NÝ LJÓÐABÓK STEINUNNAR ÁSMUNDSDÓTTUR
Steinunn Ásmundsdóttir hefur sent frá sér nýja ljóðabók sem ber titilinn Fuglamjólk.
Bókaútgáfan Dimma gefur bókina út og í kynningu útgáfunnar segir:
Í sjöundu ljóðabók sinni heldur Steinunn Ásmundsdóttir uppteknum hætti og yrkir af næmleika og skilningi um líf og tíma, tengsl við náttúruna, ójöfnuð og firringu, en fyrst og fremst um manneskjuna sjálfa í flóknum vefnaði tilverunnar.
Á heimasíðu Steinunnar, Yrkir.is, má lesa:
Um nafn bókarinnar er það að segja að þótt orðið fuglamjólk virðist framandi þá framleiða dúfur og flamingóar mjólk fyrir sitt ungviði. Nafnið kom þó til mín úr íslenskri þýðingu bókarinnar Tsjernobyl-bæninni: „Frá tímum Forn-Grikkja hefur orðið fuglamjólk verið notað yfir sjaldgæfar krásir af ýmsu tagi.“ (Tsjernobyl-bænin, Framtíðarannáll, höf. Svetlana Aleksíevítsj, íslensk þýð. Gunnar Þorri Pétursson.)
Í Fuglamjólk er meðal annars að finna eftirfarandi ljóð:
Glataða þjóð
landið mitt harðbýla og fagra
ævinlega olnbogabarn
sem morknar innan frá
eftirbátur þjóða
í lýðræði og landstjórn
réttarfari og framsýni
heilbrigðiskerfi á heljarþröm
menntakerfi á vonarvöl
sinnum ekki okkar minnstu bræðrum
heldur mokum með hreistraðri silfurskeið
auði í fárra munna
fólk liggur í strætinu
því ekki nokkur telur það sitt
að reisa það við
enginn vill hafa kofa hinna ógæfusömu
í sinni götu
ef maður sér þau ekki eru þau ekki
meint paradís jafnréttis
þar sem jón er ekki sama og séra jón
og kyn skilur milli feigs og ófeigs
stúlkubörn veiðibráð
úldnandi feðraveldis
krónum krýnda þjóð
sem borgar allt margfalt
í gengisins íslensku rúllettu
þrautpíndir launaþrælar
sem aldrei sjá til sólar
lifa hér á rusli og brauðmolum
hollustan aðeins fyrir efnaða
draslið nóg fyrir hina
leyfðir útlendingar
með óleyfilegar prófgráður
fá að þrífa klósettin
hér í allsnægtalandinu
er flóttafólki vísað á bug
til að veslast upp og deyja
fjölskyldur fluttar í nauðung
að næturþeli úr landi
drögum dýr í vinsældadilka
gjörnýtum til blóðs og beina
en þau eru líka lífsins verur
seljum undan okkur landið
ár og almenninga
bjóðum tærleikann fram sem skítsvelg
allt frá möðkuðu mjöli úr norðurvegi
til hermangs herraþjóða
höfum við lifað fátæk í ríkidæmi
þrætubókarlist í skotgröfum þings
borist á heimskunnar banaspjótum
gildur gildari og mjór vísir visnar
morknum innan frá
ójöfnuður eyðir jafnrétti
bæn mín er
um heiðarlegt samtal
virðingu og umhyggju
útdeilingu auðsins
kærleiksríkt réttlæti
jöfnuð fyrir hvern mann
við erum öll börn þessa lands
þegnar þessarar þjóðar
land mitt - mín þjóð!
þú dafnar ekki