SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir10. október 2020

ÞEGAR EKKERT BREYTIST. Aprílsólarkuldi

Elísabet Kristín Jökulsdóttir. Aprílsólarkuldi. Reykjavík: JPV 2020, 143 bls.

 

Í nýrri skáldsögu Elísabetar Jökulsdóttur segir frá Védísi sem ung missir föður sinn. Í raun hafði hún misst hann fyrir löngu og kannski aldrei átt.

Faðirinn var frægt skáld, frægur fyrir frumleg leikrit og skáldsögur, frægur fyrir rauða hárið, drykkjuþolið og bóhemlífið. Alla barnæskuna beið Védís eftir að hann gæfi henni gaum, að hann sinnti fjölskyldunni, að hann hætti að drekka. En hann dó, aleinn í sjúkrarúmi, ekki fimmtugur að aldri.

 

Þessi maður hafði ekkert gefið þessari fjölskyldu nema það að vera langþráð takmark í fjarska og heilt búnt af óuppfylltum væntingum og sólin snerist í kringum hann uppá stallinum, þar sem þau höfðu komið honum fyrir, vegna hans eigin kröfu og þau elskuðu hann öll og biðu eftir því að hann myndi breytast. Þá myndi allt annað breytast. (25)

 

Á þeim tíma sem er skilgreindur í sögunni, frá apríl 1978 til september 1979, er ekkert sérstaklega mikið hugsað almennt um langvarandi og skaðleg áhrif drykkju foreldris á börn og aðstandendur. Móðirin tók æðisköst yfir ástandinu, börnin létu lítið fyrir sér fara. Védís ber þess merki að hafa alist upp við alkóhólisma og meðvirkni, sem birtist í samskiptum hennar við annað fólk, t.d. kærastann. Öllu þessu er lýst af innsæi, samúð og mannskilningi.

Védís dýrkaði pabba sinn og reyndi allt til að ná athygli hans og þóknast honum. Höfnun frá honum fylgdi henni áfram í gegnum lífið, hún var aftengd sjálfri sér og eigin tilfinningum, alltaf að reyna að vera eins og aðrir vildu hafa hana. Sár reynsla og erfiður þroski búa að baki sögunni og mikið hugrekki þarf til að takast á við það og koma því í orð.

Heiti skáldsögunnar, Aprílsólarkuldi, vísar til veðursins þegar faðir hennar var borinn til grafar 1978. Allir vita að Védís er Elísabet sjálf, faðir hennar heitinn er Jökull Jakobsson og móðir Jóhanna Kristjónsdóttir en yfirbragð frásagnarinnar er samt skáldsaga. Í lokin ná sorgin og reiðin hámarki í sársaukafullu uppgjöri við fortíðina, er þar huggun eða fyrirgefningu að finna?

Þessi magnaða saga er aðeins um tiltekið tímabil. Hún er ekki um barnæskuna. Það er líklega efni í aðra bók.

 

 

 

Tengt efni