SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 6. apríl 2019

SKRÁSETJARAR MEÐ „COMBINATIONSGÁFU". Þóra biskups...

Sigrún Pálsdóttir. Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 1847-1917. Reykjavík: JPV útgáfa 2010.

 

„Hvort er nú meira spennandi hér, sannleikur eða uppspuni?“ Á þessari spurningu lýkur stuttri en leyndardómsfullri frásögn sem stendur eins og nokkurs konar formáli að bók Sigrúnar Pálsdóttir, Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 1847-1917. Sigrún er þó ekki að gefa í skyn að bók hennar um Þóru og kompaní sé „uppspuni“ enda stendur fremst í bókinni: „Öll samtöl og sviðsetningar í þessari bók eiga sér stoð í heimildum og eru í engu tilviki skáldskapur höfundar.“ Líklega á spurningin að vekja lesandann til umhugsunar um að „sannleikur“ er hugtak sem erfitt er að höndla, jafnvel fyrir fræðimenn sem temja sér traust og fagleg vinnubrögð og eru vandir að virðingu sinni. Allir fræðimenn velja og hafna úr heimildum sínum og búa til þá mynd af veruleikanum sem framreiddur er í texta fyrir viðtakendur.

Á bókarkápunni eru tvær ljósmyndir af Þóru Pétursdóttur frá ólíkum aldursskeiðum hennar. Sú á bakhliðinni er tekin meðan hún er enn ógift heima í föðurgarði en sú síðari eftir að hún giftist Þorvaldi og bætti Thoroddsen við nafn sitt. Margar fleiri ljósmyndir er að finna innan bókaspjaldanna og í frásögn Sigrúnar framkallast ein mynd til. Mynd sem búin er til af Sigrúnu en byggð á margvíslegum heimildum en fyrst og fremst á skrifum Þóru sjálfrar; dagbókum, ferðabókum og sendibréfum hennar til margra aðila um langt árabil. Á blaðsíðu 24 stendur: „Þóra Pétursdóttir biskups er um það bil að hefja líf í eigin frásögn. Hún er átján, að verða nítján“. Þarna verða ákveðin skil í frásögninni því á þeim síðum sem koma á undan þessari setningu hefur Sigrún byggt á öðrum heimildum en eigin frásögn Þóru til að framkalla baksvið þeirrar myndar sem á eftir kemur.

Frásögnin hefst á því að lýst er stórhýsinu sem kennt er við Reykjavíkurapótek og stendur á horni Pósthússtrætis og Austurstrætis. Síðan segir: „En einhvers staðar undir þessari byggingu liggur sögusvið frá öðrum tíma [...]“ (14) og á fáum blaðsíðum eru æskuslóðir og fjölskylda Þóru kynnt til sögu og hún kyrfilega staðsett innan hinnar reykvísku embættismannastéttar. En fátt er vitað um bernsku hennar og Sigrúnu hugnast ekki að geta í eyðurnar. Hún bregður því á það ráð að tengja uppvöxt stúlkunnar við sögulega atburði á skemmtilegan hátt: „Þóra var tveggja ára þegar skólapiltar hrópuðu „pereat“ að Sveinbirni Egilssyni rektor, þriggja ára þegar Trampe greifi var gerður að stiftamtmanni og skáldsagan Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen var gefin út í Kaupmannahöfn, fjögurra ára þegar skarst í odda með föður hennar og Jóni Sigurðssyni á Þjóðfundinum [...] Og Þóra er átján ára þegar í allri Reykjavíkursókn búa um 1500 manns í 200 húsum og bæjum, þegar Reykjavík er „ekkert nema húsin og göturnar og þetta fólk“ kúgandi „hvað annað með njósnum og kjaptæði.““ (18-19). Síðasta tilvitnunin, í Dægradvöl Benedikts Gröndals, er gott dæmi um það hvernig Sigrún kryddar frásögnina með skemmtilegum vísunum í ýmsar ólíkar heimildir. Og áður en kemur að lífi Þóru „í eigin frásögn“ er ítrekuð stéttaleg staða hennar og um leið lögð áhersla á markmið frásagnarinnar: „Á lóðunum umhverfis miðbæinn bjuggu þeir sem verst voru settir, fólkið sem ekki er hluti þeirrar sögu hér er sögð og fjallar um einkaheim embættismanna og kaupmanna sem árið 1865 búa í miðri Kvosinni [...]“ (19).

Eðli málsins samkvæmt eru dagbækur, ferðabækur og bréf þær heimildir sem best birta okkur „einkaheim“ og sá einkaheimur sem er aðalsögusviðið hér er tilvera íslenskra kvenna af embættismannastétt á síðari hluta nítjándu aldar fram á annan áratug þeirrar tuttugustu. Frá sjónarhorni nútímans er þetta kannski ekki spennandi heimur að lifa í, nema að litlu leyti, en frá sjónarhorni lægri stétta samtímans hefur hann vafalaust verið öfundsverður. Innan þessa heims hrærðust konur sem höfðu fáum skyldum að gegna framan af ævi. Þær höfðu meira en nóg að bíta og brenna, lærðu hannyrðir, dráttlist, hljóðfæraslátt og söng, lágu í bókum og biðu eftir ásættanlegum biðli. Og fengu að ferðast. Því má ekki gleyma að ferðalög til útlanda víkkuðu sjóndeildarhringinn svo um munaði og voru stórkostleg ævintýri í tilbreytingarleysi dagana. Við kynnumst þessum heimi í gegnum skrif Þóru – og Sigrúnar. Við fáum nokkuð glögga mynd af greindri og fjörugri biskupsdóttur sem skrifar skemmtileg bréf og teiknar skopmyndir „af feitum og mjóum körlum, körlum að æla og konu að hella úr hlandkoppi af svölum ofan á fína frú“ (29). Það hefði verið gaman að sjá einhverjar af þessum teikningum í bókinni.

Þóra biskupsdóttir var greinilega gædd ýmsum hæfileikum sem hefðu vafalaust verið betur ræktaðir hefði hún verið biskupssonur. Árið 1868, þegar Þóra er 21 árs, skrifar Jakobína Jónsdóttir (sem síðar giftist Grími Thomsen) henni bréf og segir: „skáld ertú, það vissi jeg fyrir löngu“ (42). Árið áður hafði fjölskylduvinurinn Eiríkur Magnússon (bókavörður í Cambridge) hælt henni fyrir mikla „combinationsgáfu“ og glöggt „organiserandi auga“ (42), en hann var einn af skólapiltunum sem sagði biskupsbörnunum til í tungumálum, landafræði, sögu og reikningi þegar þau voru lítil. Og Þóra virðist vera sískrifandi (bréf, ferðabækur, dagbækur) en lítið sem ekkert skáldskaparkyns virðist varðveitt eftir hana (ein vísa er birt í bókinni). En maður getur ekki annað en velt fyrir sér hvort að í Þóru hafi leynst efni í íslenska Jane Austen. Því óneitanlega eru miklar samsvaranir með lífi Þóru og tilveru kvenhetja bresku skáldkonunnar – og þá sérstaklega í sambandi við möguleg og ómöguleg mannsefni. Það sem meira er: Af tilvitnum í skrif Þóru má sjá að hún hefur auga fyrir hinu skoplega og kann vel þá að beita háði og tvíræðni, af ætt Jane Austen.

Sigrún Pálsdóttir hefur kannski smitast af þessum stíl Þóru því frásögn hennar er oft glettin og jafnvel létthæðin enda auðvelt að beina slíku sjónarhorni að „raunum íslenskrar embættismannastéttar“. Þó skal ekki gert lítið úr þeim raunum sem Þóra sjálf mátti þola þegar hún varð fyrir þeirri þungu sorg að missa einkadóttur sína á unglingsaldri. Hún virðist aldrei hafað jafnað sig á þeim gríðarlega missi. En út frá flestum öðrum mælikvörðum tímans var Þóra gæfusöm kona. Hún fékk tækifæri til að leggja stund á söng- og myndlistarnám í Kaupmannahöfn. Hún sótti óperur og leikhús og las Shakespeare á frummálinu. Hún lifði í hamingjusömu hjónabandi með Þorvaldi Thoroddsen, einum virtasta náttúrufræðingi Íslands, þótt hún þyrfti að bíða nokkuð lengi eftir þeim ásættanlega biðli. Þóra var orðin fertug á brúðkaupsdaginn en brúðguminn var átta árum yngri. Fjölskylduna skorti aldrei fé og Þóra dvaldi langdvölum erlendis og bjó reyndar í Kaupmannahöfn síðustu tvo áratugi ævi sinnar. Og þótt hún væri fædd með silfurskeið í munni lét hún að sér kveða á ýmsum sviðum; hún tók þátt í félagsstörfum af krafti og reyndi að gera sig gjaldandi í ýmsum framfara- og góðgerðarmálum og vann að stofnun kvenfélaga og Háskóla Íslands. Og um margra ára skeið rannsakaði Þóra fornt íslenskt handverk með það í huga að gefa út bók um útsaum. Henni vannst ekki tími til að ljúka því verki en hún birti greinar um efnið í innlendum og erlendum kvennablöðum og gaf út Leiðarvísir til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir 1886.

Þóra Pétursdóttir er ein þeirra kvenna sem Hrafnhildur Schram kallar „Huldukonur í íslenskri myndlist“ í samnefndri bók sinni. Þóra var ekki bara sískrifandi heldur einnig síteiknandi. Þóra er elst þeirra kvenna sem Hrafnhildur fjallar um í bók sinni og er greinilegt að hún hefur haft hæfileika á sviði myndlistar. Þá notaði hún vitanlega síðar þegar hún teiknaði upp íslensk útsaums- og vefnaðarmynstur. Á þrítugsaldri stundaði Þóra myndlistarnám í Kaupmannahöfn hjá mikils metnum kennara, Vilhelm Kyhn, sem kenndi flestum þeim norrænu konum af kynslóð Þóru sem síðar áttu eftir að gera myndlist að ævistarfi. En hann var af gamla skólanum og hvatti kvennemendur sína ekki til að leggja listina fyrir sig, þvert á móti „brýndi hann fyrir [þeim] að forðast hina þyrnum stráðu listabraut og taldi að hlutverk konunnar væri að sinna heimilinu“ (sjá Huldukonur í íslenskri myndlist eftir Hrafnhildi Schram). Heima á Íslandi var heldur enga hvatningu að fá né fyrirmyndir sem Þóra gat litið til á þessu sviði. Engu að síður setti hún á fót teikniskóla þar sem 16 stúlkur hefja nám fyrsta árið og síðar áttu piltar einnig eftir að bætast í hópinn, meðal annarra Þórarinn B. Þorláksson. Á Þjóðminjasafni Íslands eru varðveitt 14 olíumálverk og margar teiknibækur Þóru auk dagbóka hennar og bréfa.

Sigrún Pálsdóttir kýs, einhverra hluta vegna, ekki að gera mikið úr þessum þætti í ævistarfi Þóru Pétursdóttur. Til að mynda eru engar myndir af málverkum Þóru eða teikningum að finna í bókinni. Í þessu atriði kemur kannski einna gleggst fram að sú saga sem sögð er af Þóru er byggð á vali sagnfræðingsins ekki síður en hennar eigin frásögn. Í viðtali sem tekið var við Sigrúnu í Morgunblaðinu í tilefni af útkomu bókarinnar segir hún að bréf Þóru og dagbækur séu „einstakar sögulegar heimildir“. Hún bendir á að stíll Þóru sé „hispurslaus“ og að hún lýsi „aðstæðum og atburðum mjög nákvæmlega með sviðsetningum og samtölum“. Og Sigrún ítrekar mat sitt á þessu:

„Þetta er að mínu viti hin raunverulega arfleifð Þóru og sérstaða í Íslandssögunni, ekki myndlistin, hannyrðirnar eða félagsstörfin.“

Það er sem sagt ekki bara „Þóra [sem] býr til sína sögu sjálf og skráir“ (79) heldur er frásögnin líka búin til af Sigrúnu sem metur þær heimildir sem fyrir liggja og velur og hafnar. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að sú mynd sem Sigrún dregur upp af Þóru biskupsdóttur er bæði fróðleg og skemmtileg og bætir miklu við þá heildarmynd sem smám saman er að teiknast upp af lífinu á Íslandi á síðari hluta nítjándu aldar. Og reyndar sætir hún þó nokkrum tíðindum því ekki hafa margar bækur sem út hafa komið á undanförnum árum beint kastljósinu að þeim menningarkima sem skyggður er í bók Sigrúnar. Bókin er mikilsvert framlag til íslenskrar kvennasögu.

Þá er afar fróðlegt að bera það líf sem þarna er lýst saman við aðrar nýlegar bækur, til að mynda bók Matthíasar Viðars Sæmundssonar um fjölskyldu og samtíð Héðins Valdimarssonar (2004) og jafnvel við hina sögulegu skáldsögu Helga Ingólfssonar, Þegar kóngur kom (2009). Þar er samtíð Þóru biskupsdóttur lýst frá víðara sjónarhorni en Sigrún velur og líka fjallað um fólk af lægstu stéttum þjóðfélagsins. En eins og kom fram áður er það fólk „ekki er hluti þeirrar sögu hér er sögð“. Kostulegt er til dæmis að lesa, í Þegar kóngur kom, tilvitnun í Péturspostillu, hugvekjur Péturs Péturssonar biskups – föður Þóru – sem víða voru lesnar á íslenskum heimilum á síðari hluta nítjándu aldar og fram á þá tuttugustu. (Reyndar mörgum til sárrar armæðu eins og lesa má um í íslenskum æviminningum (sjá til dæmis „Lifandi kristindómur og ég“ eftir Þórberg Þórðarson og Gömul kynni Ingunnar Jónsdóttur frá Kornsá)). Pétur biskup skrifar:

 

Sá sem hefur góða heilsu og daglegt brauð, getur í moldarkofum sínum átt langtum rólegri daga en margir ríkismenn í reisulegri húsum og valdsmenn í vandasömum embættum, einungis ef hann sjálfur vill vera ánægður með stöðu sína og öfundar ekki aðra af því, sem þeir í raun og veru eru ekki öfundsverðir af.

Í mannlegu félagi verður að vera einhver röð og regla, þessvegna verða þar að vera ýmislegar æðri og lægri stéttir, yfirboðnir og undirgefnir. (Tilv. eftir Þegar kóngur kom, s. 108-109)

 

Þannig réttlætti hin íslenska embættismannastétt forréttindi sín og misjöfn kjör manna á síðari hluta nítjándu aldar og reyndi að sætta hina verr settu við sinn hlut. En íslenskt samfélag var í örri þróun og Þóra biskupsdóttir lifir tíma sem boðuðu miklar breytingar:

„Heimur hennar hefur smám saman verið að riða til falls og þegar stríð skellur á sumarið 1914 hugsar hún með sér að nú hafi Guð gripið í taumana. Neysluhættir nútímans með nýjum framleiðsluháttum ásamt óstjórn og aðgangi að lánsfé eru að leysa upp stéttskipt samfélag nítjándu aldar“ (212).

 

Í raun er Þóra kona tveggja tíma og má teljast til „nútímakvenna“. Það má merkja af áhugamálum hennar, sem hefðu getað orðið annað og meira en „áhugamál“ hefði hún fæðst síðar. Þegar hún deyr árið 1917 er hún „komin óravegu frá hinu óhagganlega samfélagi embættismanna um miðja nítjándu öld og hinum formfast heimi landshöfðingjatímans“ (213). Saman hafa þær Sigrún og Þóra (í eigin frásögn) sett „nítjándu öldina í sögu Íslands á hreyfingu með hljóði“ (215) því báðar eru þær skrásetjarar með „combinationsgáfu“.

Ritdómurinn birtist í Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2011.

 

Tengt efni