og minningum hennar sem segir frá.

Sagan er þannig brotakennd (en þó aldrei sundurlaus) heildarsýn fæst ekki fyrr en við sögulok, og þá aðeins að því marki sem það er mögulegt. Að loknum lestri eru enn óleystar gátur í huga lesandans, en það eru gátur sem Bogga sjálf hefur að öllum líkindum ekki getað ráðið. Hvað var á milli Daníels og Sigurrósar? Hverjar voru tilfinningar Jakobs í garð Boggu? Og þegir Bogga vísvitandi um hvað skeði raunverulega á milli hennar og Sigurrósar? Hér fær lesandinn að hugsa sitt; taka þannig þátt í sköpunarverkinu; vera virkur. Álfrún gerir kröfur til lesandans, heimtar athygli hans óskipta, hjálpar honum áleiðis með endurteknum stefum og hálfkveðnum vísum sem lofa meiru síðar. Þetta gerir lesturinn venju fremur heillandi og spennandi viðfangsefni. Aðeins eitt að lokum: þessa bók verbur að lesa a.m.k. tvisvar. Hún er vel þess virði.

 

Ritdómurinn birtist í örlítið lengri gerð í Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 1988

 

 

Tengt efni