SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 6. apríl 2023

TÓFAN SAMEINAST SKÁLD.IS - Ný ritstjórn 2023

Þau stórtíðindi hafa orðið að Tófan - ljóða- og fræðasetur hefur sameinast Skáld.is og Magnea Þuríður Ingvarsdóttir, frumkvöðull í ljóðasöfnun kvenna sem hefur haldið úti facebooksíðu setursins og vefnum Tófan.is af elju og þrautseigju sl ár, er sest í ritstjórnarstól skáld.is. Þar eru á fleti fyrir Jóna Guðbjörg Torfadóttir, Soffía Auður Birgisdóttir og Steinunn Inga Óttarsdóttir. Þessi sameining er góð innspýting fyrir báða aðila sem eiga margt sameiginlegt og verða öflugri fyrir vikið.

Magnea Þuríður segir m.a. í færslu á facebook í gær:

„Skáld.is sem sagt bauð Tófunni að sameina kraftana og eftir nokkra umhugsun var það vel þegið. Þannig að nú tilheyrir Tófan, Skáld.is og hlakkar til að vera partur af þeirra góða starfi. Oft hef ég leitað til þeirra til að fá staðfestingu á hinu og þessu, hvernig þær setja upp vefinn sinn eða hvort þær þekki hinar eða þessar ljóðakonur, réttum ártölum og þess háttar. Stundum finnst mér eins og þær hafa verið stóra systir sem gott var að leita til.

En nú eru nýir tímar. Enn mun þó efni halda áfram að birtast á snjáldursíðum Facebook undir merkjum Tófunnar en annað efni verður flutt yfir á skáld.is
 
Tófan hefur verið starfrækt í 5 ár nú í vor. Á þessum tímamótum vil ég þakka ykkur öllum fyrir samfylgdina og vona að ljóð 19. aldarkvenna haldi áfram að vera fyrirmynd góðrar íslensku.
 
Sameinumst nú öll í að halda góðum kveðskap hátt á lofti.“
 
Við í ritstjórn skáld.is þökkum Magneu fyrir dýrmætt framlag við að gera íslenskar kvennabókmenntir liðinna alda aðgengilegar sl ár og hlökkum til samstarfsins. Velkomin í ritstjórn!
 

 

Tengt efni