SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir12. febrúar 2025

TÆRAR LJÓÐMYNDIR OFNAR ÚR ÞRÁ

Að baki mánans, Snjóbirta og Sónata eftir Ágústínu Jónsdóttur

 

 

Fyrstu bækur Ágústínu Jónsdóttur, Að baki mánans (1994), Snjóbirta (1995) og Sónata (1995) komu út hjá bókaútgáfunni Fjölva á tveimur árum og er sjaldgæft að sjá svo öflugt upphaf á ferli höfunda, sérstaklega skáldkvenna. Annað sem athygli vekur er hversu vel er vandað til útgáfunnar. Allar eru bækurnar innbundnar í hvítt band, prentaðar á kremlitan pappír með brúnu, rauðu og bláu letri. Fallegar og endingargóðar kápur prýða þær allar og tvær þær síðari eru í sérlega skemmtilegu broti. Útgefandi fær hrós fyrir þessa vönduðu útgáfu sem er sjaldséð þegar ljóðabækur nýliða eiga í hlut.

 

Ágústína er fædd árið 1949 og var því 45 ára þegar fyrsta bókin, Að baki mánans, kemur út. Það er tilgáta mín að hún hafi fengist við ljóða- og textagerð lengi þótt hún komi skáldskap sínum heldur seint á prent (og sverji sig þar í ætt við kynsystur sínar margar) því lítill byrjendabragur er á ljóðum hennar. Reyndar er kannski ekki rétt að tala bara um ljóð því þriðja bókin, Sónata, hefur að geyma stutt prósaverk sem allt eins má kalla örsögur - eða „ljóðrænar sögur“ eins og gert er á káputexta bókarinnar.

 

Skáldskaparheimur Ágústínu

Með sterkum rökum má skilgreina þessar þrjár bækur sem eitt og sama verkið. Það skal ekki skiljast svo að skáldkonan endurtaki sig í sífellu og sé þannig stöðnuð sem höfundur rétt þegar hún er að hefja feril sinn. Heldur á ég við að hver hinna þriggja bóka er sem hluti af þeim heimi sem höfundurinn hefur skapað milli spjalda þeirra allra; skáldskaparheimi sem er afmarkaður, ekki bara af bókarspjöldum heldur einnig af ákveðnum endurteknum tilfinningum, stefjum, mótívum og myndum; skáldskaparbrögðum sem skáldið beitir við sköpun sína til að marka sér sérstöðu og skapa þann persónulega blæ sem við köllum höfundareinkenni. Það þýðir þó ekki að sem skáld sé hún laus undan áhrifavaldi hefðarinnar. Ljóst er að hún er vel lesin í ljóðum og sögum og texti hennar er fullur vísanna í ýmsar áttir: í bækur, myndlist og tónlist. En Ágústína er ekki hermiskjóða, hún er sjálfstæð í sköpun sinni, kann að nota arfinn og hefðina og fer vel með hvort tveggja. Eitt skáld vil ég þó nefna sem augljósastan áhrifavald, en það er Stefán Hörður Grímsson. Vísanir til ljóða hans eru nokkrar og mér sýnist að af honum hafi Ágústína lært góða hluti.

 

Ástin og skáldskapargoðið

En hver er sá heimur sem lykur allar þrjár bækur Ágústínu Jónsdóttur? Hvaðan kemur hann? Úr hverju er hann smíðaður? Hverju miðlar hann? Í ljóðinu „Vefskyn“ úr fyrstu bókinni, Að baki mánans, segir:

 

Engin orð
án þelsins
sem ljóð mín
spinnast úr
 
án þín
formlaus ljóðspjöll
engu
að miðla  
 
(14)

 

Sá sem þarna er ávarpaður í annarri persónu er elskhugi ljóðmælandans og kemur hann fyrir í mörgum ljóðanna, ýmist sem þú eða hann, alltaf sá sem ljóðmælandinn elskar og girnist, tregar og þráir. En eins og ljóðið sýnir er hinn elskaði meira en viðfang ljóðanna, hann er einnig aflvaki þeirra og uppspretta. Hér er skemmtilega leikið með tvöfalda merkingu orðsins þel þegar ljóðin er sögð spinnast úr því þeli sem ljóðmælandinn ber til hins elskaða. Mikil áhersla er lögð á þetta hlutverk elskhugans sem uppsprettu skáldskaparins og gaman er velta því fyrir sér hvort Ágústína brjóti ekki hér blað í íslenskri ljóðlistarsögu með því að gera karlkyns elskhuga að „músu“, sem á íslensku heitir skáldskapargyðja; hvort hér sé ekki komið fyrsta skáldskapargoð íslenskrar ljóðhefðar. Tilvitnaða ljóðið hér að ofan er úr fyrstu bókinni og það er ekki eina ljóðið úr þeirri bók þar sem þessi hugsun er sett fram. Og í hinum tveimur síðari er það sama uppi á teningnum. Í Sónötu má til dæmis lesa:

 

Æðasláttur textans er rödd hans úr barka hennar og blóð hans streymir um æðar hennar uns það sameinast í snjókorni að baki mánans sem myndar hvert einstakt orð. Ég sáði orðum. (11)

 

Í þessum texta sjáum við einnig vísun í titil fyrstu bókarinnar, jafnvel einnig í Snjóbirtu á óbeinan hátt. Slík innbyrðis textatengsl milli bókanna þriggja eru mikil, eins og vikið verður nánar að síðar.

Það er sem sagt ástin í öllu sínu veldi sem er sú grunntilfinning sem skáldskaparheimur Ágústínu Jónsdóttur byggir á. Og þá ber að hafa í huga að ástin á sér margar hliðar og ólíkar birtingarmyndir, hún er og er ekki til staðar – og það er allt eins síðara ástandið sem kallar fram ljóðin og „tærar ljóðmyndir / ofnar úr þrá“ (Að baki mánans, 59). Ágústína yrkir um ástríðuna og algleymi ástarinnar og líka um: „Hjarta hverfult sem breytir um tón / í áranna rás“ (Að baki mánans 24) og um að það getur verið „uggvænlegt / að elska“ (Að baki mánans, 28). Eða eins og segir í ljóðinu „Snertu mig ekki“: „Ást breiðir / hroll / fyrir glugga // hinsta andartak / opið síðusár // enginn sér / blæða“ (Snjóbirta: 10).

Það verður fljótlega ljóst við lestur bókanna þriggja að þessi ást sem er aflvaki ljóðanna og efniviður er „forboðin ást“ (Að baki mánans, 26), hún er „launhelgar ófrjálsra“ (Að baki mánans, 16). Þetta verður enn ljósara í ljóðum sem vísa beinlínis til hjónabandsins sem helsis: „Vildi / ég væri // ekki / konan / sem ung var / gefin“ (Abm: 40). Og í Snjóbirtu er ljóðið „Net“ sem vísar bæði til hjónabands og ástarsambands:

 

Það sem Guð hefur tengt
 
býr þér enn
í krossfiskshjarta
 
að tvinna okkur saman á ný
flækja í þéttriðnu neti þínu
veiða augun tæru
í lygnasta hylnum
horfa fölur á þau
bresta
í frosthörðum straumi
 
má maður eigi sundur
skilja?
 
(Snjóbirta, 43)

 

Eins og vænta má er elskhuginn fyrirferðamikill í ljóðum Ágústínu. Honum er líkt við landið: „Landið / er einfari / eins og þú“ (Abm: 29) og náttúruna: „Höfuð hans / fjallaloft // hárið / andvari // hendurnar / vængjaþytur“ (Abm: 9). Hann er náttúran, skrifaður eða ortur inn í hana af ljóðmælandanum: „Hamingjusöm skrifa ég þig í landið, ljósið, rökkurblámann, djúpið og sjálfa mig. Ég held fast í orð þín og atlot og skil þau aldrei við mig“ (Són: 14).

Atlotum elskhugans er einnig lýst með myndmáli náttúrunnar og þegar Ágústína lýsir ástaratlotum sækir hún myndmál sitt oftast til vatnsmyndmáls. Eins og svo oft í listrænu myndmáli táknar hið flæðandi, streymandi og fljúgandi vatn eros: hina líkamlegu, erótísku ást, þrungna heitum tilfinningum og þrá. Fyrirheit um þetta er gefið strax í aðfaraorðum fyrstu bókar, framan við kafla sem ber heitið „Flæði“:

 

Seiður fegurð og ógn
býr í þessum gullna fossi
ómótstæðileg þrá
dregur mig í straumfallið
 
til þín 
 
(Að baki mánans, 5)

 

Vatnsmyndmálið er eitt af leiðarstefjum bókanna þriggja þótt það sé mest áberandi í fyrsta kafla Að baki mánans. Hægt væri að tína til ótal dæmi um þessa myndmálsnotkun en ég læt þessi nægja: „Dagarnir  / stormþytur hafs // hafmeyjan / ég // þú / hafið // bylgjast / um mig“ (Að baki mánans, 11); „Undir / tunglskinsfána // dansa // mjaðmir þínar / að lendum // bátur í höfn // hafmeyja og / marbendill // í lygnunni / hvít blys // loga“ (Að baki mánans, 18).

 

Endurtekin stef

Hér í upphafi gat ég þess að Ágústína hefði í bókunum skapað sinn eigin persónulega skáldskaparheim, markaðan endurteknum tilfinningum, stefjum, mótívum og myndum. Ég hef þegar talað um grunntilfinningar verksins og nú síðast bent á vatnsmyndmálið sem eitt af leiðarstefjunum. Slík stef eru fleiri, þau hljóma í öllum bókunum þremur, en mishátt. Þannig hefur hver bók, og hver kafli innan bókar, sín grunnstef. Ég ætla að stikla hér stórstíga á helstu stefjunum.

 

Að baki mánans skiptist í þrjá kafla: „Flæði“, „Blóðbrigði“ og „Flugskugga“. Eins og fram hefur komið er náttúrumyndmál ríkjandi og er vatnið það frumefni sem ríkir í „Flæði“ og erótíkin er það stef sem hæst hljómar. Miðkaflinn „Blóðbrigði“, sem jafnframt er lengsti kafli bókarinnar, geymir fjölbreytt ljóð en þó er hér á einn eða annan hátt ort um söknuð og trega, aðskilnað og tapaða ást. Mörg ljóðanna hafa yfir sér þunglyndislegan blæ, svik og vá liggur í loftinu, líkt og kaflaheitið bendir til. Þegar þessi kafli er skoðaður í samhengi við hinn fyrri læðist að lesandanum grunur um að sú forboðna ást sem ort var um í „Flæði“ hafi brugðist og af því hljótist sá tregi sem hér er lýst. Harmur sá sem ljóðin lýsa er sem: „Syndagjöld þess / sem leggur í ferð / án fyrirheits / um næturbyrgi / á stolnum / skóm“ (Abm: 50). Sársauki ljóðmælanda kemur fram í mörgum ljóðanna og lýst er sjálfsmynd sem beðið hefur hnekki: „Þarna er / hungrað dýrið / sært // bergmáluð / sjálfsmynd // efafull / og einmana // umbrotastund“ (Abm: 35) En þótt vonbrigði, sársauki og tregi séu þeir tónar sem hljóma sterkast í þessum kafla ber hann einnig í sér von um endurnýjun lífdaga hinnar töpuðu ástar: „Tárin koma alltaf aftur / en þú?“ (Abm: 36);  „fyndi ég þig í fjöru / tryði ég á kraftaverk en / trúin er veik / sem von / hins horfna manns“ (Abm: 52); „Tónbrigði ástarinnar / eru þín // þegar þú kemur“ (Abm: 63). Og ljóðmælandinn vill allt til vinna til að endurheimta sælu sína:

 

Legg hönd
djörf
í gin úlfsins
eða bregð mér
í flugulíki
verði slíkt til þess
ég fái              
 
(Að baki mánans, 38)

 

Í síðasta kafla bókarinnar, „Flugskuggum“, er frumefnið loft ríkjandi og í anda fyrirsagnarinnar er myndmál flugs ráðandi; í þessum ljóðum mætum við fiðrildum og fuglum jafnt sem „fljúgandi stund“ (Abm: 79) og „líkama á skáldlegu flugi“ (Abm:  75). Það er þetta vængjaða myndmál sem er stef þessa hluta.

Snjóbirta skiptist í tvo kafla: „Rökkurblá tré“ og „Stakt tré“. Aftur er vísað til elskandanna sem voru saman: „engann grunar / að við séum þessi / rökkurbláu tré / sem leiðast hönd í hönd“ (25); „Frá rótum streyma / um stofn og limar / bylgjur ástríðna / úr brunni launhelganna“ (27). En í bókarlok er ljóðmælandinn orðinn „stakt tré / illa rætt og vanhirt“ (75). Tréð er gegnum gangandi tákn elskandanna í bókinni, en einnig hljóma stef kunnuleg frá fyrstu bók. Þannig er upphafsljóð bókarinnar bein vísun í fyrstu bók:

 

Vænti syngjandi vatns
og dvel við
hillingar
 
breytist skuggi sands
í haf?
 
ég er eyðimörk
þurr á manninn
og hverful         
 
(Snjóbirta, 9)

 

Sérlega skemmtileg er síðasta hendingin sem lýsir ljóðmælanda sem þurri eyðimörk sem hið syngjandi vatn (ástin) og hafið (elskhuginn) hefur yfirgefið. Ljóðið „Strengur“ vísar einnig beint til ljóðsins „Nánd“ úr fyrstu bókinni. Sjáum þau saman:

 

NÁND
 
Höfuð hans
fjallaloft
 
hárið
andvari
 
hendurnar
vængjaþytur
 
hann
lauk upp
vörum mínum
tunga hans
strengur
í hörpu minni   
 
(Að baki mánans, 9)                      

                                     

 

STRENGUR
 
Sama höfuð
hárið
sömu hendurnar
 
sami vængjaþytur
andvari
og fjallaloftið
 
úr hörpu minni
horfinn
strengur
 
(Snjóbirta,16)

 

Þannig krossvísanir eru margar í bókunum og styrkja byggingu þess heims sem skáldkonan smíðar sér úr orðum og þrá.

 

Eins og áður er sagt hefur Sónata nokkra sérstöðu í bókarþrennunni því hún inniheldur mestmegnis stutt prósaverk. Bókin deilist í þrjá nafnlausa hluta. Eins og allir vita er sónata heiti á tónverki sem oftast er samið fyrir einleikshljóðfæri og hefur ákveðna kaflaskiptingu. Með nafngift bókarinnar og byggingu hennar ítrekar Ágústína hér enn að ljóðmælandi er ekki lengur hljóðfæri sem hljómar í dúett, heldur er nú spilað einleiksverk. Myndmál tónlistar er eitt af leiðarstefjum sem finna má í öllum bókunum, eins og sjá má í nokkrum tilvitnunum hér að framan, og skipar að sjálfsögðu veglegan sess í Sónötu. Ýmist er ljóðmælandinn hljóðfæri sem elskhuginn spilar á, eða öllu heldur spilar ekki á lengur, eða tilfinningum er lýst sem tónbrigðum og hljómum. Í titli eins lítils ljóð verður samruni ljóðmælanda og höfundar algjör því ljóðið nefnist „Sónantína”:

 

 

 

 

til vitnis
um minningar
 
handan sagnaturnsins
 
um hvítar arkir
ástarinnar         
 
(Sónata, 22)

 

Í Sónötu er texti Ágústínu ekki eins meitlaður og í fyrri bókunum tveimur. Þetta skýrist fyrst og fremt að því að hér er hún að mestu leyti að fást við annað bókmenntaform, þ.e. örsöguna. Skáldskaparhæfileikar höfundar njóta sín til fullnustu í þessum sögum. Þær eru margar hverjar afar snjallar og geisla af frumlegri hugsun og skemmtilegu myndmáli. Gegnum gangandi mótíf er upphaf sem hljómar: „Þegar ég var ...“  eða „Þegar það var ...“ sem vísar til minninga og slær tón eftirsjár sem er stundum tregafullur en stundum léttur. Annað sem einkennir sögurnar er hvernig höfundur notar óvænt sjónarhorn í textanum. Til að gefa nokkra hugmynd um sjónarhornin má taka eftirfarandi upphafssetningar: „Þegar ég var dagbókin þín naut ég að eiga með þér leyndarmál ...“ (20). „Þegar hún var kafloðin kónguló ...“ (59). „Þegar ég var ófrjóvguð fruma ...“ (60). Í þessum sögum er sjónarhornið út í gegn dagbókarinnar, frumunnar og kóngulónnar og í gegnum þær er á snjallan hátt sögð saga af konunni og sambandi hennar við karlmanninn.

 

Kvenleg reynsla

Mikið hefur verið ritað og rifist um kven- og karlleg einkenni á skáldskap. Út í þau fræði ætla ég ekki að fara hér, en stenst ekki mátið að fjalla stuttlega um nokkur ljóða Ágústínu sem tengast reynslu sem engin getur borið á móti að sé líkamleg einkareynsla kvenna, þ.e. reynsla sem tengist frjógvun eggs, meðgöngu og fæðingu barns. Ljóð sem tengjast þessu koma úr öllum bókunum þremur. Vel mætti skipa þeim saman í flokk og sýnir það enn og aftur þau innbyrðis textatengsl sem eru milli bókanna. Að baki mánans geymir tvö þessarra ljóða, þ.e. ljóðin „Tæknisonur“ og „Í skuggsjá“. Í Snjóbirtu er ljóðið „Ómur“ og í Sónötu er örsagan „Fruma“. Í þeirri síðastnefndu segir „sögumaðurinn“, fruman, okkur frá því er hún frjógvaðist í konunni eftir villtan ástarleik hennar með „frjósama karlmenninu, sem hún elskaði“. Frjógvunin reyndist óvelkomin og í sögulok liggur konan „sorgmædd á sængurkvennadeild sjúkrahúss“. Þessi kuldalegu sögulok frumunnar kallast á við hin ljóðin sem ég hef nefnt, því í engu þeirra fær náttúran ráðið gang mála. Ljóðin „Tæknisonur“ og „Ómur“ lýsa glasafrjógun. Í því fyrrnefnda er lýst á smellinn hátt glasagetnaði, „augnagælur í smásjá / vakið líf / vísindaafrek“, sem endar með „glerheimþrá: / út vil ég / barn glasanna“ (Að baki mánans, 33). Í ljóðinu „Ómur“ segir: „Svo þig langar / að ala barn? // Tækniguðinn / mun vitja þín / og vísdómsandi / koma yfir þig“ (Snjóbirta 45). Og síðasta hendingin er biblíutilvísun með hrollköldum snúningi: „Og hún ól son sinn / glasgetinn / Óm Krist“. Ljóðið „Í skuggsjá“ segir af ófæddum börnum sem „hika við fæðingarvegi“ (Að baki mánans, 81).

Þegar á allt er litið eru þessi ljóð kannski ekki svo mörkuð kvenlegri reynslu, eins og ég hélt fram hér fyrr. Því segja má að Ágústína hafi fært til hina líkamlegu reynslu kvenna út (útfært hana í skáldskap og fært hana út úr móðurlífi) og þannig gert hana allra. Sameiginlegt með öllum þessum ljóðum er sú tilfinning að framin hafi verið einhver spjöll á náttúrunni  og kannski er það tilfinningin sem býr í djúpgerð þessarra þriggja bóka: Að þau örlög sem liggja til grundvallar flestum ljóðunum og sögunum, að elskendurnir náðu ekki saman (þeim var ekki skapað nema að skilja), séu í eðli sínu náttúruspjöll.

 

Ljóðrænt næmi og auðugt ímyndunarafl

Af framansögðu má vera ljóst að þessar þrjár bækur Ágústínu Jónsdóttur eru afar persónulegar. Stærstur hluti ljóðanna er byggður á einkalegri reynslu af tilfinningum sem fæstir kjósa að deila með fjöldanum. Listræn úrvinnsla slíkrar reynslu er vandasöm; um leið og hún krefst mikils hugrekkis og einlægni af höfundi verður hún að geta vísað út fyrir sig og öðlast almenna skírskotun þannig að lesendur geti samsamað sig yrkisefninu. Það er út frá þessu atriði sem gleggst kemur í ljós hversu gott skáld Ágústína Jónsdóttir er. Í öllum bókunum sýnir hún frábær tök á ljóðmáli, frumleika og sjálfstæði í myndmálssköpun, um leið og skáldskapur hennar hefur ótvírætt almenna skírskotun. Það kemur þó stöku sinnum fyrir í fyrstu bókinni að stíll Ágústínu verði helst til stikkorðakenndur þannig að erfitt er að lesa á milli línanna þá merkingu sem ljóðinu er ætlað að miðla. Þetta gæti orsakast af því að ljóðin eru byggð á djúpri tilfinningahlaðinni reynslu sem í eðli sínu er leyndarmál tveggja. En hitt er víst að það er sjaldgæft að sjá í verkum nýskálda þá spennuvídd tilfinninganna sem hér er að finna – allt frá djúpum unaði til sárustu eftirsjár – og sett fram á svo vandaðan ljóðrænan hátt sem hér.

Mest spennandi finnst mér þó síðasta bókin, Sónata, kannski vegna þess að þar leyfir höfundur sér meira; sá meitlaði stíll og agi sem einkennir hinar bækurnar tvær víkur þar fyrir auðugu ímyndunarafli og frumleika í myndasmíð og einnig er þar meiri húmor en í fyrri bókunum tveimur. Kannski mætti álykta (án allrar ábyrgðar þó) að söknuðurinn og treginn eftir hinum horfna elskhuga, sem skáldkonan segir aflvaka ljóða sinna, sé farinn að víkja nokkuð í Sónötu, og hún byrjuð að uppgötva þann kraft og þá gáfu sem hún óvéfengjanlega býr yfir sjálf. Því þó að ég sé fyrst manna til að samþykkja þá kenningu að góður skáldskapur spretti öðru framar af þrá, þá veit ég að fyrst og fremst þarf hæfileika, ímyndunarafl og úthald til að kalla hann fram og koma honum á bók. Skáldskapur Ágústínu Jónsdóttur stendur til marks um hæfileika hennar sem byggjast á fágætu ljóðrænu næmi og auðugu ímyndunarafli.

 
Birtist fyrst í Tímarit Máls og menningar 3. hefti 1996 og síðar í greinasafninu
Maddama, kerling, fröken, frú: Konur í íslenskum nútímabókmenntum (Háskólaútgáfan 2019)

 

Tengt efni