SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir13. febrúar 2025

HALLA Á LAUGABÓLI

 

Í fyrsta þætti Kiljunnar í ríkissjónvarpinu í gær var ítarlegt og fróðlegt innslag um Sigvalda Kaldalóns lækni og tónskáld sem samið hefur margar perlur íslenskrar tónlistarsögu. Þar var meðal annars fjallað um vinasamband og samstarf Sigvalda og Höllu Eyjólfsdóttur á Laugabóli, ljóðskáld og bóndakonu.

Halla var stórmerk skáldkona, auk þess að vera margra barna móðir og önnum kafin bóndakona. Eiginmaður hennar stundaði sjómennsku þannig að mesti þunginn af heimilishaldinu, barnauppeldinu og sveitastörfunum lá á herðum Höllu. Það kom þó ekki í veg fyrir að hún sinnti ljóðlistinni og garðyrkju, en hún ræktaði fallegan skrautjurtagarð við heimili sitt. Um Höllu má lesa í Skáldatalinu okkar.

 

Sigvaldi Kaldalóns samdi mörg lög við ljóð Höllu en einnig bar við að hann leitaði til hennar um ljóð við lag sem hann var búinn að semja. Það er til að mynda við í tilviki hin þekkta lags hans „Ég lít í anda liðna tíð". Í færslu um Höllu í bókinni Merkir Íslendingar má lesa:

 

Í einni heimsókninni til Höllu spilaði Sigvaldi fyrir hana lag og bað hana um að yrkja við það ljóð. Lagið hafði hann samið áratug áður í minningu unnustu sinnar sem lést aðeins 19 ára gömul. Hann vildi þó ekki gefa upp, við Höllu, um hvað ljóðið ætti að vera nema að það væri um ljúfsárar minningar. Úr varð svo fallegi textinn við Ég lít í anda liðna tíð. Lagið var síðar flutt við jarðarför Höllu og hefur verið flutt við jarðarfarir afkomenda hennar alla tíð síðan.

 

 

 

Ég lít í anda liðna tíð,
er leynt í hjarta geymi.
Sú ljúfa minning létt og hljótt,
hún læðist til mín dag og nótt,
svo aldrei, aldrei gleymi,
svo aldrei, aldrei gleymi.

 

 

Halla Eyjólfsdóttir leitaði til þjóðskáldsins og frænda síns Matthíasar Jochumsson bréflega, sendi honum handrit að kvæðabók, bað hann að meta ljóðin sín og ráðleggja sér um útgáfu. Um viðbrögð Matthíasar má lesa í grein Helgu Kress: „MÓÐIR, KONA, MEYJA: MATTHÍAS JOCHUMSSON OG KONURNAR", hér á vefnum. Á einum stað segir hann: „jeg álít yður skáld, gott skáld. Framan af syrpunni fundust mér ljóð yðar fremur vera laglegur kveðskapur en skáldskapur. En þegar í miðja bókina kom, voruð þér orðin eitthvert helzta kvenskáld á Íslandi.“

Þeim sem vilja kynna sér skáldskap Höllu og ævi er bent á greinina „MIG LANGAR AÐ FLJÚGA OG FLJÚGA SVO HÁTT" eftir Gunnhildi Sif Oddsdóttur, hér á vefnum; á formála Guðfinnu M. Hreiðarsdóttur að bókinni Svanurinn minn syngur. Ljóð og líf skáldkonunnar Höllu Eyjólfsdóttur (2008), sem og á skáldkvennatal Helgu Kress í bókina STÚLKA. Ljóð eftir íslenskar konur (2001). Einnig á nýlega grein eftir Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur: „EIN SEM UNNI: leyndir þræðir í ljóðagerð Höllu á Laugabóli" sem birtist í ritinu Menning við ysta haf (2023).

 

Tengt efni