SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir17. maí 2023

Á TÍMUM LEIÐTOGAFUNDA GETUR ÁSTIN BLÓMSTRAÐ...

 

Síðastliðið haust kom út skáldsaga Steinunnar Ásmundsdóttur, Ástarsaga, sem gerist á þeim dögum þegar stór leiðtogafundur var haldinn í Reykjavík árið 1986. Þá voru það herramennirnir Reagan og Gorbatsjev sem funduðu en stemningin var kannski ekki ólík því sem landsmenn, en þó einkum Reykvíkingar, upplifa núna í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins í Hörpu.

Í ritdómi Jónu Guðbjargar Torfadóttur um skáldsöguna segir meðal annars:

 

Fyrir þá lesendur sem muna þennan tíma er lesningin algjör nostalgía og fyrir yngri lesendur afar upplýsandi um tíðarandann sem þá var og til marks um þau miklu stakkaskipti sem samfélagið hefur tekið, á ekki lengri tíma. Þegar þarna er komið sögu er notast við skífusíma og sendibréf í samskiptum fólks og Stöð 2 er rétt nýfarin í loftið.

Það er mikið tilstand í kringum Höfða fyrir fundinn. Hús í kring eru rýmd og heill her vopnaðra öryggisvarða umkringir þjóðhöfðingjana. Þetta er um margt spaugilegt ástand líkt og kemur fram í orðum einnar persónunnar: „Svo geymir karlfauskurinn hann Reagan alltaf tvo lífverði í skottinu á skothelda forsetabílnum þegar hann er á ferðinni um borgina!“ (bls. 85) Þá lendir einn miðaldra lögregluvarðstjóri í Fossvoginum, ættuðum frá Patreksfirði, í því að vera nánast tvífari Ronalds Reagan í útliti og getur hvergi um frjálst höfuð strokið því að allir vilja ræða við hann um mögulegt skagfirskt ætterni bandaríska forsetans (bls. 94).

 

Eins og bókartitilinn bendir á, er skáldsaga Steinunnar þó fyrst og fremst ástarsaga og segir frá frönskum blaðaljósmyndara og Reykjavíkurstúlku sem kynnast í aðdraganda fundarins í Höfða. Í hugleiðingu um tilurð bókarinnar segir Steinunn að hún hafi viljað:

 

Gefa innlit í líf ungra manneskja á því geggjaða ári 1986 í Reykjavík, þegar alþjóðlegir straumar urðu sem flaumur um hina steingeldu smáborg og líkt og í spéspegli mátti skoða snarpar andstæður hvarvetna. Borgin og allt landið fóru á hvolf með ofsahraða, handtök urðu óhemju snör og allir vildu standa fremst og fá að snerta þessa augnabliksfrægð.

Við sem vorum ungt fólk á þessum tíma fórum ekki varhluta af þessari bylgju sem reið yfir og enginn var ósnortinn eftir. Allt í einu fengum við gleggri sýn langt út fyrir landsteina, út í ystu kima, út fyrir okkur sjálf. Heimurinn stækkaði til allra muna og veruleiki manns sjálfs minnkaði kannski sem því nam einnig. Svo ríður ástin, sjálft lífsaflið, auðvitað ekki við einteyming og fór á stökk þarna eins og annars staðar, í þessum gerjunarpotti eftirvæntingar og heimsendaskelfingar. Og svo fór sem fór. Að því er virtist rýr afrakstur leiðtogafundarins olli fyrst um sinn gífurlegum vonbrigðum á heimsvísu en þegar frá leið mátti sjá markverð áhrif hans á framgang veraldarsögunnar.

 

 

 

Ástarsaga er áttunda bók Steinunnar Ásmundsdóttur en hún hefur sent frá sér ljóðabækur og sannsöguna Manneskjusögu (2018) sem vakti verðskuldaða athygli enda gríðarlega áhrifarík frásögn af óblíðri lífsreynslu og vægast sagt erfiðu ævihlaupi aðalpersónunnar.

 

Steinunn gaf Ástarsögu út sem hljóðbók og rafbók síðastliðið haust en verkið er nú að koma út í kiljuformi og ætti að vera komin í bókabúðir og á bókasöfn innan skamms. Þeir sem kjósa hljóðbækur geta kíkt á heimasíðu Steinunnar, yrkir.is þar sem bókin er til sölu.

 

 

 

Tengt efni