SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir16. október 2017

EKKI ÚTDAUTT ENN. Slitur úr orðabók fugla

Guðrún Hannesdóttir. Slitur úr orðabók fugla. Reykjavík: Salka 2014, 48 bls.

Slitur úr orðabók fugla (2014) er fjórða ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur. Hún fer sér hægt í ljóðagerðinni en ferill hennar spannar nú tuttugu ár. Í nýju bókinni eru 33 ljóð sem öll tengjast fuglum á einhvern hátt eins og titillinn gefur til kynna. Hér birtast m.a. kristilegar dúfur, stressuð lóa, svekktur svanur og gaukur í klukku. Sumir fuglar tala, aðrir eru feigir eða jafnvel dauðir, frosnir við svell eða standa í ljósum logum, þeir eru greyptir í gull og blý en allir eiga þessir fuglar við okkur erindi.

Hér er á ferð útpæld, þematísk og heildstæð ljóðabók með skemmtilegum vinklum. Myndmálið tengist þemanu náið, fugl er algengt tákn í bókmenntum sem skírskotar í ýmsar áttir en stendur oft fyrir frelsi og frelsisþrá. Myndmálið er skýrt og einkennist af vísdómi og fáguðum smekk, ljóðlínurnar haganlega smíðaðar, húmor aldrei langt undan og niðurstaðan oft óvænt, ef ekki íronísk.

Táknum eins og vængjum, fjöðrum, hvössum goggum og krepptum klóm bregður fyrir í ljóðunum og yfir flögrar lúmsk ádeila sem birtist m.a. í að samúð ljóðmælandans er með dýrum frekar en mönnum. Vísanir eru víða, t.d. í bókmenntir fyrri alda, s.s. Egils sögu, sumar skýrðar í athugasemdum í bókarlok, aðrar svífa yfir vötnum þar til þær tengjast einhverju í huganum sem kalla má almenna þekkingu (miðaldra fólks), eins og t.d. „litla gula fræ / það var ég sem fann þig / svona hnöttótt og skínandi / og stútfullt af möguleikum“ (8).

Eftirfarandi er gott dæmi um ljóð úr bókinni. Hér talar geirfuglinn en eins og kunnugt er dó hann út um miðja 19. öld vegna ofveiði, hann var eltur uppi ófleygur og varnarlaus. Í ljóðinu lýsir fuglinn örvæntingu sinni og feigð. Formið er frjálst en takturinn minnir á forna bragarhætti:

 

geirfugl
(ertu aftur farinn að gráta?)
skerið mitt sokkið
öndvegið víðsýna
leikvangur ljóssins
og hreiðurklöppin mín fegurst allra
hjarta mitt skelfur
líkt og dauðaþögnin
rétt fyrir jarðskjálftann mikla
angistin nístir sem
logandi teinn
eggið mitt kólnar
á skötuskeri
tjóðraður við
minn titrandi skugga
bíð ég komu mannanna
með bareflin
brugðnu
(25)

 

Það er alltaf von á góðu frá Guðrúnu Hannesdóttur. Á meðan skáldskapur eins og Slitur úr orðabók fugla er til á Íslandi þarf ekki að óttast að ljóðið hljóti sömu örlög og geirfuglinn.

Greinin birtist fyrst í Kvennablaðinu, 12. mars 2015

Myndin er sótt á vefsíðu Pressunnar

 

 

Tengt efni