SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 4. apríl 2023

PUKUR OG STOLNAR STUNDIR - Um Tófuna

 

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir hefur haldið úti síðunni Tófan - Ljóða- og fræðasetur á Facebook og vefnum tofan.is en það er afar áhugaverð síða sem geymir fróðleik um ýmsar skáldkonur nítjándu aldarinnar. Hún skoðar bakgrunn þeirra, eins og menntun og baráttu til sjálfstæðis, hvernig mótun kyngervis birtist í verkunum og svo þann kalda veruleika orðræðunnar sem mætti konum sem vildu feta skáldaslóðina. Einnig heldur hún úti instagramminu Ljóðabækur íslenskra kvenna.

Í viðtali Júlíu Sveinsdóttur frá 2019 sem vert er að rifja upp í dag, segir Magnea m.a.

Tófan? Af hverju að einblína á verk kvenna og jafnvel gömul og gleymd verk?

Í verkum kvenna eru að finna bæði gull og gersemar, ljóð sem eru myndræn og um leið örlítil gátt inn í menningu fyrri tíma. Mig langaði til þess að fólk geti lesið kvæðin þeirra í dag og þessvegna opnaði ég facebook síðuna (snjáldursíðuna) Tófuna. Tófan leitast við að finna tóninn/röddina í kvæðum kvennanna. Í fyrstu skólaljóðabókinni eru 63 ljóð, þrjú þeirra eru hugverk kvenna! Börn voru markvisst ekki látin læra ljóð eftir konur nema að örlitlu leyti en verk eftir konur hafa einhverja sögu að segja og því ber að halda til haga.

Mér finnst það skipta miklu máli að jafna hlut kvenna enda ég tel það vera mannréttindi í þessum heimi. Konur áttu erfitt uppdráttar með verk sín og oft gáfu þær kvæðin út á eigin kostnað. Þær pukruðust oft með þau og ekki var óalgengt að tíminn sem færi í párið, þættu stolnar stundir á kostnað starfa þeirra.

Tengt efni