SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir22. janúar 2023

VEIPAÐ Í RÖKKRINU

Magnea J Matthíasdóttir var að senda frá sér ljóðabók eftir langt hlé, Þar sem malbikið endar. Hún varð sjötug á dögunum. Í spjalli við Jórunni Sigurðardóttur í þættinum Orð um bækur í tilefni af útgáfu bókarinnar talar hún m.a. um harkalegar viðtökur á tímum þegar konur voru að taka sér pláss meðal ráðandi karlrithöfunda. Í ljóðabókinni eru 44 ljóð frá ýmsum tímum en þema þeirra er innan ákveðins ramma sem skáldið setti sér. M.a. er fjallað um umhverfi nútímamannsins, sjálfsmynd og unga fólkið sem „veipar í rökkrinu“.

Árið 2019 fékk skáld.is leyfi til að birta eitt ljóðanna sem Magnea deildi þá á facebook. Það heitir Skúrar:

svona er það þetta sumar
skin milli skúra
eða kannski hálfrökkur og kattaraugu og njóli
milli skúra
þeirra fáu sem eftir eru
milli byggingakrana
kannski bara skin milli byggingakrana
svona er sumar
ekki bara þetta heldur mörg önnur
með hálfa þjóðina á fjöllum
hinn helminginn í útlöndum
og enginn hér
nema auðvitað ferðamenn að taka sjálfur
hjá nýmáluðum skúrum
ekki þó milli þeirra
ekki einu sinni þótt þeir séu nýmálaðir og sjænaðir upp
eins og grásleppuskúrarnir á ægissíðu
sem við vorum send að teikna ár eftir ár
þeir myndrænu skökku hrörlegu skúrar
í teikniblokkum minninganna
svona er þetta
byggingakranarnir marka okkur torfarnar leiðir
milli ómálaðra blokka
sjæna varla upp njóla og ketti
og ráða ekki við húmið
sjálf sitjum við með tregablandin tár í augum
og rifjum upp minningar um skúra
í útlöndum eða á fjöllum
allt að fara til fjandans það ferst það ferst
þótt glói vín á skál
og þjóðskáldin svamli þar enn nálægt botni
á eilífri leið til sumarlandsins
svona er það
og upp er sprottin önnur kynslóð eins og njóli
okkur að óvörum
teiknar glaðbeitt byggingarkrana
nennir ekki þessum fjandans skúrum
klappar köttunum
veipar í rökkrinu
og skellir sér á fjöll eða til útlanda
í skini og skúrum
þetta er svona sumar

 

 

Tengt efni