SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir24. ágúst 2021

ORÐIN OG ÞÖGNIN. Þessa heims

Guðrún Hannesdóttir. Þessa heims. Reykjavík: Höfundur 2018, 67 bls.

 

 

Guðrún Hannesdóttir kom fyrst fram á sjónarsvið bókmennta sem myndlistarmaður. Það var með bókunum Gamlar vísur handa nýjum börnum (1994) og Fleiri gamlar vísur handa nýjum börnum (1995) þar sem hún myndskreytti valdar íslenskar vísur á einstaklega smekklegan og fallegan hátt.

Á næstu árum bættust við sjö bækur ætlaðar börnum þar sem Guðrún myndskreytti sögur eftir sjálfa sig og aðra og hlaut hún ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir framlag sitt til barnamenningar.

Árið 2007 hlaut Guðrún Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið „Offors“ sem dregur upp frumlega og afar skemmtilega mynd af rabbarbara. Síðan þá hefur hún verið iðin við (ljóða)kolann og sent frá sér sjö ljóðabækur: Fléttur (2007), Staðir (2010), Teikn (2012), Slitur úr orðabók fugla (2014), Humátt (2015), Skin (2016) og nú síðast Þessa heims (2018) sem hér er til umræðu.

 

 

Þessa heims

Ljóðagerð Guðrúnar hefur alla tíð einkennst af djúpri náttúruskynjun, hún yrkir um samband einstaklings og náttúru, lýsir sambandi sem byggir á skynjun og tilfinningum. Ljóðin í nýju bókinni eru engin undantekning frá þessu meginviðsfangsefni skáldsins. Ljóð Guðrúnar eru gjarnan knöpp í formi, fáorð og láta lítið yfir sér við fyrstu sýn; merkingin liggur ekki alltaf ljós fyrir við fyrsta lestur. Fyrsta ljóð bókarinnar er gott dæmi um allt ofannefnt:

 
vað
 
lútir þú eyra
niður að ánni
heyrirðu síkvika
steinana hjala
 
sérð þá rauðleita
gullna, hvíta
leika í skuggum
og glitra á víxl
 
upprisin
heyrir þú
ekkert hljóð
 
sérð aðeins
að áin ljómar
spegilskyggnd
þögul
 
eins og náð
niðurstigin

 

Hér er lýst upplifun einstaklings af rennandi vatni, steinum og birtubrigðum. Skynfærin eyru og augu eru virkjuð og sjónarhornið ferðast frá hinu smáa og einstaka (steinunum) til þess stóra og yfirgripsmikla (áin sem ljómar). Andstæðan „upprisin“ og „niðurstigin“ er skemmtilega tvíræð, samhengið verður trúarlegt um leið og myndin af manneskju sem lýtur niður að vatni og reisir sig aftur upp stendur fullkomlega fyrir sínu. Vakinn er grunur um náttúruskynjun sem er af trúarlegum toga, ekki síst þegar orðið „náð“ er haft í huga.

Lesandi ljóðsins hlýtur að velta fyrir sér titlinum „vað“, því ekkert í sjálfu ljóðmálinu bendir beint til þess að sá sem er ávarpaður sé á leita vaðs eða gangi yfir ána. Titillinn gæti vakið hugrenningartengsl við ána Styx sem skilur að heim hinna lifandi og dauðu og slík hugrenningatengsl styrkjast með tilvísuninni í Paradísarmissi Miltons sem stendur neðst á síðunni, undir ljóðinu: „A river of bliss runs through it“, en í kvæði Miltons rennur „river of bliss“ um sjálft himnaríki.

Næsta ljóð hefur beina tenginu við það fyrsta:

 
auðveldast var
að fara yfir
á englavaðinu
 
þó kátínan
og hláturgusurnar
risu þar hæst
splundraðist mistrið
marglitt og létt
eins og eðalsteinar

 

„Englavað“ er nýyrði skáldsins en myndin er lifandi og einkar skemmtileg. Titill ljóðsins er „brot úr draumi“ en í þriðja ljóði er sleginn dekkri tónn:

 
annað brot
 
hjörturinn rann
hvergi sína helgi fann
 
sorgin ör
gegnum kverkarnar
 
þegar dagur reis
breyttust tár hans
 
jafnharðan
í stein

 

Enn eflast tengslin, hjörturinn er þekkt tákn fyrir Krist og síðasta orðið tengir öll þrjú ljóðin saman. Þannig mætti rekja sig áfram eftir bókinni ljóð frá ljóði og sýna fram á úthugsaða byggingu og tengls milli ljóða. Það verður þó ekki gert hér – enda 63 ljóð í bókinni – en lesendur eru hvattir til að leita tenginga og kafa undir yfirborðssvið textans.

Þagnir

Þagnir hafa lengi verið stílbragð í ljóðmáli Guðrúnar, aldrei er of mikið sagt. Eitt ljóðanna heitir einfaldlega „ég“ og hér dregur skáldið upp sjálfsmynd:

 
ég
 
einu sinni talaði ég
í hálfum setningum
 
nú er ég orðin miklu
betri í að þegja
 
ég næ dýpri og lengri þögn
með hverju ári sem líður
 
ég hugsa þetta þannig, að þegar
ég steinþagna alveg að lokum
 
verður heldur enginn eftir
til að hlusta
 
... hvað eruð þið að gefa í skyn?

 

Í Þessa heims er þögnin einkar áberandi sem yrkisefni. Hún getur birst sem hrímfallið lauf, „fátt er hljóðara“, eins og segir í ljóðinu „lauf“ (14); hún er „samfrosin hella / fyrir hlustunum“ á veturna þegar náttúran er hljóð, eins og segir í ljóðinu „veturseta“, en „ég mun aftur heyra / landsins heita hjarta slá“ segir ljóðmælandi fullur vonar og vissu: „það er svo satt sem ég sit hér“ (15).

Orðið „þögn“ fyrirfinnst í fjölmörgum ljóða bókarinnar (sjá bls. 10, 15, 20, 21 ,26, 28, 29, 37, 49) og í öðrum er vísað til hennar óbeint. Þögnin getur birst í óvæntum samlíkingum:

 

hind
 
þögn er aldrei einhlít
né ein á ferð
 
líkist í því stúlkubarni
sem þræðir varlega sína braut
smáum fótum
 
með alfermi eggfrumna
og fiðring í grönnum
öxlum
 
fyrstu merki um einskæra vængi
eða önnur margbrotnari
hamskipti

 

Spunnið og fléttað

Ljóðlist felst kannski einmitt í því að spinna úr hugsunum sínum vef orða og þagna. Á slíkum spuna hefur Guðrún Hannesdóttir mjög góð tök. „öll falla orðin / af fáheyrðri mýkt“ segir í einu ljóðanna („sláðu hægt mitt hjarta“) og líkingin við það að flétta kemur við sögu í sama ljóði þar sem ljóðmælandi segir að hægt sé að rekja upp „fléttu / okkar ótæku tíðar“ og flétta „hana upp á nýtt / úr nýjum orðum // flauelsmjúkum / fimum fingrum“ (35).

Ljóðið „leiftur“ lýsir vel iðju þess sem sýslar með orð, spinnur og fléttar, og athugar hversu vel þau fara í munni:

 
væru orðin ekki þegar búin að sprengja
af sér þagnarhýðið hefði mátt geyma þau
í skál, eins og baunir
 
láta þau renna milli fingra, vega þau í lófa sér
eins og til að meta hvort ekki sé komið
nóg handa öllum
 
lauma jafnvel einu og einu í munninn, máta þau
við jaxl eða beitta augntönn bíta eða spýta þegar
enginn sér til
 
þá gengju þau björtustu manni síður úr greipum
og minni hætta væri á að sitja eftir með sárt ennið
og hendur fullar af hismi

 

Vísanir í þjóðkvæði og –sögur – og ádeila

Í ljóðum Guðrúnar má oft sjá vísanir í þjóðlega hefð, kvæði og sögur, og slíkt er einnig að finna í Þessa heims. Ljóðið „sjaldan hef ég ...“ er skemmtileg vísun í þjóðsögu þaðan sem þekkt orðtak er sprottið:

 
landlægur skortur á feitmeti varð þess valdandi
að næturlangt þagnarbindindi var rofið
og stórbrotinn viljastyrkur og staðfesta
brotin á bak aftur í tilfelli Fúsa
 
tilfinnanleg vöntun á krossgötum olli því hins vegar
að ógerlegt var að skera úr um hvort sagan hafi
endurtekið sig og tölulegar mælingar á ístöðuleysi
landsmanna því lengi vel úr sögunni
 
þar til nú
 

Í ljóðinu felst að sjálfsögðu ádeila á neyslu, bruðl og græðgi – eins og ítrekað er í þarnæsta ljóði:

 
skollaeyru
 
skrjáf peningaseðla
svo undurlétt
og svalandi
 
yfirgnæfir bæði kvein
betlaranna hrjáðu
tötrabarnsins
örþyrsta
og allt úrelt fjas
um fagurt mannlíf
 
 
Þótt í upphafi verið bent á að náttúran sé það yrkisefni sem Guðrúnu Hannesdóttur virðist tamast, má ljóst vera, af þeim dæmum sem hér hafa verið tekin, að hún yrkir einnig um heimspekileg og samfélagsleg málefni. Lengi mætti enn pæla í ljóðum þessarar nýju bókar (sem og í þeim fyrri). Sá lesandi sem hér skrifar á áreiðanlega eftir að fletta bókinni oftar og sökkva sér í ljóðin og uppgötva nýja merkingarheima – eða bara njóta hinna vel fléttuðu ljóða, þeirra flauelsmjúku jafnt sem hinna hvassari.

 

 

 

 

Tengt efni