SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir22. febrúar 2023

FÍNSTILLUM Ó, NÆMISKERFIÐ. Heim til míns hjarta

Oddný Eir Ævarsdóttir. Heim til míns hjarta. Ilmskýrsla um ártíð á hæli. Bjartur 2009

 

I

Ung kona innritar sig á heilsuhæli í von um bót á meini sínu; hún er útbrunnin. Í upphafi frásagnarinnar segir: „Orsakir ástandsins eru ókunnar en ég held að leit mín að skilningi á ástinni, sem ég tel vera lífsverkefni mitt, hafi tekið svona á mig, því ég hef ekki kunnað að fínstilla í mér hjartað“ (11). Áhrifarík er myndin sem er síðan dregin upp: „Ég kom hingað í leit að hjálp, með leifarnar af uppgefnu hjarta í brúnum bréfpoka“ (11). Þessi hreinskilni gefur tóninn fyrir framhaldið og lesandi fær strax samúð sem sögukonu sem glímir við vanda sem ég geri ráð fyrir margir geti samsamað sig við. Í ljós kemur að það er reyndar tvennt sem hefur stuðlað að vandanum: Auk leitarinnar að skilningi á ástinni hefur margra ára háskólanám sögukonu einnig tekið sinn toll og hún hefur tekið sér frí frá krefjandi doktorsverkefni sínu. Fyrsta greining yfirlæknisins á hælinu hljómar enda þannig: „Sumsé útbrunnin fyrir aldur fram [...] það er algengur kvilli metnaðarfullra kvenna á okkar dögum“ (14). Nú mætti kannski ætla að í gang sé að fara hefðbundin sjúkrasaga eða sjálfshjálparbók, það er þó fjarri lagi. Þvert á móti er að hefjast mikið ævintýri og bráðskemmtileg saga sem hefur margt að bjóða móttækilegum lesanda. Þessa bók verður að lesa með opnum huga og vilja til að kanna framandi lönd; Oddný Eir býður lesanda í ferðlag um innlönd ímyndunarafls og skapandi huga; ferð sem höfðar jafnt til þess tilfinningalega og hins vitræna (svo vísað sé til tilbúinnar aðgreiningar vestrænnar hugmyndasögu) og það er vissulega þess virði að halda í þá ferð með henni.

Oddný Eir dregur enga dul á að frásögn bókarinnar er byggð á hennar eigin reynslu, bókin er sjálfsævisöguleg og áður en frásögnin hefst rekst lesandi á tvær tilvitnanir sem standa sem einkunnarorð verksins:

 

Sannarlega skal jörðin verða heilsuhæli! Og nú þegar umlykur hana ný og heilnæm angan – og ný von.                                   Friedrich Nietzsche
                                       
Ég segi ekki frá neinu nema ég hafi áreiðanlega reynslu af því sjálf.  
Theresa frá Avila

 

Það skal þó ítrekað að þótt frásögnin sé sjálfsævisöguleg framreiðir Oddný Eir efnið á afar  skapandi hátt og býr verki sínu umgjörð skáldskaparins, innblástursins og ímyndunaraflsins og síðast en ekki síst fræðanna; hún sækir sífellt í þá brunna sem hún hefur fyllt í sínu langa námi og í textanum úir og grúir af beinum og óbeinum tilvísunum til bókmennta og fræða. Slík samfléttun er vandasöm en Oddný Eir hefur á henni afar góð tök auk þess sem hún skrifar mjög góðan og læsilegan texta.

 

II

Til að gefa sem besta hugmynd um úrvinnslu höfundar á þeim efnivið sem kynntur var hér í upphafi er nauðsynlegt að kynna byggingu bókarinnar og helstu þræði sögunnar. Heim til míns hjarta skiptist í sex hluta. Sá fyrsti, sem merktur er með tölustafnum 0, setur lesandann inn í stöðu mála. Þar er sögukona á „núllpunkti“, meðferð hennar að hefjast og ljóst er að hér er ekki um óvirkan „sjúkling“ að ræða sem vill bara láta „lækna sig“, heldur manneskju sem er ákveðin í að fara einnig sínar eigin leiðir við að hreinsa hjarta sitt og byggja sig upp. Hún hefur líka sína eigin áætlun um hvernig hún ætlar að ná bata:

 

Ég breyti sjúkraherberginu í tilraunastofu, klæði mig í hvítan slopp, raða tilrauna- og ilmvatnsglösunum á borðið og lími upp stundaskrána. Líka nokkrar gamlar stunda- og árangursskrár sem ég er með í farteskinu. V.Í.F.H.L.U.S.T. var til dæmis skrá um vatn, íhugun, fæðu, hreyfingu, lestur, uppgötvanir, skriftir og iðkun nýs tungumáls. Krossaði við og pínulitlar tölur inni í of þröngum reitum, sums staðar hauskúpa og núll. (12)

 

Úr skammstöfuninni V.Í.F.H.L.U.S.T. má auðvitað lesa orðin „víf hlustaðu“ og sögukona þarf kannski framar öðru að hlusta á sinn eigin líkama og nema skilaboð hans, allt eins og ráðleggingar lækna og annars starfsliðs heilsuhælisins. Í næsta hluta bókarinnar (I) hefjast tilraunir til að greina betur vanda sögukonu og koma þar alls kyns sérfræðingar að máli. Þar er fyrstan að telja „trúnaðarmann“ hælisins, „héraskinn“ sem leggur til eimingu á brunarústum hjartans og skýrslugerð sem sögukona á að annast sjálf. Hún fær tíma hjá „fótasérfræðingi“ sem útbýr „segulmögnuð innlegg“, hjá „skáldlegum atferlismeistara“ sem er „sérfræðingur í ástinni“ og síðan hjá tannlækni sem „læknar með kærleika“. Á dagskránni er einnig að fara í „árumyndatöku“, „sogæðanudd“ og „mosakúlubað“, fyrirlestur hjá „alkemískum lama“, og í gönguferðir með öðrum hælisgestum. Þegar færi gefst vinnur hún að skýrslugerðinni.

Í hluta II hittir sögukona fyrir „uglulega konu“ sem býður henni að upp á „meðala- og minningavatnsgerð, í kjölfarið fengirðu svo að taka þátt í alvöru ilmvatnsgerð“ (79-80). Þessi aðferð höfðar mjög til sögukonu sem hefur tröllatrú á lækningamætti ilms. Hún er send í „lyktgreiningu“ hjá manni „á óræðum aldri með stórt nef“ (81). „Nefi“ trúir því að „ilmskynjun“ opni leið að tilfinningalíkamanum (82). Skýrslan sem sögukonan skrifar á hælinu fær nafnið „ilmskýrsla“ og líkt og undirtitill bókarinnar, „Ilmskýrsla um árstíð á hæli“,  og lokaorðin, „P.S. Svona hljóðar ilmskýrsla“ (225) benda á er verkið sem við erum að lesa því skýrslan sjálf. Í þessum bókarhluta eru það bernskuminningar sögukonu sem eru í forgrunni, hún kallar minningarnar fram í gegnum lyktir sem hún tengir við foreldra sína og aðra sem við sögu koma. Hér fylgir höfundur alþekktu fordæmi Prousts sem rifjar upp bernsku sína út frá lykt af magdalenukökum í upp hafi sjálfsævisögubálksins Í leit að liðnum tíma  (À la recherche du temps perdu).

Í hluta III hefur sögukona verið send af hælinu í ferðalag í „aðra álfu“ þar sem haldið er áfram með ilmmeðferð og hreinsun líkama og sálar. Sá sem þeirri meðferð stjórnar heitir „Jóseppur“ og er kallaður „Seppi“. Eftir að hún hefur útskrifast úr hreinsunarferlinu tekur við nokkurs konar endurfæðing og skírn sem stjórnað er af „eldmanni“, „Maya-konu“ og „galdralækni“. Einnig er lýst ferð á bókasafn þar sem „moldvarpa“ ræður ríkjum og hér framkallast minningar tengdar rannsóknum sögukonu á minjamenningu og söfnum og hún reynir að gera upp námsferill sinn. Hér má meðal annars lesa eftirfarandi klausu, sem kannski má líta á sem einn af lyklum frásagnarinnar:

 

Í tíu ár hafði ég hlaupið á alla fyrirlestra sem ég hélt að myndu hugsanlega snerta mín svið. Nú fannst mér meira spennandi að finna nýjan ilm. Rannsókn mín í fræðunum var mér enn hjartans mál, ég var að leysa stærstu morðgátu sögunnar: Hvers vegna voru allar hinar sögurnar, litlu sögurnar, eða þær sem pössuðu ekki inn í kerfið, af hverju voru þær bornar út? Ég vildi alltaf bæta einu sönnunargagni við til viðbótar. Höfuðið var orðið of fullt af alls konar áhugaverðum vísbendingum. Nú varð það að fjúka: Á fallöxina með þig, beygðu þig niður, heyrirðu ekki hvað ég er að segja? Aðeins Rauða akurliljan hefði getað bjargað höfðinu frá blaðinu. (157)

 

Freistandi er að tengja setninguna: „Hvers vegna voru allar hinar sögurnar, litlu sögurnar, eða þær sem pössuðu ekki inn í kerfið, af hverju voru þær bornar út?“ við umræðu og dóma um íslenskar samtímabókmenntir þar sem lítið umburðarlyndi er fyrir sögum sem „passa ekki inn í kerfið“. Taka má dæmi af „ráðleggingu“ sem Kolbrún Bergþórsdóttir gaf Oddnýju Eir þegar fjallað var um Heim til míns hjarta í bókmenntaþættinum Kiljunni; að hún gæti greinilega skrifað en þyrfti bara „að finna sér söguþráð“. Það er kaldhæðnislegt að þær bókmenntir sem hafa jafnvel fátt annað upp á að bjóða en formúlukenndan „söguþráð“ fá vitrænni umræðu og betri dóma en verk skapandi höfunda sem leyfa sér að gera tilraunir með form og frásagnaraðferð og auðga með því flóru íslenskra bókmennta. Slíkum viðtökum við bók Oddnýjar Eirar má einnig líkja víð viðbrögð leigubílstjórans í eftirfarandi tilvitnun:

 

Hvert á ég að aka þér, spyr leigubílstjórinn. Ég bið hann um að keyra bara í nokkra hringi, ég viti ekki alveg hvert ég vilji fara. Hann snarstoppar bílinn og biður mig um að koma mér út eins og skot, segist ekki standa í því að þvælast um með fólk sem viti ekki á hvaða leið það er. (181)

 

En þótt sögukona viti ekki alveg hvert hún vilji fara, bæði í námi sínu og lífi, villist sífellt inn á „krókaleiðir“ í stað þess að halda sig á „hraðbrautinni“, sér hún ákveðna möguleika sem felast í „villigötunum“: „Ég verð að gera villuna að verkefni mínu því hraðbrautin er mér ekki fær“ (154). Allir reyndir ferðalangar vita að það er miklu áhugaverðara að ferðast krókaleiðir og kanna ókunna kima en að ana bara beint af augum á hraðbrautinni (varla þarf að árétta að svipað gildir um bókmenntalestur og sköpun).

Þegar hluti IV hefst er sögukona komin aftur á heilsuhælið og hefur nú fengið það verkefni að aðstoða við umönnun annarra hælisgesta. Sérstaklega aðstoðar hún við hjúkrun særðs hermanns sem er að koma „úr einhverju stríði [...] með alvarleg höfuðmein“ (187). Hún heldur líka áfram að notfæra sér þær lækningar sem í boði eru; fer á miðilsfund, í leirböð og göngutúra. Þá undirbýr hún lokameðferðina, sem er „eimun“ á hjarta hennar. „Álfslegi“ maðurinn sem stjórnar eimuninni undrast hversu „opið“ hjarta hennar er en fagnar því jafnframt að sögukona sé „á milli hörðnunar og upplausnar, orkan á sífelldri hreyfingu, sjálfbært umbreytingaferli“ er farið í gang (202). Að lokinni eimun fær sögukona „minjavatn“ á flösku til að hafa með sér þegar hún útskrifast af hælinu. Þegar hún hefur blandað minjavatnið með völdum ilmefnum („af nýfæddum hvolpum, blautum vettlingum, af sexhyrningi úr blýi, af írónísku vatni, kuðungi, bókbandi, rakri tóft, hvæsi gaupu, sárabindi hermanns og af ljósfjólublárri orðsifjafræði“) verður henni ljóst að lyktin er „enn fjötruð í orð úreltrar ljóðrænu“ og að „þráin sem sé í þessu minjavatni sé úrelt“ (208). Úr því má lesa vísbendingu um að uppgjöri sögukonu við fortíðina sé að ljúka og að endurnýjarferli sé hafið. Þessum bókarhluta lýkur þó ekki þarna, heldur á kostulegri lýsingu á því þegar krufinn er pungur hermannsins (sem veldur þó aðeins tímabundinni vönum) og úr krufningunni má lesa margt um heilsufar hans og tilfinningalíf. Síðasti hluti bókarinnar er stuttur og fjallar um löngun sögukonu til að eignast barn og leit hennar að „kátu sæði“ – og hún setur endapunkt við ilmskýrslu sína.

 

III

Þótt hér hafi verið stiklað á stóru í ilmskýrslu Oddnýjar Eirar gefur það í raun afar takmarkaða mynd af þeim heimi sem býr í bókinni. Í ritdómi í þættinum Víðsjá á rás 1 kallaði Auður Aðalsteinsdóttir verkið „sálgreiningarævintýri“ sem er vel til fundið og einnig mætti lýsa því sem óði til bókmenntaarfs, heimspeki og fleiri fræðigreina sem höfundur hefur lagt stund á. Höfundi er tíðrætt um „lykla“ í frásögn sinni, hún trúir því að „orð geti læknað“ (203) og „ekkert er eins læknandi og falleg orð annarra sem maður heyrir“ (204). Á einu bókasafninu sem hún heimsækir segir hún: „Hér inni eru einhvers staðar lykilrit sem opna manni leið inn að blæðandi hjarta tímans“ (177) og á öðrum stað segir ein af sögupersónunum við hana: „Ég verð að viðurkenna að við erum enn ekki búin að finna lykilinn að þínum vanda en þó er ég ekki frá því að við séum með búnt af litlum lyklum!“ (221). Mörg lykilrit mætti nefna sem Oddný Eir notar sem nokkurs konar skapalón fyrir verk sitt, til að mynda ólík verk á borð við Inferno eftir August Strindberg, Árstíð í helvíti eftir Arthur Rimbaud og Lísu í Undralandi eftir Lewis Carroll; hælisvist, gullgerðarlist (eða sálræn eimun) og ferðir til undralanda mynda baksvið atburða frásagnarinnar og þeirrar hugmyndalegu umræðu sem stöðugt er í gangi. Annar lykill eru hin fjölbreytilegu kynjafræði samtímans þar sem táknrænar skírskotanir til afhöfðunar og geldingar, möguleika og takmarkanna hins karllæga og hins kvenlæga í ríkjandi samfélagsmunstri er velt upp og bylt á ýmsan máta og oft ísmeygilegan. Þá mætti nefna áleitnar hugleiðingar um lyfjaiðnað samtímans, lækniskúnstir og óhefðbundnar aðferðir á því sviði: „Stríðið við lyfjafyrirtækin er rétt að byrja og eins gott að hermennirnir séu hraustir, dýralæknar, uglur og hérar, eldmenn, ljósmæður og nef“ (223). Víða í texta Oddnýjar Eirar er að finna beinar tilvitnanir til íslenskra og erlendra bókmennta og heimspekitexta. Slíkar tilvitnanir eru skáletraðar og aftast í bókinni er skrá yfir tilvitnanir (blaðsíðutöl eru þó ekki rétt í öllum tilvikum, hafa líklega raskast í vinnslu handritsins). Eins og til er ætlast víkka slíkar beinar og óbeinar tilvitnanir í önnur verk út merkingarsvið bókarinnar og senda lesanda á vit skemmtilegra krókaleiða.

 

Oddný Eir gaf út sína fyrstu bók, Opnun kryppunnar, árið 2004. Í ritdómi um þá bók líkti ég aðferð hennar við leik:

„Leikur er kannski besta orðið til að lýsa frásagnaraðferð Oddnýjar Eirar; hún leikur sér í textanum, leikur sér að tungumálinu, hendir hugmyndum á loft, umsnýr þeim og sýnir okkur ný brögð. Og með í leiknum er alltaf húmor, textinn er víða bráðfyndinn og sprúðlandi fjörugur. En alvaran er einnig í spilinu, oft framreidd með íróníu sem hittir í mark. Því Oddný Eir er ekki "bara að leika sér," henni liggur ýmislegt á hjarta og hún hefur ástríðufullan áhuga á því sem fer (og er) á milli manna; á mannlífinu í öllum sínum fjölbreytileika. (Morgunblaðið, 16. mai 2004).

 

Sömu umsögn get ég gefið Heim til míns hjarta; hér er verið að „leika sér“ með sjálfsævisagnaformið á afar eftirtektarverðan hátt og höfundur hefur treyst tök sín á þeirri frásagnaraðferð sem hún kynnti til sögu í fyrri bókinni. Heim til míns hjarta stendur fyllilega undir þeim væntingum sem vaktar voru með Opnun kryppunnar og það er freistandi að tengja Oddnýju Eir við skemmtilegustu skáldævisöguhöfunda á Íslandi, þau Þórberg Þórðarson og Málfríði Einarsdóttur frá Munaðarnesi. Sjálf hefur hún reyndar tengt sig við þann fyrrnefnda í viðtölum sem tekin voru við hana í tilefni útkomu bókarinnar og Þórbergur er nefndur þegar á annarri blaðsíðu frásagnarinnar. Í sömu setningu er minnst á Mugg sem einnig hefur verið gestur á heilsuhælinu og „var með regluleg sprell“ (12). „Sprellararnir“ tveir, meistari skáldævisögunnar og ævintýramálarinn, eru þær fyrirmyndir sem Oddný Eir vísar til í upphafi og síðan má rekja ótal tilvísanir til annarra meistara í gegnum þann vef sem spunninn er í framhaldinu, eins og áður var fjallað um. Þannig þakkar Oddný Eir fyrir sig og bendir okkur á hvernig hún hefur tekið við arfinum og ræktað sín frækorn upp úr þeim frjósama jarðvegi.

Að lokum er við hæfi að árétta að Heim til míns hjarta bendir okkur á að þótt mikilvægt sé að efla ónæmiskerfi sitt og huga að sinni líkamlegu vellíðan er ekki síður mikilvægt að fínstilla næmiskerfi sitt, hvort sem um er að ræða í sjálfri tilveru sinni eða í viðtökum á nýstárlegum sköpunarverkum á sviði bókmennta og lista.

 

Ritdómurinn birtist í Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2010, og einnig í bókinni
Maddama, kerling, fröken, frú. Konur í íslenskum nútímabókmenntum  (Háskólaútgáfan 2019).

 

 

Tengt efni