SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Oddný Eir Ævarsdóttir

Oddný Eir Ævarsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1972. 

Hún lagði stund á heimspeki við Háskóla Íslands en vann í útvarpi samhliða námi á Íslandi og stundaði tungumálanám í Ungverjalandi. Eftir að hún lauk meistaraprófi í stjórnmálaheimspeki árið 2000 hélt hún í doktorsnám í París þar sem hún lauk DEA-prófi frá Sorbonne-háskóla. Ritgerð hennar þar fjallaði um pólitíska þýðingu skjalasafnsins. Hún hélt doktorsnáminu áfram í EHESS-háskóla Parísarborgar en flutti síðan til New York.

Oddný Eir hefur starfað um árabil á safnavettvangi og í myndlistarheiminum við rannsóknir, ritstjórn, kennslu, skriftir og sýningarstjórnun. Hún hefur unnið náið með móður sinni Guðrúnu Kristjánsdóttur myndlistarkonu og rak ásamt bróður sínum Ugga Ævarssyni fornleifafræðingi bókverkaútgáfuna Apaflösu og sýningarrými í New York. Þá hefur Oddný Eir verið virk í baráttu fyrir náttúruvernd, meðal annars í samvinnu við Björk.

Ljóðabókin Snjór piss hár eftir Oddnýju Eir kom út árið 2000 ásamt fjórum öðrum smábókum í öskju frá Apaflösu. Á sama tíma skrifaði Oddný kvikmyndahandrit um listamanninn Mugg með Kristínu Ómarsdóttur en handritið hlaut fyrstu verðlaun Kvikmyndasjóðs.

Árið 2004 sendi Oddný frá sér sína fyrstu skáldsögu Opnun kryppunnar. Bókin var tilraun með sjálfsævisöguformið og í framhaldinu hélt rannsóknin á því formi áfram. 

Skáldsögurnar Heim til míns hjarta (2009) og Jarðnæði (2011) leika á mörkum sjálfsævisögu og skáldskapar. Þær hlutu báðar góðar viðtökur og dóma og Jarðnæði var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, hlaut Fjöruverðlaunin og Bókmenntaverðlaun Evrópu árið 2014. Jarðnæði kom út í færeyskri þýðingu árið 2015 og kom út í enskri þýðingu í Bandaríkjunum árið á eftir og fleiri þýðingar á bókinni hafa komið síðan.

Prósabókin Slátur/slaughter sem Oddný Eir skrifaði í samvinnu við Ófeig Sigurðsson og Mathias Augustyniak kom út 2012 í París. Árið 2014 sendi Oddný Eir frá sér skáldsöguna Ástarmeistarinn: blindskák þar sem hún heldur áfram að gera tilraun með skáldsöguformið í ramma hinnar hefðbundnu ástarsögu. Bókin var tilnefnd til Rauðu fjaðrarinnar fyrir erótískar lýsingar. 

Að vori 2015 kom út sjálfsævisöguleg bók Oddnýjar, esseyjan Blátt blóð: í leið að kátu sæði . Þar fjallar Oddný um persónulega reynslu sína af ófrjósemi og þeirri sterku þrá að eignast barn. Amazon Crossing keypti útgáfurétt bókarinnar og gaf söguna út í raftímaritinu Day One og í kjölfarið sem sjálfstæða rafbók. Í maí 2015 kom Fæðingarborgin út, bók sem hún vann ásamt föður sínum Ævari Kjartanssyni en í bókinni eru birt bréf á milli sona og mæðra, feðra og dætra. Áfram heldur því sjálfsævisöguleg rannsókn Oddnýjar Eirar.

 


Ritaskrá

  • 2017  Undirferli: yfirheyrsla
  • 2015  Fæðingarborgin
  • 2015  Blátt blóð
  • 2014  Ástarmeistarinn: blindskák
  • 2012  Slátur / Slaughter (með Ófeigi Sigurðssyni og Mathias Augustyniak)
  • 2011  Jarðnæði
  • 2009  Heim til míns hjarta: ilmskýrsla
  • 2004  Opnun kryppunnar: brúðuleikhús

 

Tilnefningar

  • 2011  Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Jarðnæði

 

Þýðingar

(í vinnslu)

  • 2020  Zelja i mir (Dora Macek þýddi á króatísku)
  • 2019  Virsmas (Jüraté Akuceviceute þýddi á litháísku)
  • 2019  Tierra de amour y ruians (Fabio Teixidó þýddi á spænsku)
  • 2017  Land van liefte en ruïnes (Kim Liebrand þýddi á hollensku)
  • 2017  Prostori (Tanja Latenovic þýddi á serbnesku)
  • 2016  Blátt blóð. Leitandi að kátum sáði (Carl Jóhan Jensen þýddi á færeysku)
  • 2016  Land of love and ruins (Philip Roughton þýddi á ensku)
  • 2016  Terreni (Silvia Cosimimi þýddi á ítölsku)
  • 2015  Jarðnáðir (Carl Jóhan Jensen þýddi á færeysku)

 

Heimasíða

https://eir5.wordpress.com/

Tengt efni