SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir16. febrúar 2023

FEGURSTA ÁSTARJÁTNINGIN 2022

Sigurvegari í keppninni um fegurstu ástarjátninguna í útgefnum verkum ársins 2022 er Urðarflétta, eftir Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur (f. 1988).
 
Bókin var tilnefnd sem fegursta ástarjátningin frá móður til barns, en í raun hefði mátt kalla hana ástarjátningu til móðurhlutverksins sjálfs. Ljóðmælandi er móðir sem elskar börnin sín, en líka dóttir sem elskar formæður sínar. Þetta fléttast saman við ástina á hinni mestu móður, náttúrunni. Moldinni sem nærir og blómunum sem þar spretta. Því má með sanni segja að Urðarflétta sé risavaxin ástarjátning – og vel að Sparibollanum komin, segir í frétt frá Unu útgáfuhúsi.
 
Til hamingju Ragnheiður Harpa!
 
 
 
 

Urðarflétta inniheldur fíngerð og dulmögnuð prósaljóð um náttúruna sem býr innra með okkur, viðkvæm augnablik, horfna skóga, uglur sem grípa nóttina, ástvini í handanheimi, eggaldin sem vex úr koki, kreppta hnefa, sár sem aldrei gróa, fljúgandi þakplötur, þeysandi halastjörnur og byltingar sem fæðast í móðurkviði. Urðarflétta er önnur ljóðabók Ragnheiðar Hörpu.

Ragnheiður Harpa Leifsdóttir er rithöfundur og sviðslistakona. Fyrsta ljóðabók hennar, Sítrónur og náttmyrkur, kom út haustið 2019. Ragnheiður Harpa er ein Svikaskálda og hefur ásamt þeim gefið út ljóðabækurnar Ég er ekki að rétta upp hönd, Ég er fagnaðarsöngur og Nú sker ég netin mín. Skáldsaga Svikaskálda, Olía, hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2021 (Una útgáfuhús).

 
 
 
 

Tengt efni