
Brynhildur Þórarinsdóttir
Brynhildur Þórarinsdóttir er fædd í Reykjavík 27. ágúst 1970. Hún lauk stúdentsprófi frá M.R. 1990, B.A. prófi í íslensku frá Háskóla Íslands 1995 og M.A. prófi í íslenskum bókmenntum frá sama skóla 2004. Ári síðar lauk hún kennsluréttindanámi við Háskólann á Akureyri. Milli prófa starfaði Brynhildur sem blaðamaður og pistlahöfundur, bæði fyrir útvarp og prentmiðla. Hún var einn umsjónarmanna Þjóðbrautarinnar á Bylgjunni og ritstýrði meðal annars Vinnunni, tímariti Alþýðusambands Íslands, og Tímariti Máls og menningar. Brynhildur er núna dósent í íslensku við Kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hún hefur verið formaður SÍUNG og er nú í forsvari fyrir Barnabókasetur, rannsóknasetur um barnabókmenntir og lestur barna við HA.
Brynhildur vann til fyrstu verðlauna í smásagnasamkeppni Samtaka móðurmálskennara 1997 fyrir söguna Áfram Óli. Sagan kom út í samnefndu smásagnasafni 1998. Síðan hefur Brynhildur sent frá sér nokkrar endursagnir fyrir börn á Íslendingasögum auk skáldsagna fyrir börn og unglinga. Fyrir eina þeirra, Leyndardómur ljónsins, fékk hún Íslensku barnabókaverðlaunin 2004. Hún hlaut Norrænu barnabókaverðlaunin 2007 fyrir endursagnir sínar á Íslendingasögunum Njálu, Eglu og Laxdælu. Brynhildur heldur úti vefnum www.islendingasogur.is um efni sagnanna, en hefur einnig sent frá sér skólaútgáfur af Íslendingasögum fyrir íslenskan og enskan markað.
Brynhildur býr á Akureyri ásamt fjölskyldu sinni og á þrjá bókaorma í grunnskóla. Hún var bæjarlistamaður Akureyrar 2006-2007.
Ritaskrá
-
2020 Dularfulla símahvarfið
-
2019 Ungfrú fótbolti
-
2017 Gulbrandur Snati og nammisjúku njósnararnir
-
2016 Warriors of Honour (Oxford University Press)
-
2015 Njálssona saga og Kára. Brennu-Njáls saga seinni hluti (Námsgagnastofnun)
-
2015 Hallgerðar saga og Gunnars. Brennu-Njáls saga fyrri hluti (Námsgagnastofnun)
-
2014 Egils saga (Námsgagnastofnun)
- 2012 Blávatnsormurinn
- 2011 Óskabarn : bókin um Jón Sigurðsson (Auk þess samnefnd sýning í Þjóðmenningarhúsinu)
- 2009 Gásagátan: spennusaga frá 13. öld
- 2008 Nonni og Selma: Fjör í fríinu
- 2007 Nonni og Selma: Fjör í fyrsta bekk
- 2006 Laxdæla
- 2004 Egla
- 2004 Leyndardómur ljónsins
- 2002 Lúsastríðið
- 2002 Njála
Einnig hafa birst smásögur og greinar eftir Brynhildi í safnritum og tímaritum.
Verðlaun og viðurkenningar
- 2007 - Norrænu barnabókaverðlaunin: Njála, Egla og Laxdæla
- 2006 - Bæjarlistamaður á Akureyri
- 2004 - Íslensku barnabókaverðlaunin: Leyndardómur ljónsins
- 2003 - Vorvindar IBBY: Njála
- 1997 - Fyrstu verðlaun í smásagnasamkeppni Félags móðurmálskennara: ,,Áfram Óli"
Tilnefningar
- 2018 - Fjöruverðlaunin: Gulbrandur Snati og nammisjúku njósnararnir