SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Vilborg Davíðsdóttir

Vilborg Davíðsdóttir fæddist á Þingeyri við Dýrafjörð árið 1965.

Vilborg er stúdent frá Menntaskólanum á Ísafirði, lauk prófi frá Háskóla Íslands í hagnýtri fjölmiðlun árið 1991, BA prófi í þjóðfræði og ensku 2005 og MA í þjóðfræði árið 2011. Meistaraprófsritgerð hennar fjallaði um sagnahefð og þjóðtrú á Hjaltlandseyjum.

Vilborg starfaði sem blaðamaður, dagskrárgerðarmaður og fréttakona á hinum ýmsu fjölmiðlum frá árinu 1985 til ársins 2000 en hefur síðan þá helgað sig ritstörfum. Að auki hefur hún sinnt stundakennslu í þjóðfræði og kennt skapandi skrif í vinnusmiðjum Iceland Writers Retreat.

Vilborg gegndi starfi Jónasar Hallgrímssonar við meistaranám í ritlist við Háskóla Íslands árið 2016.

Fyrsta bók Vilborgar, skáldsagan Við Urðarbrunn, kom út árið 1993 og framhaldið, Nornadómur, árið eftir. Þær gerast um aldamótin 900 og segja frá baráttu ambáttarinnar Korku Þórólfsdóttur fyrir betra lífi og fylgja henni eftir úr ánauð á Íslandi til Heiðabæjar í Danmörku og heim aftur um Suðureyjar og Orkneyjar til frelsis og landnáms á Vestfjörðum. Þessar verðlaunabækur voru endurútgefnar undir titlinum Korku saga árið 2001. Korku saga hefur verið notuð við kennslu í grunnskólum og framhaldsskólum um árabil og notið gríðarlegra vinsælda meðal lesenda á öllum aldri.

Þriðja bók Vilborgar er Eldfórnin (1997), sannsöguleg skáldsaga sem byggir á atburðum sem áttu sér stað í Kirkjubæjarklaustri á 14. öld þegar nunna var brennd þar á báli, og sú fjórða Galdur (2000) sem sömuleiðis byggir á sögulegum atburðum og gerist í Skagafirði á 15. öld þegar Englendingar réðu lögum og lofum á Íslandi. Fimmta skáldsagan, Hrafninn (2005), er byggð á heimildum um lífshætti inúíta og norrænna manna á Grænlandi um miðja 15. öld og örlögum byggðanna sem stofnað var til þar af landnámsfólki frá Íslandi um árið 1000. ​

Næst kom skáldsagan Auður (2009). Hún gerist um miðja 9. öld og fjallar um Auði Ketilsdóttur sem hefur alist upp á eynni Tyrvist undan Skotlandsströndum og stormasamt hjónaband hennar og Ólafs hvíta, konungs Dyflinnar á Írlandi. Framhald hennar, Vígroði, kom út haustið 2012. Síðasta bókin í þríleiknum um Auði djúpúðgu ber titilinn Blóðug jörð. Vilborg lýkur þar þríleiknum um konuna sem á engan sinn líka í landnámssögu Íslands með sjálfstæðri sögu um siglinguna yfir hafið. Hlutu bækurnar fádæmagóðar viðtökur lesenda og gagnrýnenda og var Auður tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. 2020 kom út skáldsagan Undir Yggdrasil þar sem aðalpersónan er sonardóttir Auðar, Þorgerður Þorsteinsdóttir.

Auk skáldsagnaskrifanna hefur Vilborg þýtt þrjár bækur og skrifað fjölda greina. Sannsagan Ástin, drekinn og dauðinn  kom út 2015. Þar segir Vilborg frá vegferð sinni og manns síns með drekanum en svo nefndu þau heilakrabbann sem dró hann til dauða í blóma lífsins árið 2013, og göngu hennar fyrsta árið með sorginni. Á þeim tíma lést einnig tengdamóðir hennar og litlu síðar faðir. Vilborg deilir þar með lesendum því sem sorgin hefur kennt henni: mikilvægi þess að lifa í sátt og viðtekt í núinu og vanda sig við jafnt við að elska, lifa og deyja. Ástin, drekinn og dauðinn hefur vakið mikla athygli og hlotið lof fyrir að fjalla um ástvinamissi og sorg á áhrifamikinn en um leið jarðbundinn hátt.

Vilborg hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín og þau hafa verið þýdd á færeysku, þýsku, ensku, og einnig á arabísku. 

Vilborg er þriggja barna móðir og býr í Reykjavík.


Ritaskrá

 • 2023  Land næturinnar
 • 2020  Undir Yggdrasil
 • 2017  Blóðug jörð
 • 2015  Ástin, drekinn og dauðinn
 • 2012  Vígroði
 • 2009  Auður
 • 2005  Hrafninn
 • 2001  Korku saga -  Við Urðarbrunn og Nornadómur
 • 2000  Galdur
 • 1997  Eldfórnin
 • 1994  Nornadómur
 • 1993  Við Urðarbrunn

 

Verðlaun og viðurkenningar

 • 2003  Viðurkenning Bókasafnssjóðs höfunda
 • 1995  Verðlaun Skólamálaráðs Reykjavíkur fyrir Nornadóm
 • 1994  Viðurkenning Rithöfundasjóðs Íslands fyrir ritstörf
 • 1994  Verðlaun Íslandsdeildar IBBY fyrir Við Urðarbrunn

 

Tilnefningar

 • 2023  Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Land næturinnar
 • 2021  Til Fjöruverðlaunanna fyrir Undir Yggdrasil
 • 2015  Til Fjöruverðlaunanna fyrir Ástin, drekinn og dauðinn
 • 2009  Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Auður
 • 2005  Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Hrafninn

Þýðingar

(í vinnslu)

Þýðingar eftir Vilborgu

 • 2002  Felustaðurinn eftir Trezza Azzopardi

Þýðingar á verkum Vilborgar

 • 2014  Ealaa al shawati al baridih (Ahlam Saber Ohtman þýddi á arabísku)
 • 2012  On the cold coasts (Alda Sigmundsdottir þýddi á ensku)
 • 2011  Die Winterfrau (Gisa Marehn und Anika Lüders þýddu á þýsku)
 • 2004  Der Liebeszauber (Dirk Gerdes þýddi á þýsku)
 • 2003  Das Feueropfer (Gudrun M. H. Kloes þýddi á þýsku)

 

 

Heimasíða

http://www.davidsdottir.is/

Tengt efni