SPENNANDI PALLBORÐ Á BÓKMENNTAHÁTÍÐ Í DAG
Í kvöld eru þrír viðburðir á Bókmenntahátíð í Reykjavík, sem fara fram í IÐNÓ, og margir hafa vafalaust áhuga á að sækja.
Klukkan 19.00 ræðir Maríanna Clara Lútersdóttir við höfundana Evu Björg Ægisdóttur, Alexander McCall Smith and Hannah Kent, sem eiga það sameiginlegt að hafa öll skrifað um glæpi, þótt á ólíkan hátt sé. Í kynningu Bókmenntahátíðar segir:
Eva Björg Ægisdóttir hefur á síðustu árum skotist hratt upp á stjörnuhiminn glæpasagna. Hannah Kent er þekktust fyrir bók sína Náðarstund, sem fjallar um síðustu aftökuna á Íslandi. Alexander McCall Smith ættu allir glæpasagnaunnendur að þekkja, en bókaflokkar hans, meðal annars um Kvenspæjarastofu nr. 1, er löngu orðin nútímaklassík.
Klukkan 20.00 hefst samtal undir stjórn Fríðu Ísberg þar sem hún ræðir við argentínska höfundinn Marinu Enriquez, hinn spænska Alejandro Palomas og okkar alíslenska Braga Ólafsson. Yfirskrift pallborðsins er: „Af hverju viljum við lesa það sem lætur okkur líða illa? Hvaða hlutverki gegna óþægindi lesanda gagnvart skáldverki?“ Í lýsingu Bókmenntahátíðar segir:
Rithöfundinn og tónlistarmanninn Braga Ólafsson þekkja flestir Íslendingar, en Bragi er einkar lunkinn við að skapa persónum sínum undarlegar og óþægilegar aðstæður. Í verkum Alejandro Palomas má oft lesa um flókin samskipti innan fjölskyldna sem lesendur geta upplifað bæði sem óþægileg eða brosleg. Marina Enriquez er óhrædd við að fjalla um myrkustu afkima mannssálarinnar í verkum sínum sem geta þannig verkað á lesandann sem óþægileg og truflandi lesning en samtímis er hún svo góður sögumaður að lesendur geta ekki annað en heillast af verkum hennar.
Marina Enriquez er kynnt á eftirfarandi hátt:
Hin margverðlaunaða Mariana Enriquez er ein af mest spennandi röddunum í rómönsk-amerískum bókmenntum nú um stundir. Hún gaf út sína fyrstu skáldsögu, Bajar Es Lo Peor, sem unglingur og fylgdi henni eftir níu árum síðar með skáldsögunni Cómo Desaparecer og þar á eftir smásagnasafninu Los Peligros De Fumar En La Cama, sem hlaut tilnefningar til alþjóðlegu Booker verðlaunanna og Kirkus verðlaunanna. Verk hennar hafa verið birt í fjölmörgum safn- og tímaritum, The New Yorker, Freeman’s, McSweeney’s og Granta, svo fátt eitt sé nefnt. Safn hennar Alguien Camina Sobre Tu Tumba fjallar um kirkjugarða víðsvegar um heiminn. Hún sló í gegn með safninu Allt sem við misstum í eldinum, sem rauk upp metsölulista á Spáni og í Argentínu og var þýdd yfir á 30 tungumál, meðal annars á íslensku af Jóni Halli Stefánssyni. Bókin kom út hjá Angústúru árið 2022.
Klukkan 21.00 hefst svo samtal Björns Halldórssonar við Jenny Colgan, Benný Sif Ísleifsdóttur and Pedro Gunnlaug Garcia. Í kynningu Bókmenntahátíðar segir:
Hér fjalla þrír höfundar um verk sín: Jenny Colgan heillar lesendur með leiftrandi frásagnargleði úr skosku hálöndunum. Sögur Bennýjar Sifjar um sterkar konur frá fyrri tíð láta engan ósnortinn og Pedro Gunnlaugur Garcia hefur með mikilli hugmyndaauðgi skapað heillandi sagnaheima sem höfða til breiðs hóps lesenda. Hver er galdurinn á bak við þessa leiftrandi frásagnargleði og hvað þarf til að „húkka“ lesandann eins og þessum höfundum tekst að gera?
Benný Sif þarf ekki að kynna fyrir íslenskum lesendum, bækur hennar eru gríðarlega vinsælar, ekki síst bækurnar tvær um Gratíönu, Hansdætur og Gratíana. Einnig hafa bækur Jenny Colgan slegið í gegn á Íslandi. Í kynningu Bókmenntahátíðar segir um hana:
Jenny Colgan er höfundur fjölmargra metsölubóka og hefur unnið til ýmissa verðlauna fyrir skrif sín, þar á meðal Melissa Nathan verðlaunin fyrir rómantíska gamanmynd, verðlaun RNA fyrir rómantíska skáldsögu ársins og verðlaunin fyrir rómantíska gamansögu RNA. Bækur hennar hafa komið út á fimmtán tungumálum og selst í meira en átta milljónum eintaka um allan heim. Árið 2015 var Jenny Colgan tekin inn í Frægðarhöll ástarsögunnar.
Á íslensku hafa komið út tólf bækur eftir Colgan í þremur bókaflokkum; um Litla Bakaríið við Strandgötu, um hina ímynduðu Mure-eyju og Sumareldhús Flóru, og að lokum flokknum um Litlu bókabúðirnar í skosku hálöndunum og Edinborg. Bækurnar hafa verið þýddar af Ingunni Snædal, Helgu Soffíu Einarsdóttur og Ernu Erlingsdóttur og eru gefnar út af forlaginu Angústúru. Jenny er gift, á þrjú börn og býr í Skotlandi.
Ýmsir fleiri viðburðir eru á dagskrá Bókmenntahátíðar í Reykjavík og við minnum á að einnig má horfa á viðburðina í streymi.