SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir23. febrúar 2023

TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR KOMIÐ ÚT

Nýkomið er út fyrsta hefti af Tímariti Máls og menningar 2023. Eins og ævinlega úir og grúir af áhugaverðu efni í tímaritinu; þar má lesa frumsamin ljóð og smásögur, greinar um bókmenntir og ritdóma um nýleg bókmenntaverk.

Kápumyndin er að þessu sinni eftir Áslaugu Jónsdóttur myndlistarkonu og rithöfund en einnig eru birt þrjú vetrarljóð eftir hana í þessu hefti.

Auk Áslaugar eiga Sunna Dís Másdóttir, Krista Alexandersdóttir, Guðbjörg Guðmundsdóttir og Óskar Árni Óskarsson ljóð í heftinu og óvenju margar nýjar smásögur er þar að finna, en þær eru eftir Stefán Mána, Ólaf Gunnarsson, Sigurlínu Bjarneyju Gísladóttur, B. Sjór og Aðalstein Emil Aðalsteinsson.

Sigrún Alba Sigurðardóttir ritar fyrsta hugvekjupistil ársins en hún sendi síðastliðið haust frá sér mjög áhugaverða og fallega bók, Snjóflyksur á næturhimni, þar sem hún vefur saman hugleiðingum um ljósmyndir og minningarbrotum. Ritdóm um bókina má lesa hér. Í heftinu birtist einnig viðtal Huldars Breiðfjörð við Margréti Örnólfsdóttur kvikmyndagerðarkonu og rithöfund.

Tvær áhugaverðar greinar eftir konur birtast í tímaritinu að þessu sinni. Dagný Kristjánsdóttir skrifar um kynferðislegt ofbeldi fullorðinna karlmanna gegn ungum stúlkum í nokkrum skáldsögum Halldórs Laxness og um hvernig karlritdómarar fegruðu eða hundsuðu slíkt ofbeldi þegar þeir fjölluðu um bækurnar. Melkorka Gunborg Briansdóttur fjallar í sinni grein um markleysu eða nonsense í bókmenntum og ræðir bæði íslensk og erlend dæmi.

Að lokum má nefna að tímaritið birtir alltaf nokkra ítarlega ritdóma um nýlegar bækur og að þessu sinni eru í heftinu umsagnir um skáldsöguna Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur, fræðiritið Farsótt eftir Kristínu Svövu, barnabókina Frankensleiki eftir Eirík Örn Norðdahl og nýja bókmenntasögu: Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi I-II. Allir ritdómar Tímarits Máls og menningar birtast á heimasíðu tímaritsins um leið og heftið kemur út.