ÁHUGAVERÐUR ÚTVARPSÞÁTTUR: GÓÐA FERÐ INN Í GÖMUL SÁR
Í dag kl. 16:05 er á dagskrá rásar 1 á RUV þátturinn Góða ferð inn í gömul sár sem byggður er á samnefndri leiksýningu sem flutt var í Borgarleikhúsinu fyrr á þessu ári. Í þættinum er rætt við fólk sem upplifði HIV faraldurinn undir lok liðinnar aldar. Umsjón með þættinum hefur Eva Rún Sorradóttir og viðmælendur eru Ingi Þór Jónsson, Böðvar Björnsson, Hildur Helgadóttir, Sigrún Sigurgeirsdóttir, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir.
Upplifunarverkið Góða ferð inn í gömul sár er afrakstur af vinnu Evu Rúnar þegar hún var ráðin sem annað af leikskáldum Borgarleikhússins á síðasta leikári. Í verkinu kafar Eva Rún í HIV faraldurinn með viðtölum og heimildasöfnun og útkoman var ljóðrænt og magnað ferðalag sem hlaut mjög góða dóma.
Eva Rún, sem fædd er 1982, hefur átt mjög farsælan feril sem skáld, rithöfundur og sviðslistakona. Auk leikverka hefur hún sent frá sér þrjár ljóðabækur og eitt prósaverk sem mætti lýsa sem nokkurs konar sagnasveig. Fyrir ljóðabókina Fræ sem frjóvga myrkið hlaut Eva Rún Maístjörnuna (2019).
Í skáldskap sínum fjallar Eva Rún gjarnan um gamlan sársauka og gerir upp við hann í skrifunum. Í prósaverkinu Óskilamunum (2021) segir á einum stað:
Sársauki í óskilum hverfur bara sífellt lengra inn í þig, grasserer þar og rís svo upp á óvæntum augnablikum. Verkefnið þitt er að sjá hann. Taka hann inn. Heilsa honum: Halló, þú gamli sársauki. Leyfa honum að hneggja soldið, sýna sig, montinn og rismikinn eins og hvítur hestur og þjóta svo út í eilífðina (17).
Skáld.is mælir með útvarpsþættinum Góða ferð inn í gömul sár og finnst vel við hæfi að hann sé á dagskrá á uppstigningadegi.