SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 2. mars 2024

DEUS, DUFT og HÖGNI - UPPGJÖR VIÐ OFBELDI OG VANRÆKSLU

 

Ef marka má bókmenntirnar um þessar mundir eru tímabært að vinna með og gera upp vanrækslu, geðveiki og ofbeldi í æsku og reyna að koma auga á einhverja von í þessum hrjáða heimi. A.m.k. þrjár nýjar íslenskar skáldsögur eftir frábærar skáldkonur fjalla um slíkt uppgjör hver með sínum hætti.

Heimsendir í nánd

Í DEUS eftir Sigríði Hagalín sætir Ísabella Ósk gegndarlausu einelti og ofbeldi af hendi skólasystkina. Móðir hennar er í neyslu og hún verður að hírast hjá hörkutólinu ömmu sinni.  Strætóbílstjórinn Sigfús, hirðskáldið trygga, verður fyrir vitrun en missir vitið og leitar að guði. Hann hefur brugðist Helga  syni sínum svo oft að feðgarnir hafa ekkert samband lengur og það nístir þá báða.

Skáldið missir tökin, leggst út og leitar að ljósinu, m.a. í samræðum við spjallmennið Pastor sem er gervigreindarlíkan sem býður upp á sálusorgun og trúarlega leiðsögn beint í símann. Leiðsögnin beinist að þeim vandamálum sem hrjá mannkynið, er eins konar heilaþvottur: „samtalsviðmót með bæði ritstýrðri og sjálfvirkri námstækni til að veita andlega handleiðslu (42)“ . Þarna er risamarkaður fyrir útsmogið þekkingarfyrirtæki til að græða á fólki sem leitar að huggun.

Þegar Sigfús hverfur eftir að hafa rústað gervigreindinni þarf sonurinn að leita hans, læra að fyrirgefa honum veikleika og bresti og Ísabella þarf að læra að svara fyrir sig. Sjónarhornið er til skiptis hjá persónunum og þær hafa allar hver sitt málsnið; skáldamál, unglingamál og stofnanamál, bæði úr kirkjunni og tölvubransanum. Inn á milli eru frábær ljóð sem ljóma og skína enda kærleikur og skáldskapur það eina sem getur bjargað heiminum. Þessi bók boðar bráðan heimsendi, hún er troðfull af snjöllum hugmyndum og hefði mátt vera lengri. 

Tíðarandi og gróðabrall

Í DUFTI eftir Berþóru Snæbjörnsdóttur segir frá Veróniku sem elst upp í markaleysi hálfklikkaðrar móður og meðvirkt eftirlæti föðurins, bullandi ríkidæmi og alls konar óreiðu. Hún beitir síðan annað fólk einelti og yfirgangi, þjökuð af minnimáttarkennd, útlitsfordómum og sjálfshatri. Sá hluti bókarinnar sem gerist í Reykjavík í kringum 1980/90  þegar líkamsræktarstöðvar eru að komast á legg er algerleg frábær og fangar tíðarandann fullkomlega.

 Skipt er um gír þegar Verónika er orðin fullorðin kona, vellríkur töffari með lotugræðgi. Hún telur sig bera ábyrgð á mannsláti og sér til yfirbótar gefur hún sig á vald Prins sem er forstjóri nýaldarfyrirtækis á Tenerife sem vill gera heiminn betri með því að framleiða bætiefnaduft fyrir þurfandi allsnægtafólk - áþekk pæling og í Deus um að græða á sársauka og ótta mannkyns. Þar beitir hún sjálfa sig því harðræði sem tíðkast í vinnubúðunum, fer í gegnum kryfjandi viðtöl og situr undir fyrirlestrum Prins um að mannkynið sé að drepast úr þægindum og þurfi róttæka hugarfarsbreytingu. En Verónika kemst að því að hjálpsemin er yfirskyn, undir yfirborðinu er þrælahald og ofbeldi og Prins mokgræðir auðvitað á trúgirni fólks. Duft er mössuð saga, sterk og áleitin. Og svo margt fallegt innan um grimmdina og ljótleikann:

„Þegar ég fæddist var ég enn rótarlaus á yfirborði heimsins, jafn varnarlaus og sandkorn sem ræður engu um hvert það fýkur. Lungu mín fylltust í fyrsta sinn af súrefni, nítrógeni og koldíoxíð. Plöntur og manneskjur deyja og molna án nítrógens. Sé of mikið af því geta þær ekki skotið rótum (345)“. 

Neggað og gaslýst

Hinn veimiltítulegi HÖGNI hrokagikkur eftir Auði Jónsdóttur tiplar í kringum drykkfellda móður og föður sem kemur út úr skápnum. Hann er einmana og vanrækt barn eftir skilnað foreldranna, rembist við að vera ekki fyrir neinum, reynir að vera fyndinn til að öðlast viðurkenningu en nær engu máli , beittur ofbeldi af skólasystkinunum.

Sambönd hans við annað fólk á fullorðinsárum, einkum konur, eru brengluð og hægt að saka hann um að steinveggja, gósta, smætta, negga og gaslýsa (198) eiginlega án þess að hann átti sig á því, hann er svo firrtur og skemmdur karl. Óþolandi besserwisser sem óttast nánd og „kvennarök“ en þó svo vel smíðaður að eiginlega er ekki annað hægt en finna til með honum. Hann missir stjórn á sér í strætó sem auðvitað er tekið upp á síma og dreift um allt. Áður en hann veit af er hann úthrópaður í samfélaginu og á sér varla viðreisnar von. 

En kettir koma alltaf niður á lappirnar. Vinkonan Bergrós reynist betri en engin hvort sem það er nú  gerendameðvirkni eður ei, hún virðist ekki ætla að gefast alveg upp á honum og reynir að leggja honum einföldu lífsregluna sem við ættum öll að tileinka okkur: „Reyndu bara að meiða ekki aðra, manstu, aðgát skal höfð í nærveru sálar“ (198). Átakanleg saga af falli og niðurlægingu en líka um upprisu, mörk og mátt fyrirgefningarinnar - kannski er vonarglæta eftir allt saman. 

 

Tengt efni