SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir

Sigríður Kristín fæddist 20. september 1956 í Mývatnssveit, dóttir Jakobínu Sigurðardóttur rithöfundar og Þorgríms Starra Björgvinssonar í Garði, komin af Reykjahlíðar- og Skútustaðaætt og af kjarnafólki á Hornströndum.

Sigríður Kristín lauk tækniteiknaranámi frá Iðnskólanum í Reykjavík 1977 og stúdentsprófi frá MH 1984. Hún lauk BA-prófi í sagnfræði með stjórnmálafræði sem aukagrein við HÍ 1989 og MA-prófi í sagnfræði 1999. Einnig lauk hún kennslufræði til kennsluréttinda frá HÍ 1998.

Sigríður Kristín hefur skrifað ýmislegt fræðilegt efni, t.d. kennsluefni í sögu. Hún hefur starfað sem kennari, blaðamaður og sérfræðingur hjá Byggðastofnun og sinnt ýmsum félagsstörfum, sat í stjórn Sagnfræðingafélagsins 1996-1999, í ritstjórn Kvennaslóða og Sagnfræðingatals, og hefur setið í stjórn Sögufélags Skagfirðinga frá 2006.

Fyrsta skáldverk hennar heitir Alla mína stelpuspilatíð, og er eins konar femínísk skáldævisaga um kjör og hlutskipti kvenna fyrr og nú. Ævisaga móður hennar, Jakobína saga skálds og konu, var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna 2019. Lesa má greinargott viðtal við Sigríði Kristínu um bókina, Bínu og skáldskapinn á vefnum skáld.is.

Sigríður Kristín býr og starfar í Reykjavík.


Ritaskrá

 • 2019 Jakobína, saga skálds og konu
 • 2013 Alla mína stelpuspilatíð
 • 2004 Saga stjórnarráðsins 1964-2004, fyrri hluti III. bindi
 • 2004 „Fjötrar ástar og skyldu.“ Fléttur II. Kynjafræði – kortlagningar
 • 2001 Hinn þröngi hringur. Umræðan um hlutverk og eðli kynjanna um aldamótin 1900, rit Söguþings
 • 2000 Upplýsingin. „Dyggðarinnar lukt og ljósberi.“ Ritröð NB
 • 2000 „Mitt hjarta svarar ekki.” Kvennaslóðir. Rit til heiðurs Sigríði Th. Erlendsdóttur (ritstj.)
 • 2000 „Hér hefur merkileg saga gerst.“ Óháði söfnuðurinn 50 ára 1950-2000 (ritstj.)
 • 1997 „Sá besti vegur til dyggða og dugnaðar.“ Saga Félags garðyrkjumanna 1943-1993

Verðlaun og viðurkenningar

 • 2019 Tilnefning til íslensku bókmenntaverðlaunanna
 • 2019 Tilnefning til Fjöruverðlaunanna

Tengt efni