SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir17. desember 2019

„HEF EKKI HERBERGI ÚT AF FYRIR MIG“ - Viðtal við Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur

Í Kennarahúsinu við Laufásveg í Reykjavík sitjum við Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir yfir kaffibolla. Hún er kölluð Sigga Stína, dóttir Jakobínu Sigurðardóttur, og höfundur ævisögu hennar sem tilnefnd er bæði til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka og rita almenns efnis og til Fjöruverðlaunanna. Það er vel við hæfi að hittast í Kennarahúsinu en Jakobína ól ung með sér draum að verða kennari en fátækt og veikindi komu í veg fyrir að sá draumur rættist.

Jakobína er einn af merkustu rithöfundum 20. aldar. Eftir hana liggja níu skáldverk og tvær bækur hennar voru tilnefndar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Á dögum hennar var staða kvenrithöfunda erfið og viðtökur ekki alltaf uppörvandi. Talað var niður til kvenrithöfunda og skáldskapur þeirra beinlínis sagður lítilsigldur. Það brennur á okkur Siggu Stínu. Eftir að hafa hellt bollana fleytifulla af snarpheitu kaffi hefst spjallið.

Talaði Jakobína eða skrifaði um stöðu sína sem rithöfundar í karlaheimi? Ég man hún hafi flutt einhvern tímann erindi í útvarp um kynbundið uppeldi og jafnrétti. Var hún femínísti?

Já, ég held að hún hafi talað um þetta, hún sagði að aldrei væri talað um heimilisaðstæður karla þegar rætt væri um bækur þeirra, eins og gert var varðandi hennar verk. Þá á ég við að sífellt var verið að tala um hve merkilegt væri að kona í sveit og með öll þessi börn skyldi gefa út bækur. Varðandi jafnréttismálin, þá hefur hún síðar meir fengið gagnrýni fyrir klisjukenndar kvenímyndir, eins og kennslukonuna í Dægurvísu. En hún var hlynnt jafnrétti kynjanna og sýndi það víða í skrifum sínum, bæði skáldskap og blaðagreinum.

Vist og kaupamennska, láglaunavinna og basl einkenndu yngri ár Jakobínu, það virðist vera svo langt síðan þetta var hlutskipti ungra kvenna á Íslandi en er þó svo stutt. Þura í Garði naut t.d. ekki skáldskaparhæfileika sinna, náfrænka Starra, eiginmanns Bínu. Bríet Bjarnhéðinsdóttir er nefnd til sögunnar en hún var ekki sú eina sem lagði eitthvað af mörkum til kvennasögunnar?

Bríet er eins og Everest í íslenskri kvennasögu! En að sjálfsögðu var hún ekki ein á báti. Kvenfélögin höfðu menntun kvenna og bætta stöðu kvenna á stefnuskrá sinni og ekki má gleyma Kvenréttindafélaginu sem barðist að sjálfsögðu fyrir réttindum kvenna og þar má t.d. nefna konu eins og Þorbjörgu Sveinsdóttur. Bríet var hins vegar mikill brautryðjandi og óþreytandi baráttukona svo það er ekki skrítið að nafn hennar heyrist oftast.

Jakobína er afar lipurt ljóðskáld en segist ekki vilja yrkja, nema bara sér til hugarhægðar. Það er mjög áhugavert að lesa um efasemdir hennar, vonir og drauma í bókinni þinni. Heldurðu að hún hafi verið sátt?

Held að ekkert skáld sé sátt við æviverkið. Ég ímynda mér að hún, eins og svo margir aðrir, hafi ætlað sér að skrifa svo miklu meira. Eflaust var hún eins sátt og hægt var við það sem hún fékk gefið út, að baki hverrar bókar lá mikil vinna.

Í bókinni nefnir þú veikindi, erfiða andlega heilsu, þunglyndi og sjálfsvígshugsanir. Varðstu vör við þetta á heimilinu í Garði í Mývatnssveit?

Ég nefni sjálfsvígshugsanir sem möguleika á hennar yngri árum og byggi það á bréfum sem hún fær sem svar við einhverju sem hún hefur skrifað. Ég held samt ekki að það hafi rist djúpt. Þyngslin voru meiri á yngri árum – en jú, við systkinin fundum alveg fyrir því að mamma væri ekki alltaf létt í lund. Hún tók sér daga til að sinna þunglyndinu. Svo var nú þetta með breytingaskeiðið; læknar jusu ávanabindandi lyfjum í konur og það tel ég hafa verið slæmt fyrir mömmu. Ég áttaði mig ekki á þessu sem þyngslum fyrr en ég hafði þroska til að meta slíkt. Ég óttaðist þessi köst hennar, þurfti nefnilega að fela þau fyrir nágrönnunum, fannst mér. Hún var stíf í lund, ekki mjög sveigjanleg. Við urðum að lúffa fyrir lögmálum hennar, annars mætti manni kuldi og þögn. En svo var hún líka svo létt og skemmtileg, með góða kímnigáfu og svo notalegt að sitja með henni og rabba um heima og geima. Lífskjör hennar og aðstæður voru þannig að mér dettur ekki í hug að áfellast hana fyrir skapbresti eða óstjórn, ég vil fremur minnast góðu stundanna.

Bréfin, já. Mér svelgist á kaffinu við að hugsa um fjögur horfin bréfasöfn. Og dagbók sem er brennd á báli! Hvað á kona að gera ef hún er beðin um að farga slíku góssi?

Einmitt! Þegar mamma dó var ég í svo mikilli sorg. Dóttir mín var nýfædd, kannski flæddu hormónarnir stjórnlaust um líka. Í mínum huga kom ekki annað til greina en að hlýðnast óskum mömmu um að brenna bréf og dagbækur. Ég dauðsé eftir þessu, en gert er gert og kannski myndi ég gera þetta líka núna ef ég stæði frammi fyrir slíku.

Í bókinni eru skemmtilegar senur þar sem þið mæðgur spjallið saman, hún lifnar þar alveg við, sú gamla. Húsverkin hafa verið krefjandi, borðaði hún út í horni? Var hún sífellt að vinna? Skrifaði hún á nóttunni?

Oft borðaði hún við eldhúsbekkinn en ekki við borðið með hinum. Að sumu leyti held ég að það hafi verið af andúð á afa og svo voru líka húsmóðurskyldurnar, að þurfa kannski að bæta mat á borð, þá var allt eins gott að sitja þar sem var auðvelt að athafna sig.

Varðandi skriftirnar og húsverkin; einhverjir héldu eflaust á sínum tíma að skrifin bitnuðu á húsmóðurskyldunum, en það var nú ekki þannig. Hún skrifaði oft á nóttunni, sagðist ekki hafa þurft mikinn svefn fyrr en hún tók að eldast. Svo kom föðursystir mín á hverju sumri með fjölskyldu sína og sá um heimilið í einhverjar vikur meðan mamma skrifaði. Það voru einu skiptin sem hún hafði almennilegan vinnufrið. Þegar við systkinin uxum úr grasi fór hún stundum suður og fékk inni einhvers staðar þar sem hún gat unnið.

Þú nefnir í bókinni klemmuna um hlutlausa fræðimennsku og það að skrifa um móður sína, nærtækan og persónulegan efnivið. Hún er goðsögn í bókmenntum, róttæklingur og athvarf þitt og skjól, sterk kona, fyrirmynd þín. Hvernig valdir þú sjónarhornið, hvernig gekk að finna frásagnaraðferð?

Ég vinn allt öðru vísi en mamma gerði, enda voru tölvurnar ekki til þegar hún var að skrifa. Ég veð áfram og skrifa allt sem mér dettur í hug og síðan finn ég smám saman hvernig ég vil nálgast efnið. Mamma glímdi lengi við sín skáldverk í huganum áður en hún tók að skrifa. Þá mátaði hún ýmsar formgerðir og svo átti hún það til að skrifa allt upp á nýtt ef henni líkaði ekki formið, eins og hún gerði með Lifandi vatnið. Bara með penna og ritvél að vopni. Ég ætlaði að skrifa af hjartans lyst út frá sendibréfum fyrst og fremst og láta fræðimennskuna lönd og leið. Skrifa stutta bók. Það stangast samt á við það sem ég lærði í sagnfræðiskor Háskóla Íslands, ég er nefnilega með meistarapróf í sagnfræði og hef skrifað ýmislegt efni fræðilegt, t.d. kennsluefni í sögu. Þannig að meðan ég vann textann svona kæruleysislega þá setti ég samt inn tilvísanir og neðanmálsskýringar til að halda þeim til haga. Eftir því sem verkið óx og stækkaði sá ég að ég yrði að vinna þetta með slíkum hætti, þetta væri svo mikið heimildaverk.

En ég hafði efasemdir um að kollegar mínir í sagnfræðinni fengjust til að viðurkenna þessa sögu sem sagnfræði, þar sem viðfangsefnið stendur mér nærri og ég nálgast frásögnina svo persónulega. Slíkt er auðvitað ekki óþekkt innan sagnfræðinnar, ekki einu sinni að eiga samtal við rannsóknarefnið. Um það vissi ég reyndar ekki, þetta með samtalið, heldur var mér bent á það eftir á. Þegar ég var að skrifa svona um einkamál mömmu og líf hennar, þá glímdi ég auðvitað við svolítið samviskubit, vitandi það að hún hefði aldrei nokkru sinni látið annað eins á prent. Ekki einu sinni sagt frá því. Því fékk ég þessa hugmynd, að í stað þess að glíma bara við samviskuna – og mömmu – í huganum, að búa til þetta samtal við hana. Einhverjir yfirlesara minna voru í fyrstu með svolitlar efasemdir, en ég var alveg hörð á þessu og flestir sem ég heyri til eru mjög hrifnir af þessari nálgun. Þeir sem þekktu mömmu finnst þeir jafnvel heyra í henni!

Fram kemur í bókinni að Jakobína hafi verið óstöðug og stjórnsöm, tekið læknadóp og verið sívinnandi. Hvernig var hún á heimilinu? Ég man nefnilega aðeins eftir henni, afskaplega grönn og síreykjandi, líka á nóttunni. Hún þekkti afa minn og ömmu og foreldra mína, hún dvaldi hjá okkur fjölskyldunni í nokkrar nætur í Köben þegar við bjuggum þar 1976. Mér þykir alltaf doldið vænt um þessa minningu.

Ha? Nú verður þú að ættfæra nánar! Hvaða fólk er þetta?

Afi minn var líka rithöfundur á Norðurlandi, Einar Kristjánsson frá Hermundarfelli. Ekki er ólíklegt að hann hafi beðið foreldra mína fyrir Bínu.

Þá hefur þetta verið 1977, sem hún segir frá í bréfum sínum, þegar hún var á leið til Stokkhólms í tilefni sænskrar þýðingar á Lifandi vatninu. Þá stoppaði hún einmitt í Kaupmannahöfn. Svona er nú heimurinn lítill.

En að spurningu þinni, mamma stjórnaði með þögninni. Ef henni mislíkaði gat hún skammað mann, síðan tók þögnin við og stóð þess vegna í nokkra daga, allt eftir stærð brotsins. Hún var afar sterkur persónuleiki og við beygðum okkur undir hennar lögmál, öll börnin og kannski ég mest, enda mesta mömmubarnið. Hún var harðdugleg og sívinnandi. Þó svo einhverjar kellingar í sveitinni hafi baktalað hana sem lélega húsmóður (og einhverjir karlar sönglað með) þá var það helber lygi. Hún eldaði, bakaði, tók slátur og allt það, saumaði, prjónaði, gerði við fatnað, tók börn í fóstur, var í stöðugri gestamóttöku og guð veit hvað. Veit ekki hvað sumum þótti vanta þar á, nema ef vera skyldi þessi dauðasynd að gera eitthvað annað en að vera móðir og húsmóðir.

Hún var viðkvæm og mátti ekkert aumt sjá. Henni féll illa ef fólk kom illa fram við dýr og við minnimáttar. Til dæmis man ég að þegar ríki kommúnismans voru að falla og taka átti Sjáseskú og frú af lífi í Rúmeníu ca. 1989, þá lá við að hún legðist í bælið, ekki af því að þau væru á neinum stalli í hennar huga, heldur vegna þess hvað þetta ofbauð hennar mannúðarhugsun. Hún var góð við krakka, talaði alltaf við þau eins og fólk og af virðingu. Á síðari árum kynntist ég betur hve gamansöm hún gat verið og „aðhlægin“ eins og hún sagði sjálf. Ef henni fannst eitthvað verulega spaugilegt þá veltist hún um af hlátri.

Ég tala um læknadóp, já, því var ausið í hana þegar henni leið illa á breytingaskeiðinu. Ég tel, án þess að hafa rannsakað það, að þetta hafi verið gert í miklum mæli við íslenskar konur (kannski erlendis líka). Breytingaskeiðið hafði í för með sér svefnvanda og þungar hugsanir; ráðið var valíum, diazepan og mogadon eða eitthvað þvíumlíkt, vanabindandi róandi lyf og svefntöflur. Hins vegar var hún svo stíf á prinsippinu að ég held að þetta pilluát hafi aldrei farið neitt villimannlega úr böndunum. Hins vegar drakk hún sig stundum fulla þegar mjög illa lá á henni og það fannst mér miklu verra. Ekki að hún væri neitt úti í sveit að skandalísera, heldur lokaði hún sig af. Þetta var e.t.v. bara eitt síðdegi eða kvöld, daginn eftir var eins og ekkert hefði í skorist. Eftir að hafa skoðað ævikjör hennar betur finnst mér þetta skiljanlegt. Hún var svo einmana og um margt ósátt við ævikjör sín. Ég er viss um að ég hefði farið margfalt lengra út á galeiðuna í hennar sporum!

Naut Bína aldrei sannmælis, kona í karlaheimi sem bjó fyrir norðan, var hennar hlutskipti svipað og Oddnýjar Guðmundsdóttur, skáldkonu frá Hóli á Langanesi? Gat hún aldrei almennilega helgað sig köllun sinni? Er það fórnin sem konur færa eilíflega vegna móðurhlutverks, eiginkonustöðu og brauðstrits?

Oddný var vinkona mömmu, hún var einhleyp og starfaði sem farkennari. Hún hafði því tvennt fram yfir mömmu, menntun og frelsi (upp að vissu marki). Mamma þráði menntun en fékk ekki. Og móðurhlutverkið og brauðstritið kom auðvitað í veg fyrir að hún gæti helgað sig köllun sinni, en um leið skapaði það henni tækifæri til að skrifa. Hefði hún átt heima í bæ þar sem hún vann fastan vinnutíma, e.t.v. gift verkamanni og með öll þessi börn, þá hefði það aldrei gengið. Í sveitinni gat hún hagrætt verkunum og leyft sér að vaka á nóttunni og leggja sig á daginn. Oddný þurfti ekkert að velta þessu fyrir sér en hún þurfti að vinna og hún var kona og konur áttu erfiðara uppdráttar með að koma ritverkum sínum á framfæri.

Það er við hæfi að fá sér meira kaffi núna, þegar hugurinn leitar að kellingabókaumræðunni. Hin fræga sena þegar karlar niðruðu bækur kvenna í fjölmiðlum á sjöunda áratugnum og dr. Helga Kress dró fram í dagsljósið, erum við ennþá þar?

Ja – við erum með Fjöruverðlaun, ekki satt? Segir það ekki dálitla sögu? En samt, ég held að við færumst fjær með ári hverju. Þetta er samt ekki eins og hraðlest, meira eins og hægfara sveitalest sem stoppar á hverri stöð.

Hjónaband Bínu og Starra í Garði, sannast þar að ástin er sterkari en listin? Kom þeim vel saman? Átti hann ekki sinn þátt í að ekki var gert neitt í því að tengdafaðir Bínu beitti fjölskylduna ofbeldi? Gat hún fyrirgefið það? Hún fer ekki burt en hvert hefði hún getað farið? Hefði brottför eða skilnaður frelsað hana?

Ég veit ekki hvað segja skal. Listin var nú kannski sterkari en ástin, vegna þess að mamma/Bína brotnaði svolítið og hún átti í raun ekki val. En hún var alltaf að hugsa um listina, um það sem hún þráði heitast að gera. Hún var yfir sig hrifin af pabba og þau hvort af öðru. Ástandið heima fyrir reyndi verulega á samband þeirra. Bróðir minn myndi eflaust halda því fram að hjónaband þeirra hafi verið hörmung, en ég er ósammála. Pabbi studdi hana eindregið varðandi rithöfundarferilinn. Það var bara svo takmarkað sem hann gat gert, þau þurftu bæði að strita myrkranna á milli. Ég held að hann hefði gert allt til að létta undir með henni, hefði hann getað. Og þau deildu skoðunum og um margt áhugamálum og þau gátu oftast talað saman. Þetta skrifar hún líka til móður sinnar, eins og fram kemur í bókinni. Já og þetta með að fyrirgefa – það held ég að hún hafi gert og hún álasað sjálfri sér líka, er það ekki bara svolítið dæmigert fyrir okkur konur?

Það er greinilega mikil togstreita í sál Bínu, hún er mjög lokuð manneskja og talar ekki um tilfinningar eða erfiða atburði, það er talað um vestfirska þögn í bókinni. Er hún nú afhjúpuð?

Já, þögnin er sannarlega rofin. En ég afhjúpa auðvitað ekki allt sem ég veit. Ég afhjúpa bara það sem mér finnst þjóna tilgangi í frásögninni. Ég get nefnt sem dæmi að ég skrifa talsvert langt mál um föðurafa minn. Ég komst að ýmsu um hann í leit minni, ég segi ekki frá því öllu vegna þess að ég sé ekki að ég þurfi fleiri drætti í þá mynd. Mamma fær líka að eiga einhverja hluti í friði. Sjálfsagt ekki nógu marga, hefði hún fengið að ráða.

Hef ekki herbergi út af fyrir mig, segir Jakobína. Er það sérherbergið sem Virgina Woolfe þráði svo heitt á sínum tíma? Bínu langar að dvelja heima um hríð í herbergi Guðnýjar systur því hún getur ekki unnið í Garði, segir hún. Þá er hún að skrifa Lifandi vatnið. Fríða systir hennar fékk betri tækifæri, bæði til að mennta sig og sinna sínum skáldskap. Mun kvenrithöfunda alltaf vanta sérherbergi til að geta skrifað?

Þegar mamma skrifaði sínar bækur áttu konur erfitt uppdráttar í bókmenntaheiminum. Skrif þeirra náðu ekki eyrum bókmenntaskríbenta sem allir voru karlar. Viðmið „góðra“ bókmennta voru rit karla. Ég veit ekki hvort hætt er að lýsa bókum eftir konum sem litlum huggulegum bókum, eins og svo oft var gert, með áherslu á „litlar“. Konur höfðu fæstar efni á að sitja við skriftir. Mamma var lítið skólagengin og hafði ekki efni á menntun. Hún gat ekki, eins og samtíðarkarlar margir hverjir, rifið upp pening með því að fara á vertíð (eins og Þórbergur lýsir t.d. í Ofvitanum) til að komast í Kennaraskólann, eins og var markmið hennar. Enginn vildi kosta skrif hennar, eins og gert var fyrir Halldór Laxness. Fyrir utan það að Laxness þurfti ekkert að hafa fyrir heimilishaldinu, Auður sá um það. Pabbi var fullkomlega ósjálfbjarga í eldhúsinu!

Varðandi spurningu þína, þá held ég að hlutirnir hafi breyst mjög mikið. Enn eru þó konur skylduræknari og með meiri ábyrgð á herðunum en karlar. Þá á ég ekki við „opinbera“ sviðið sem er t.d. á vinnumarkaði, heldur einkasviðið, heimilið. Þær eiga pottþétt erfiðara með að taka sér tíma heima heldur en karlar.

Þú vilt breyta umsögn um Jakobínu þannig að hún setji stétt jafnt kyni. Af hverju?

Bína/mamma var eldrauð í sinni lífsafstöðu. En hún var aldrei neinn sellukommi og skellihló þegar ég spurði hana eitt sinn að því. En sósíalisti, jú, það var hún í anda. Hún var samt aldrei virk í stjórnmálaflokki, mér vitanlega. Stjórnmálabarátta hennar var á vettvangi hernaðarandstæðinga, þeirri baráttu helgaði hún krafta sína. Ég varð ekkert tiltakanlega vör við viðhorfið „stétt gegn stétt“ eins og oft heyrðist meðal vinstrimanna. Verk hennar einkennast af gagnrýninni hugsun, ekki upphafinni dýrkun verkamannastéttarinnar. Hins vegar fyrirleit hún auragræðgi og peningadýrkun. Auðvaldið átti ekki upp á dekk hjá henni.

Mér finnst gagnrýni sumra feminískra bókmenntafræðinga á verk hennar byggð á misskilningi. Vissulega má segja að sumar konur í verkum hennar séu klisjukenndar. En erum við þá að segja að slíkar tilfinningar hafi ekki fyrirfundist? Að aldrei hafi verið til miðaldra kona sem hafði farið á mis við ástina og séð eftir því? Eða má ekki segja frá því? Það sem vekur mig til svolítillar uppreisnar er lýsing kvenna sem eru eins og brúður, komast áfram út á útlit og kynþokka, eiga góða fyrirvinnu og hugsa bara um útlit og veraldleg gæði en þykjast ekki hafa vit á neinu öðru. Eins og Svava í Dægurvísu. Ég er ekki í vafa um að nóg var af lifandi fyrirmyndum, en mér finnst mamma dæma þær svolítið hart. Þær voru bara afurð ríkjandi fyrirkomulags og hlutverks kvenna innan þess. Af hverju ég segi að hún setji jafnrétti kynjanna jafnt stéttabaráttu? Jú, vegna þess að jafnrétti kynjanna er rauður þráður í skrifum hennar og þau mál voru henni afar hugleikin.

Skemmtilegur er lokakaflinn þar sem Bína sjálf segir álit sitt á bókinni í sviðsettu samtali ykkar mæðgna. Ertu þá búin að ljúka kafla í lífi þínu, koma frá þér fargi eða skyldu, ljúka köllun þinni með þessari bók?

Jú, ljúka kafla í lífi mínu, það er rétt lýsing. En ég myndi aldrei kalla það farg eða skyldu. Ég hef mikla ánægju af að skrifa, hvort heldur er sagnfræði eða skáldskapur en er samt byrjandi þar. Auðvitað hvílir á manni að þurfa að klára verk fyrir ákveðinn tíma og viss léttir að ljúka því. Og mér fannst ég verða að skrifa þessa bók – hún átti reyndar aldrei að verða svona stór, en þannig eru skriftir, þær þróast og ekki hægt að sjá fyrir hvernig, jafnvel þótt höfundurinn setji sér stefnu og markmið.

Mér heyrist þú ætla að skrifar meira? Ertu kannski með sérherbergi?

Alltaf skrifandi. En ég er fullvinnandi kona og vinnan er oft krefjandi og stundum koma tímabil þar sem ég ferðast mikið og hef þá ekki tíma til skrifta. Ég fæ alls konar hugmyndir, hef skrifað skáldsögu sem ekki náði í gegn sem fullunnið ritverk og er líka með hugmyndir að annars konar ritverk. Árið 2013 kom út bók eftir mig sem heitir Alla mína stelpuspilatíð. Hún var einskonar feminísk ævisaga, ég var að velta fyrir mér kjörum kvenna fyrr og nú og notaði eigin æviatriði sem grunn. Þessi bók varð satt að segja talsvert vinsæl, alls konar fólk hringdi í mig eða skrifaði og þurfti að ræða efni hennar. Það var svo skemmtilegt. Hún varð ekki metsölubók, en seldist samt upp, held ég. Fékk engin verðlaun en þessar viðtökur, jafnvel að fólk stoppaði mig inni í verslun til að ræða bókina, voru það besta sem hægt er að fá. Þá bók skrifaði ég meðfram krefjandi vinnu og hafði mitt eigið litla sérherbergi með bókunum mínum. Þetta var meðan ég bjó í Skagafirði.

Hér í borginni er ég líka með indælt vinnuherbergi með allt sem ég þarf. Maðurinn minn hvetur mig áfram og styður allt sem ég tek upp á. Það má segja að hann eigi stóran þátt í tilurð bókanna, því með fyrri bókina rak hann mig til að senda uppkast til útgefanda og með þessa bók hvatti hann mig til að halda inni þessum fræðilega vinkli. Án hans hefði ég líklega ekki fengið þessar tvær tilnefningar til bókmenntaverðlauna, sem eru svo ótrúlega ánægjulegar og hvetja mig áfram. Samt finnst mér eiginlega að mamma og konurnar í Hælavík á Hornströndum og í Garði í Mývatnssveit séu að fá viðurkenningu frekar en ég.

Takk Sigga Stína, fyrir að halda heiðri Jakobínu á lofti, rjúfa þögnina um hana og leyfa okkur að kynnast henni og þér.

Kaffið hefur kólnað meðan á spjallinu stóð, Sigga Stína orðin óróleg og lítur á úrið sitt, því hún hefur lítið komist í jólaundibúninginn vegna anna við að kynna bókina sína. Við erum búnar að tala okkur heitar um konur og skáldskap og höldum hugdjarfar út í frostið og snjóinn.

12. desember 2019

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Myndir úr bókinni: SKÞ og Forlagið

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tengt efni