SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir28. september 2023

SKÁLDKONA DAGSINS - Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Skáldkona dagsins er Sigurlín Bjarney Gísladóttir. Hún er fædd árið 1975 og er með meistaragráðu í ritlist og íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands. Auk ritstarfa sinnir hún íslenskukennslu í framhaldsskóla.

Fyrsta bók Sigurlínar Bjarneyjar, Fjallvegir í Reykjavík, kom út árið 2007 og hefur að geyma prósaljóð. Síðan hefur hún sent frá sér fleiri ljóðabækur, örsagna- og smásagnasafn og nóvellur.

Sigurlín Bjarney hefur tvisvar sinnum verið tilnefnd til ljóðabókaverðlaunanna Maístjörnunnar, fyrir bækurnar Tungusól og nokkrir dagar í maí (2016) og Undrarýmið (2019)

Í fyrra sendi Sigurlín Bjarney frá sér nóvelluna Sólrún: Sögu um ferðalag (2022) og er hún væntanleg fljótlgea á Storytel  í lestri Kristbjargar Kjeld. Hér á vefnum má lesa ritdóm um nóvelluna og viðtal við skáldkonuna um bókina. Hér má síðan horfa á skáldkonuna segja frá bókinni.

Í nýja bókmenntaþættinum á RÚV, Bara bækur, var Sigurlín Bjarney sótt heim og skoðað var í bókahillurnar hjá henni. Hlýða má á þáttinn hér.

 

Eftirfarandi ljóð er úr ljóðabókinni Undrarýminu:

 

Bleiktunga, blóðtunga

Allt sem ég hef sagt
hingað til
safnast saman á tungu minni
orðin hópa sig saman
samtengingar í miðjunni
forsetningar til hliðar
lýsingarorðin fremst
nafnorðin aftast
sagnorðin út og suður
alls staðar

Hún brotnar
oft á dag
klofnar
en grær
strax aftur

Orðin sem ég gat ekki sagt
hefði betur sagt
brjóta sér leið
út um kokið
taka stökkið af tungubroddi
og segja bara eitt:
Fyrirgefðu

 

Tengt efni