SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir20. apríl 2023

BARNABÓKAVERÐLAUN REYKJAVÍKURBORGAR

Í gær voru Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar veitt og komu þau í hlut tveggja höfunda og eins þýðanda. Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum og dómnefndina skipuðu Sunna Dís Jensdóttir formaður, Ragnheiður Gestsdóttir og Arngrímur Vídalín. Verðlaunaféð nemur 350.000 króna í hverjum flokki.

Í flokki frumsamins efnis komu verðlaunin í hlut Arndísar Þórarinsdóttur fyrir skáldsöguna Kollhnís. Arndís hlaut einnig Íslensku bókmenntaverðlaunin og Fjöruverðlaunin fyrir sömu bók. Í umsögn dómnefndar segir:

 

„Af eftirtektarverðri næmni, mannskilningi og ritfærni fjallar Arndís Þórarinsdóttir í bók sinni Kollhnís um brostnar vonir og væntingar, snúin fjölskyldutengsl, bróðurást og einhverfu. Bókin er í senn fyndin og falleg, hjartanístandi og raunsönn. Hún heldur lesanda frá upphafi og ætti að höfða til breiðs aldurshóps lesenda.“

 

 

 

 

Í flokki myndlýsinga varð hlutskörpust Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir fyrir Héragerði, ævintýri um súkkulaði og kátínu, en áður hafði bókin hlotið tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Umsögn dómnefndar er á þennan veg:

 

„Myndhöfundareinkenni Lóu Hlínar eru mjög greinileg í bókinni Héragerði, en um leið er líka auðséð að bókin er ætluð eldri lesendum en hefðbundnar myndabækur. Ekki bara vegna þess að textinn er lengri og þyngri, ef hægt er að nota það orð um svo sprellfjörugan texta, heldur eru sjónrænir þættir eins og litur á síðum og letri markvisst notaðir til að styrkja upplifunina og auðga lesturinn. Mikilvægt er að lesendur fái að upplifa að bók getur verið bæði fallegur og spennandi hlutur í sjálfu sér, jafnvel boðið upp á óvænta upplifun eins og litla bók í leynivasa! Það er skemmtilegt, og ákaflega mikilvægt, að nú skuli sífellt fjölga myndlýstum bókum fyrir lesendur sem komnir eru yfir hefðbundinn myndabókaaldur og gott að sjá myndræna útfærslu sem höfðar til þeirra notaða af svo mikilli leikni, og svo mikilli gleði.“

 

Í flokki þýðinga hlaut Baldvin Ottó Guðjónsson verðlaun fyrir þýðingu sína á bókinni Einu sinni var mörgæs eftir Madga Brol. Í umsögn dómnefndar segir:

 

„Í Einu sinni var mörgæs nær Magda Brol að fanga þá staðreynd að skáldskapurinn flytur fjöll, og jafnvel mörgæsir líka. Lesendum er boðið í ævintýraför með Magna Mörgæs sem einn daginn rekst á stóran, rauðan, blaktandi-flaktandi hlut sem reynist vera bók. Fjör, fyndni og forvitni ráða för í verkinu og vinnur Baldvin Ottó Guðjónsson þýðinguna skemmtilega af hendi og tekst vel að koma til skila vandræðagangi og fróðleiksfýsn mörgæsanna. Boðskapur textans er slíkur að hann vekur upp hlýju í hjarta bókaunnenda þvert á aldur.“

 

Skáld.is óskar öllum verðlaunahöfum hjartanlega til hamingju.

 

Tengt efni