SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir18. janúar 2024

VÖLVUR OG VÆRINGJAR. Vilborg heldur fyrirlestur

Laugardaginn 20. janúar heldur Vilborg Davíðsdóttir fyrirlestur sem ber yfirskriftina Völvur og væringjar. Fyrirlesturinn er á vegum Ásatrúarfélagsins og hefst hann klukkan 14 í Hofi félagsins í Öskjuhlíð. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir er fyrirlestrinum verður einnig streymt á facebook-síðu Ásatrúarfélagsins.

 

Í kynningu segir:

 
Í nýrri bók, Landi næturinnar, segir Vilborg Davíðsdóttir frá ævintýralegri ferð völvunnar Þorgerðar Þorsteinsdóttur í Austurveg en það er heitið sem norrænir menn höfðu um siglingaleiðina úr Eystrasalti um ár og fljót Austur-Evrópu á víkingaöld. Vilborg leiðir lesendur þar ekki aðeins um Garðaríki heldur einnig í seiðferð í aðra heima. Hún ræðir í erindinu m.a. mikilvægi völvunnar í norrænni trú og átrúnað á gyðjur. Þá mun hún fjalla um tengslin á milli spuna og fjölkynngi og sýna okkur bæði ullar- og völvustaf.
 
Á bókarkápu segir um skáldsöguna, sem tilnefnd er til Íslensku bókmenntaverðlaunanna: „Þorgerður Þorsteinsdóttir hefur lifað mikinn harm heima á Íslandi og heldur til Noregs þar sem örlögin leiða hana í faðm skinnakaupmannsins Herjólfs Eyvindarsonar. Saman halda þau til Garðaríkis, á fund væringja sem sigla suður Dnépurfljót og yfir Svartahaf með ambáttir og loðfeldi á markað í Miklagarði. Í landi næturinnar bíða þeirra launráð og lífsháski. Á augabragði er Þorgerður orðin ein meðal óvina og kemst að því að stundum kostar það meira hugrekki að lifa en deyja.“
 
 
Stund: Laugardagurinn 20. janúar kl. 14:30
Staður: Hof Ásatrúarfélagsins við Menntasveig 15 (Öskjuhlíð)
Opið hús frá 14 til 16.

 

Tengt efni