SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir16. maí 2018

ÞRÍLEIKUR LILJU SIGURÐARDÓTTUR

 

 

Lilja Sigurðardóttir er löngu komin í hóp okkar fremstu glæpasagnahöfunda. Hún hefur sent frá sér alls fimm spennusögur en nú síðast kom út síðasta bókin í þríleik hennar um stöllurnar Sonju og Öglu. Fyrsta bók þríleiksins, Gildran, kom út árið 2015, Netið ári síðar og Búrið kom út fyrir síðustu jól.

Spennusagnaþríleikurinn er um margt óvenjulegur. Hinn þreytulegi og þunglyndi, miðaldra lögreglumaður er víðs fjarri en þess í stað eiga samkynhneigðar konur sviðið sem er mjög frískandi nálgun og skemmtileg tilbreyting. Lilja segir sjálf svo frá að hún hafi valið hinsegin konur til að nálgast eigin reynsluheim auk þess sem henni fannst vanta fleiri lesbíur í íslenskar bókmenntir (sjá hér).

Sonja og Agla, sem bera þríleikinn uppi, eru ekki einungis á skjön við hinar hefðbundnu staðalmyndir vegna kynhneigðar sinnar heldur eru þær einnig útsmogin glæpakvendi. Þetta eru engar venjulegar miðaldra húsmæður í Vesturbænum. Sonja er smyglari og Agla er hvítflibbaglæpakona og líf þeirra beggja er býsna litríkt og jafnvel um of á stundum. Ævintýrið er jafnan skammt undan og því fer fjarri að persónusköpunin sé máluð svarthvítum litum. Sonja og Agla eru báðar afar breyskar manneskjur og þó svo að þær svífist nær einskis þegar mikið liggur við eru þær svo umkomulausar að það er ekki annað hægt en að finna til með þeim og kenna fjandsamlegu umhverfi um bágindi þeirra. Einsemd þeirra og öryggisleysi endurspeglast einkar vel í lýsingunum á ofurviðkvæmu ástarsambandi þeirra.

Bækurnar þrjár eru samanlagt ríflega þúsund blaðsíður að lengd og að sama skapi viðburðaríkar. Lesanda er veitt innsýn jafnt í undirheima Reykjavíkur og flókna fjármálagjörninga sem ekki þola dagsljósið og má ætla að Lilja hafi varið talsverðum tíma í rannsóknarvinnu. Þá kemur margt við sögu sem er augljóslega útpælt, á borð við hugvitsamlegar leiðir Sonju til að smygla dópi milli landa og fjármálavafstur Öglu. Það fer mörgum sögum fram og haldið er vel á öllum þráðum allt til enda. Fátt er fyrirsjáanlegt og kemur lokahnykkurinn ekki hvað síst á óvart en þar er tekinn algjör viðsnúningur á framvindu sögunnar. Það vill þó stundum bera við að óþarfa smáatriði og útskýringar hægi full mikið á frásögninni en þegar atburðarásin er komin vel af stað er vart hægt að leggja söguna frá sér.

Lilja Sigurðardóttir stendur öðrum spennusagnahöfundum síst á sporði og er óhætt að segja að hún taki þeim flestum fram í frumleika. Þegar Gildran kom út var strax slegist um kvikmyndaréttinn á henni en hann kom í hlut Palomar Pictures, fyrirtækis Sigurjóns Sighvatssonar. Vonandi ratar sagan öll á hvíta tjaldið áður en langt um líður.

Það er gaman að segja frá því að í gærdag (14. maí 2018] skrifaði Lilja undir saming við Forlagið um nýja bók. Þetta er spennusaga með pólitísku ívafi og er hún væntanleg í október. Sjálfsagt bíða margir nýrrar sögu frá Lilju í ofvæni og ekki einungis íslenskir lesendur því útgáfurétturinn á ensku er nú þegar seldur.

 

 

Tengt efni