Björg Örvar
Björg Örvar er fædd 1953 og ólst upp í Kópavogi. Hún varð stúdent frá Menntaskólanum við Tjörnina 1973. Björg nam við Myndlista og Handíðaskóla Íslands 1975-79 og síðan við Listadeild Kaliforníu-háskóla í Davis, Bandaríkjunum á árunum 1981-83.
Björg gaf út ljóðabókina Í sveit sem er eins og aðeins fyrir sig árið 1991. Fimm árum síðar sendi hún frá sér skáldsöguna Meinabörn & maríuþang. Ævintýri um ástskyldar verur og unaðstak kræðunnar, sem gerist á mörkum raunveruleika og fantasíu. Þar er á yfirborðinu sögð örlagasaga fjölskyldu nokkurrar í sjávarþorpi og skýrt frá margslungnum ástum qg átökum í heilan aldarfjórðung. Átök og framvinda hverfist um hálfsysturnar Mörtu og Álfhildi, einkum þá fyrrnefndu en við sögu koma ótal fleiri persónur. Í ritdómi Geirs Svanssonar, í Morgunblaðinu, sagði meðal annars: „Eins og í öllum góðum sápum einkennast átök persóna af ófullnægðum þrám, svikum, afbrýðisemi og losta. í bakgrunni eru (samkynhneigðar) ástir í meinum og í það minnsta eitt morð er framið, gott ef ekki þrjú.“ Geir sagði jafnframt: „Texti Meinabarna & maríuþangs er ákaflega lífrænn; ekki bara hvað varðar fjölskrúðugar lýsingar á sjávarlífi, lækningajurtum, fjallagrösum og hvers kyns kynlífi, heldur líka í sjálfu sér. Þar er nánast eins og textinn sé sjálfsprottinn, atburðir eins og hver myndhverfing og líking geti af sér þá næstu og skapi með því atburðarásina, og örlög persóna og leikenda í leiðinni. Ef til vill er það einmitt textinn sjálfur, orðin og þær myndlíkingar sem þau mynda, sem er í aðalhlutverki.“ Soffía Auður Birgisdóttir taldi að skáldsagan „hefði í raun átt að sæta tíðindum í íslenskum bókmenntum þegar hún kom út, svo frumleg og skemmtileg sem hún er.“ Dóm Soffíu Auðar má lesa hér.
Björg hefur starfað við myndlist allar götur síðan hún kom heim frá Bandaríkjunum. Hún hefur haldið fjölmargar einkasýningar hér heima og erlendis og tekið þátt í samsýningum. Verk hennar eru í eigu ýmissa safna svo sem Listasafns Íslands og Listasafns Reykjavíkur, Reykjavíkurborgar, Listasafns Reykjaness, og Safnasafnsins á Akureyri. Björg hefur þegið styrki frá Mugg og Myndstefi og Blaðamannafélagi Íslands meðal annarra og tvisvar fengið starfslaun myndlistarmanna.
Árið 1991 var Björg tilnefnd til Menningarverðlauna DV fyrir myndlist og 1999 var hún kosin bæjarlistamaður Kópavogs. Hún hefur auk þess unnið sem prófarkalesari og útlitsteiknari á dagblöðum, kennt myndlist á námskeiðum og frá 2003 hefur hún séð um listasmiðju á endurhæfingargeðdeild Landspítalans á Kleppi auk þess að vinna þar sem félagsliði í hlutastarfi.
Ritaskrá
- 1996 Meinabörn & maríuþang
- 1991 Í sveit sem er eins og aðeins fyrir sig
Verðlaun og viðurkenningar
- 1999 Bæjarlistamaður Kópavogs
- 1991 Tilnefnd til Menningar-verðlauna DV fyrir myndlist