SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir22. apríl 2019

LJÓÐ UM LÍF, DRAUMA, ÁST OG TÍMA. Þerna á gömlu...

Kristín Ómarsdóttir. Þerna á gömlu veitingahúsi. Reykjavík: Mál og menning 1993

 

Kristín Ómarsdóttir er einn af okkar frumlegustu og skemmtilegustu rithöfundum. Það hefur hún margsannað í sögum sínum, ljóðum og leikritum. Árið 1993 kom út ljóðabók eftir hana sem heitir Þerna á gömlu veitingahúsi. Þetta er önnur ljóðabók Kristínar en sú fyrri nefndist Í húsinu okkar er þoka og kom út árið 1987.

Þerna á gömlu veitingahúsi hefur að geyma 27 ljóð sem flest eru afar myndræn. Klisjan „að mála með orðum“ á einkar vel við um þessi ljóð, mörg þeirra orka á mann sem uppstillingar, myndir sem lifa lengi í hugskotinu eftir lesturinn. Sem dæmi um þetta má nefna ljóðin „Lokuð brúðarnótt,“ „hvít fiðrildi,“ og „morgunverk brúðgumans“. Þessi ljóð eiga einnig öll sameiginlegt að lýsa uppáklæddri brúði. En þetta er engin venjuleg brúður nýgift og hamingjusöm, brúðirnar í ljóðum Kristínar liggja rykfallnar á kistubotni eða sitja þögular og kyrrar á meðan fiðrildi eða fólk snúast í kringum þær:

 

brúðurin í hvíta brúðarkjólnum
sem teygir faldinn í næsta hús
slörið vafið brúnu hárinu
og fingrum móður hennar
brúðurin sú
hún situr með græna flösku í
fanginu á meðan faðir hennar
málar táneglur hennar bleikar
og brúðguminn færir til töskur
úr dökku leðri uppá þakgrind
svarta bilsins
brúðurin sú
(úr morgunverk brúðgumans)

 

Þessi brúðarljóð minna á titil skáldsögu Kristínar Ómarsdóttur, Svartir brúðarkjólar sem kom út 1992. Líkt og gildir um þann bókartitil eru þessi brúðarljóð einhvers konar öfugmæli eða umsnúningur, alla vega ný sýn og óvænt á aldagamalt fyrirbrigði. Þetta má reyndar segja að gildi um mikið af skáldskap Kristínar Ómarsdóttur. Í ljóðum sínum og sögum dregur hún upp myndir af fyrirbærum og tilfinningum sem við teljum okkur þekkja og sýnir okkur nýjar víddir.

Í ljóði sem nefnist „heimiiisfriður“ er friðhelgi einkalífsins lýst á þennan veg:

 

börnin þrjú sleikja mjólkina
af trjánum
móðirin situr í bambus
stól og heklar hjörtu saman f
aðirinn kemur heim
er sól fellur
skilur eftir sig þung
spor
í götunni
móðirin sópar yfir þau
og refirnir blindast
hingað kemst enginn
Í ljóði sem nefnist „draumur“ er falleg mynd af móður:
móðir kemur tilbaka
með svuntu um sig miðja
heldur á hljóðlátum
bakka
kemur tilbaka
kringlur
heitir
brauðsniglar
skríða upp
barminn
kemur tilbaka
gullsmjör!
mjaðmir hennar hreinar
augun jafn blá
kemur tilbaka
ilmandi farangurinn

 

Konur eru margar í þessum ljóðum eins og alltaf í textum Kristínar. Hér eru brúðir, mæður, skáldkonur, ástkonur, þernur og drottningar. Og í ljóðinu nýjar tunglnætur koma fyrir „þjrár konur með klukkuhöfuð" sem auðvelt er að túlka sem tákn fyrir lífið eða þann tíma sem okkur er gefinn; kannski eru þetta örlaganornirnar þrjár, Urður, Verðandi og Skuld. Alla vega eru eru þetta konur sem elska ljóðmælandann: „sem ungling / sem barn / sem konu / sem karl.“ Þetta ljóð er eitt af þeim lengri, í bókinni. Í fyrstu ljóðabók Kristínar var mikið um löng, frásagnarkennd ljóð en í þessari bók eru ljóðin yfírleitt styttri, ljóðrænni og myndmálið óræðara.

Í nýju bókinni sýnir Kristín okkur eins og svo oft áður inn í heim fullan af hugarflugi og furðum. Hér fljúga dúfur með bréf undir vængjum og hringa í goggum, hér synda dúfur á tjörn eða bregða sér í hlutverk gardínu, hér geta dúfurnar lýst rauðar um nætur og leikið ást og drauma. Viðdvöl í þessum skáldskaparheimi er ánægjuleg og virkar hvetjandi á ímyndunarafl og tilfinningahrif. Frumleiki Kristínar sem ljóðskálds felst bæði í stíl hennar og efni, en það er þó ferskt og minnisstætt myndmál sem gerir útslagið. Þetta er ljóðabók sem enginn sem vill fylgjast með vaxtarbroddi íslenskrar ljóðlistar ætti að láta fram hjá sér fara. Það eina sem ég saknaði var að Kristín Ómarsdóttir skyldi ekki vinna kápuskreytingu bókarinnar sjálf - í þeim er hún einnig frábær.

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu 23. des. 1993

 

 

Tengt efni