LEIKUR, ÁSTRÍÐA, ALVARA. Opnun kryppunnar
Oddný Eir Ævarsdóttir, Opnun kryppunnar. Brúðuleikhús, Bjartur 2004, 133 bls.
Aftan á kápunni á Opnun kryppunnar eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur er bókinni lýst sem kostulegu samblandi af heimspekiritgerð, sjálfsævisögu og fimm strengja tilraunaleikhúsi og er sú lýsing í ágætu samræmi við innihald bókarinnar, sem er fyrsta prósaverk höfundar. Verkið tekur þó kannski fyrst og fremst mið af formi sjálfsævisögunnar, enda þótt Oddný Eir leitist við að þenja mörk formsins og sprengja að vild. Um miðbik bókar finnum við þessi orð:
„Hafði ekki ætlað að byrja að skrifa sjálfsævisögu mína fyrr en eftir fimmtugt. Sá mig í anda byrja þá að reykja, setjast rólega niður við skrifborð, rifja upp og skipa niður, búin að koma upp börnum og orðin ekkja. En vinsamlegur miðill benti mér á að byrja strax því annars myndi ég öllu gleyma.“ (67)
Upphafsmálsgrein bókarinnar lýsir því hvernig sögukona raðar saman litlum miðum sem „hafa enga þýðingu hver um sig en þegar ég raða þeim saman verður til mynd [...]“ (7) Aðeins neðar á síðunni segir: „Ég gref mig inn í eigin sögu, inn í þann haug af pappír sem hefur safnast í kringum mig í gegnum tíðina, án þess að gruna hvar ég komist út úr honum.“ Þetta eru kunnuglegar myndhverfingar fyrir sjálfsævisagnaritun og úrvinnslu minninga, en framhaldið (og bókin á enda) kemur skemmtilega á óvart, bæði hvað varðar skemmtileg efnistök höfundar og stílfimi sem sjaldséð er í „byrjandaverki“. Síðasta orð hér á undan hef ég innan gæsalappa því Oddný Eir er fráleitt byrjandi á sviði skrifta, hefur meðal annars skrifað magistersritgerð í heimspeki og er að leggja lokahönd á doktorsritgerð í heimspeki og mannfræði, eins og fram kemur á bókarkápu. Þessi bakgrunnur er greinilegur í texta Oddnýjar Eirar. Hann birtist í margvíslegum hugleiðingum og tilvísunum sem rekja má til heimspekinnar; í ástríðufullum áhuga sögukonu á fræðagrúski og „mannfræðilegu“ sjónarhorni hennar; og að sjálfsögðu einnig í þeirri staðreynd að einn meginþráður verksins er lýsing á hlutskipti sögukonu sem námsmanns í evrópskum stórborgum.
Opnun kryppunnar er hins vegar ekki „fræðirit“ þótt einn hamur höfundar sé hamur fræðimannsins og skoðandans. Hamskipti af ýmsu tagi er eitt af leiðarstefjum bókarinnar, enda er undirtitill hennar: Brúðuleikhús. Sögukona verksins kemur fram í ýmsum gervum, hún birtist lesanda sem gömul kona (íslensk eða evrópsk), sem bóndadrengur, sem Oddný Eir námsmaður og sem Gosi. Brúðudrengurinn síðastnefndi er það „sjálf“ höfundar sem er einna merkingarbærast inn þess heims sem Oddný Eir skapar í verki sínu og tekur mið af tilraunaleikhúsinu og eru margar skemmtilegar lýsingar á „samskiptum“ þeirra Gosa að finna í bókinni.
„Leikur“ er kannski besta orðið til að lýsa frásagnaraðferð Oddnýjar Eirar; hún leikur sér í textanum, leikur sér að tungumálinu, hendir hugmyndum á loft, umsnýr þeim og sýnir okkur ný brögð. Og með í leiknum er alltaf húmor, textinn er víða bráðfyndinn og sprúðlandi fjörugur. En alvaran er einnig í spilinu, oft framreidd með íróníu sem hittir í mark. Því Oddný Eir er ekki „bara að leika sér,“ henni liggur ýmislegt á hjarta og hún hefur ástríðufullan áhuga á því sem fer (og er) á milli manna; á mannlífinu í öllum sínum fjölbreytileika. Til að nefna hvar borið er niður í þessum fjölradda texta má nefna samspil fortíðar og nútíðar er höfundi hugleikið, hlutskipti sveitanna í útþenslustefnu borganna, samskipti ólíkra þjóðarbrota, samskipti ungra og aldinna, karla og kvenna, svo fátt eitt sé nefnt. Á einum stað segir sögukona: „Ég kom til Parísarborgar til að ganga á hólm við gáfumennskuna og kvenleikann“ (89). Um hvort tveggja er fjallað á svo ísmeygilega írónískan máta í textanum að unun er af að lesa.
Af ofansögðu ætti að vera ljóst að Opnun kryppunnar er engin venjuleg „sjálfsævisaga,“ heldur er hér um að ræða verk sem í heillandi óreiðu sinni, afbyggingu, margræðni og húmor minnir einna helst á hinar stórmerkilegu skáldævisögur Málfríðar Einars frá Munaðarnesi. Oddný Eir er nýr, beittur penni (sjá bls. 93) sem á erindi við samtímann og hefur þegar frábær tök á þeim meðölum sem til þarf. Ég trúi að hún eigi eftir að láta verulega að sér kveða á skáldskaparsviðinu í framtíðinni. Ekki er hægt að ljúka umfjöllun um Opnun kryppunnar án þess að ræða aðeins bókartitilinn sjálfan, en ég læt nægja að vitna beint í verkið:
„[...] ég leyfi mér að segja að þegar betur er að gáð séum við öll hálfgerðir krypplingar. Eins og úlfaldar geymum við forða okkar, orðaforða og annan arf í herðakistlinum. Og ef við skoðum ekki í hann af og til og hendum jafnvel einhverju, þá getur hlaupið ofvöxtur í bak okkar og á herðakistilinn setjast hrúðurkarlar og sníkjudýr eins og á hnúfa hvala. Svo visna hnúfarnir og verður að skera þá af, á sárið settur plástur merktur Ríkisspítölunum. Ég er alltaf að velta fyrir mér hvernig megi opna kryppuna, hvort sé mögulegt að fara aðra leið en þá að undirsetja sig henni eða að losa sig alveg við hana. Mig grunar að í kryppunni felist öllu heldur efniviður til að byggja brýr. Á milli tíma og mála, á milli borga og heima.“ (35-36)
Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu 16. maí 2004.