LAG VIÐ LJÓÐ GUÐNÝJAR FRÁ KLÖMBRUM
María Magnúsdóttir tónskáld ritar á fb-síðu sína um skáldkonu sem hlaut þung örlög:
"Guðný Jónsdóttir frá Klömbrum var ein merkasta skáldkona okkar Íslendinga. Guðný var fyrst íslenskra kvenna til að fá veraldlegt ljóð birt eftir sig á prenti, það var ljóðið Endurminningin er svo glögg sem birtist fyrst í Fjölni árið 1837, einu ári eftir andlát hennar. Ljóð hennar komu fyrst út í Guðnýjarkveri sem gefið var út 1951, í útgáfu Helgu Kristjánsdóttur. Mörg ljóða Guðnýjar höfðu þá glatast og sum voru viljandi eyðilögð. Hún var orðin þekkt fyrir skáldskap sinn um þrítugt, en eiginmaður hennar unni því ekki að hún væri betri penni en hann, presturinn. Hún missti öll fjögur börn sín, tvö létust en hin voru send burt í fóstur svo hún gæti sinnt heyskap. Hún lést úr sorg."
Nú á fimmtudaginn 27. apríl kl 20 mun Kvennakórinn Katla flytja Guðnýjarljóð við lag Maríu í Seltjarnarneskirkju (miðasala á tix.is).
Í dag birtist grein Magneu Þuríðar Ingvarsdóttur um Guðnýju, silkiklút hennar og læsi kvenna og minnt er á grein Helgu Kress um skáldkonuna, Í gegnum orðahjúpinn.