SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir17. október 2025

AF RAUNUM EMBLU ÞORVARÐARDÓTTUR

Sif Sigmarsdóttir. Ég er ekki dramadrottning. Mál og menning 2006, 166 bls.

 

Skærbleik bókarkápan og skemmtilegur káputexti gefur tóninn fyrir þann anda sem ráðandi er í fyrstu bók Sifjar Sigmarsdóttur, Ég er ekki dramadrottning: Raunir Emblu Þorvarðardóttur. Hér segir unglingsstúlkan Embla frá einum og hálfum mánuði í lífi sínu á litríkan og fjörlegan hátt. Í upphafi bókar er Embla í uppnámi yfir því að fjölskylda hennar ætlar að flytja til London en hún getur ekki hugsað sér að yfirgefa Ísland og vinkonurnar svo ekki sé talað um GK (gangandi kynþokka), strákinn sem hún er skotin í. Meginhluti bókarinnar segir síðan frá einum sumarmánuði sem fjölskyldan ver í London í þeim tilgangi að aðlagast lífinu þar fyrir áætlaðan flutning um haustið. Embla fylgir með tilneydd en er staðráðin í að dvölin verði ömurleg. Eins og við er að búast þróast málin þó á þann veg að helst vill hún ekki snúa aftur heim (og er búin að steingleyma GK).

Þar sem Embla er sögumaður litast frásögnin að sjálfsögðu af hennar sýn á tilveruna sem er, geri ég ráð fyrir, nokkuð dæmigerð fyrir unglingsstelpu sem hefur áhyggjur af útliti sínu, hefur áhuga á fötum og tísku og á bágt með að þola hallærisganginn í foreldrum sínum. Framsetning máls Emblu tekur einnig mið að nútímaveruleika unglinga og hluti textans er settur fram í formi bloggfærslana. Þessi hluti hefði jafnvel mátt vera meiri því hann setur skemmtilegan svip á bókina. Texti Sifjar er vel skrifaður, góður húmor einkennir hann og skemmtilegar ýkjur eiga stóran þátt í að gæða textann lífi. Þetta kemur vel fram í þessari upphafsklausu bókarinnar sem hefur yfirskriftina „Varúð!“ og gerir góðlátlegt grín að íslenskum barnabókum um leið og hún setur tóninn fyrir það sem koma skal:

 

Bók þessi er ekki skemmtileg og spennandi saga fyrir hressa krakka, hún er ekki svar Íslands við Harry Potter og hún inniheldur engan góðan boðaskap. Sagan gerist ekki í sveit og engir dularfullir atburðir eiga sér stað í henni (nema ef telja má óeðlilega mikinn hárvöxt sem dularfullan atburð). Þau fáu krúttlegu dýr sem koma við sögu eru flest í formi Dr. Martens skóbúnaðar og McDonald’s hamborgara.

 

Sif tekst vel upp í persónusköpun, auk Emblu og vina hennar eru dregnar upp lifandi myndir af foreldrum, fósturforeldrum, tengdaforeldrum og nágrönnum og margar mjög skemmtilegar persónulýsingar þar á ferðinni. Sem fyrsta bók höfundar er bókin vel heppnuð og gera má ráð fyrir að þessi höfundur eigi eftir að láta meira að sér kveða í framtíðinni. Þetta er bók sem flestar stúlkur á aldrinum tólf til fjórtán ára ættu að hafa gaman af og ekki er ótrúlegt að fleiri bækur um Emblu Þorvarðardóttur eigi eftir að líta dagsljósið, alla vega býður saga hennar upp á framhald.

 

Ritdómurinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. desmber 2006.

Tengt efni