SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir27. október 2023

LAND NÆTURINNAR eftir Vilborgu Davíðsdóttur

Um þessar mundir er verið að endurflytja á rás 1 þætti þeirra Ævars Kjartanssonar og Gísla Sigurðssonar sem bera yfirskriftina „Spjall um listrænt framhaldslíf fornbókmennta“. Viðmælendur koma úr hópi rithöfunda, skálda, leikhúsfólks og kvikmyndagerðarmanna enda felst hið listræna framhaldslíf í úrvinnslu skálda og listamanna á íslenskum fornbókmenntum yfir skáldsögur, ljóð, leikverk og kvikmyndir. Í listrænni úrvinnslu á fornum bókmenntum felst yfirleitt einhvers konar endurskoðun og endurtúlkun á efniviðnum, auk þess sem færi gefst til að varpa kastljósinu á persónur og/eða atburði sem áður voru ef til vill í bakgrunni fremur en forgrunni þeirra bókmenntaverka sem unnið er með.

Eitt af því sem höfundar sem vinna með forsagnaarfinn þurfa að gera, vilji þeir að verk sín nái máli, er að kynna sér rannsóknir fræðimanna á efninu og samspil rannsókna og fræðimennsku má til að mynda glögglega sjá í einum gildasta þræðinum af þessu tagi sem er femínísk endurtúlkun. Höfundar á borð við Svövu Jakobsdóttur, Gerði Kristnýju og Hlín Agnarsdóttir hafa hver á sinn hátt varpað nýju ljósi á hlutskipti kvenna í fornum sögum og kvæðum með því að velja sér kvenlegt sjónarhorn. Þá er ónefnd Vilborg Davíðsdóttir en hún einn þeirra rithöfunda sem hefur haslað sér völl á eftirtektarverðan hátt á þessu sviði og um leið markað sér sérstöðu í íslenskum samtímabókmenntum.

Höfundarferill Vilborgar spannar þrjá áratugi en fyrsta skáldsaga hennar, Við Urðarbrunn, kom út 1993 og var það fyrri bindið í Korku sögu þar sem sögð er saga ambáttarinnar Korku Þórólfsdóttur sem uppi er um aldamótin 900, síðara bindið Nornadómur kom út 1994. Næstu þrjár skáldsögur Vilborgar, Eldfórnin, Galdur og Hrafninn, gerast hins vegar á fjórtándu og fimmtándu öld en síðan sneri hún aftur til víkingaaldar með fyrstu bók sinni í þríleiknum um Auði djúpúðgu Ketilsdóttur, Auði, sem kom út 2009. Síðari bækurnar eru Vígroði sem kom út 2012 og Blóðug jörð 2017.

Vilborg hefur sagt frá því að kveikjan að þríleiknum um Auði sé stutt málsgrein úr Laxdæla sögu  sem endar á þeirri fullyrðingu að hún hafi verið var afbragð annarra kvenna.“ Það er hin sterka og sjálfstæða kona sem heillar Vilborgu og í öllum skáldsögum sínum leggur hún áherslu á að segja sögu kvenna. Í ritdómi um fyrstu bókina um Auði djúpúgðu orðaði Sigrún Klara Hannesdóttir það þannig að lýsa mætti bókinni sem Íslendingasögu sem skrifuð er „frá sjónarhóli kvenna“ og Vilborg staðfesti þessa túlkun ritdómarans í blaðaviðtali, þar sem hún segir: „Ég er alltaf að horfa á konur, enda kona sjálf. En sagan sem birtist okkur í fornritum er skrifuð af karlmönnum um karlmenn fyrir karlmenn. Konur eru til hliðar og birtast aðeins til að egna karlmenn eða svíkja þá. Dyggðirnar og skyldurnar eru karlmannlegar, hefnd, vopnaburður. Ég vil hins vegar reyna að ná utan um það líf sem konurnar lifðu.“ Og það tekst Vilborgu á afar sannfærandi hátt enda liggur gríðarlega heimildavinna að baki hinum 800 síðna sagnabálki um fyrstu landsnámskonu Íslands.

Það var forvitnilegt að sjá hvar Vilborg myndi bera niður eftir að hún lauk þríleik sínum um Auði og eflaust gladdi það marga lesendur að hún hélt sig í sömu fjölskyldu því aðalpersóna næstu bókar, Undir Yggdrasil, er sonardóttir Auðar, Þorgerður dóttir Þorsteins rauða. Og í nýju bókinni, Landi næturinnar, heldur Vilborg áfram að spinna sögu Þorgerðar. Líkt og í tilviki Auðar djúpúgðu eru heimildir um Þorgerði ekki miklar en í Laxdælu kemur fram að eftir að hún er orðin ekkja eftir fyrsta eiginmann sinn afræður hún að halda burt frá Íslandi „með fjárhlut sinn“ og er engin ástæða „gefin önnur en sú að hún festir ekki yndi á Íslandi“. Þorgerður siglir frá Dögurðarnesi til Noregs með kaupskipi og í eftirmála sem Vilborg skrifar að fyrri bókinni bendir hún á varla finnast „nokkur dæmi þess í sagnabókmenntum að einhleyp kona ferðist á milli landa án fylgdar náins ættingja af karlkyni, ef frá er talin Auður djúpúðga.“ Þorgerði kippir greinilega í kynið.

 

Þegar Auður hafði sett saman bú í Hvammi í Dölum gaf hún Þorgerði einum skipverja sinna, Kolli Veðrar-Grímssyni og bjuggu þau í Laxárdal fram að dauða hans. Sonur þeirra Höskuldur tók þá við búinu en Þorgerður sigldi með kaupskipinu til Noregs þar sem hún ætlaði sér að staðfestast. Í Noregi taka „margir göfgir frændur“ vel á móti Þorgerði og hún hefur ekki verið lengi í þar í landi þegar maður að nafni Herjólfur Eyvindarson fær hennar og „takast með þeim góðar ástir“. Laxdæla segir Herjólf auðugan og manna best vígan og hinn skörulegasta að yfirbragði. Þorgerður og Herjólfur eignast soninn Hrút en börn þeirra verða ekki fleiri og eftir dauða Herjólfs fer Þorgerður á endanum aftur heim til Íslands.

Þetta eru þau atriði sem Vilborg notar sem kveikju að bókunum tveimur um Þorgerði en að auki sækir hún ýmis atriði til sögubyggingar sinnar til Landnámu, ýmissa Íslendinga sagna, auk þess sem hún nýtir sér fornkvæði, þjóðsögur og sagnir. Í Landi næturinnar koma ýmsar fleiri heimildir Vilborgu að gagni og gerir hún grein fyrir þeim í fróðlegum eftirmála sögunnar þar sem hún leggur áherslu á að megnið af þeirri sögu sem sögð er í bókinni sé sinn eigin uppspuni en þeir atburðir sem lýst er eigi sér hins vegar ýmsa stoð í heimildum um siglingar og kaupskap norrænna manna í Austurvegi á víkingaöld og fornleifum sem þar hafa komið úr jörðu. – og nýtir hún sér þar rannsóknir ýmissa fræðimanna.

Fyrri bókinni um Þorgerði, Undir Yggdrasil, mætti kannski lýsa sem harmsögu. Þorgerður er í óhamingjusömu hjónabandi enda ræður hún engu um giftingu sína og er maður hennar mikið eldri en hún og sýnir henni lítinn áhuga. Harmsagan snýst um barnmissi. Í heimildum er getið um dóttur Þorgerðar og Kolls, Þorkötlu, en hvergi er getið um afkomendur hennar eða fullorðinslíf og Vilborg tekur sér það skáldaleyfi að álykta að hún hafi dáið á barnsaldri. Sögufléttan snýst að miklu leyti um samband Þorgerðar við barnunga dóttur sína og atburði sem leiða til dauða hennar. Þótt harmar komi líka við sögu í Landi næturinnar fer betur á að lýsa þeirri bók sem spennusögu. Allt frá upphafi er frásögnin þrungin spennu og Vilborgu tekst mjög vel að flétta frásögnina þannig að lesandinn er óþreyjufullur að vita hvernig sögunni vindur fram.

Þótt Þorgerður líkist ömmu sinni Auði í því að vera sjálfstæð, hugrökk og úrræðagóð er eitt sem skilur í milli; ólíkt Auði, sem snemma tók kristna trú, hallast Þorgerður að heiðnum sið, er heilluð af völvum og seið og vill læra þá list. Henni verður að ósk sinni og lærimóðir hennar er Finna, tengdamóðir hennar í Jamtalandi, móðir síðari eiginmannsins, Herjólfs. Ein magnaðasta lýsingin í fyrri bókinni er á því þegar Þorgerður fremur sinn fyrsta seið og ferðast til undirheima þar sem hún nemur margt um atburði í fortíð og framtíð. Vilborg heldur áfram með þennan þráð í Landi næturinnar og í upphafskafla verksins hittum við Þorgerði fyrir þar sem hún er að rista galdrarúnir á reynigrein sem á að verða henni „fararskjóti á milli heima, dísarstafur til seiðferðar!“ (bls. 7-8). Í þessum magnaða upphafskafla er ljóst að Þorgerður er í hættu stödd, hún þarf að bjarga lífi sínu – og ófædds barns sem hún ber undir belti. Þarna hefst spennuþráðurinn sem Vilborgu tekst að halda lifandi í gegnum alla frásögnina en ekki fáum við að vita í hverju hættan er fólgin því eftir þessa lýsingu er horfið aftur í tíma.

Í fyrsta hluta bókarinnar fylgjumst við með þeim Þorgerði og Herjólfi þar sem þau koma með kaupskip til Aldeigju í Garðaríki sem er miðstöð verslunar og viðskipta. Í Aldeigju ræður ríkjum Helgi hersir og við komuna eru þau vöruð við prettum hans í viðskiptum. Það er ungur kirjáli sem varar þau við og býðst til að leiðsegja þeim sjálfur til Hólmgarðs þar sem þau geta fengið betra verð fyrir varning sinn, svarðreipi, loðskinn og rostungstennur. Áður en þau taka boði hans vill Herjólfur fara á fund hersisins til að heyra skilmála hans og fylgir Þorgerður honum á fundinn og í gegnum augu hennar fáum við lýsingu á borginni sem iðar af mannlífi. Lýst er fólki sem sinnir alls kyns störfum og hinni megnu ólykt sem liggur yfir öllu af mönnum og dýrum.

Í lýsingunni á borginni er dregið fram ömurlegt hlutskipti kvenna og þær hættur sem þeim getur stafað af því að borgin er full af karlmönnum. Herjólfur varar Þorgerði við og bendir á að „ógefnar konur eru alla jafna látnar vera innandyra í Aldeigju, þeim sjálfum til verndar,“ og utandyra verði þær að hylja höfuð sitt því „Berhöfðað kvenfólk á almannafæri í byggðinni vekur athygli – og ekki af góðu“  því: „Menn ætla sér frjálst að hafa við slíkar konur hvílubrögð, í skiptum fyrir gjald“. Um slíkt viðskipti hefur Þorgerður aldrei heyrt áður og er furðu slegin. Á göngu sinni um borgina veitir hún því athygli að konurnar „mæta aldrei tilliti hennar: þær ganga álútar og horfa ekki annað en niður fyrir fætur sér“ (27).

Ömurlegt hlutskipti kvenna, sér í lagi ambátta sem koma mikið við sögu Þorgerðar, er sem þungur bassatónn í bakgrunni allrar frásagnarinnar í Landi næturinnar og víða er það einnig dregið fram í forgrunn enda á Þorgerður, áður en yfir lýkur eftir að reyna það hlutskipti á eigin líkama. Hér verður ekki farið nánar ofan í þann þráð sögunnar svo ekki sé spillt þeirri spennu sem væntanlegir lesendur bókarinnar eiga í vændum, heldur bara ítrekað að ill meðferð á konum, sem hnepptar eru í ánauð, sviptar öllum sjálfsákvörðunarrétti, seldar og misnotaðar, er gegnum gangandi stef í Landi næturinnar og vekur að sjálfsögðu hugrenningartengsl við mansal og ofbeldi gegn konum sem enn berast fréttir af á okkar dögum.

Eftir fundinn með hersinum ákveða Herjólfur og Þorgerður að taka tilboði kirjálans um fylgd til Hólmgarðs þar sem vænta þess að fá betra tilboð fyrir vörur sínar. Þau þurfa að sigla upp fljótið Volkhov, það er erfið siglingaleið sem liggur um flúðir og fossa og Þorgerði dreymir illa nóttina áður en haldið er af stað, enda reynist um feigðarför að ræða.

Í öðrum hluta sögunnar koma þau til Hólmgarðs þar sem ráða ríkjum hjónin Hrærekur og Járngerður, sem eru einkar litríkir karakterar og hættulegir. Sérstaklega á það við Járngerði sem líkt er við skæða skógarvætt úr slafneskri þjóðtrú: Baba Jaga, sem er illvíg kerlingarnorn sem ræður dauða jafnt dýra og manna sem hætta sér inn á yfirráðasvæði hennar. Járngerður er með snjóhvítt hár eftir áfall, hún er barnlaus, hefur fætt andvana börn. Járngerður er einnig kraftmikil völva sem engu eirir, sérstaklega ekki ambáttum sínum en ömurlegt hlutskipti þeirra kemur hér mikið við sögu. Fósturlátin er gjaldið sem Járngerður verður að greiða fyrir skyggnigáfu sína og galdramátt.

Í Hólmgarði kemur í ljós að fylgdarmaður þeirra, kirjálinn, hefur illt í hyggju og bruggar hann Herjólfi banaráð í samvinnu við Hrærek og Járngerði og Þorgerður hafnar í þeirri lífshættu sem fyrsti kafli bókarinnar vísaði til.

Hér verður söguþráður bókarinnar ekki rakinn frekar en aðeins ítrekað að Vilborg Davíðsdóttir fléttar frásögn sína af mikilli fagmennsku og kunnáttu og spinnur plott og hliðarplott af mikilli list og tekst oftar en ekki að koma lesandanum á óvart með óvæntingum vendingum.

Þó má nefna að stærsti hluti frásagnarinnar lýsir ferðalagi Þorgerðar, sem fyrst ferðast um austurveg, upp til Hólmsgarðs hins forna höfuðstaðar Garðaríkis en það er „gamalt norrænt nafn á þeim hluta Rússlands og Úkraínu, sem á víkingaöld var að hluta numinn af norrænum mönnum, einkum Svíum og stjórnað af þeim um tíma. Þeir lögðu einkum undir sig svæði í grennd við stærstu árnar og fljótin, allt suður að Kænugarði, og nýttu árnar sem siglingaleiðir suður til Svartahafs og jafnvel Kaspíahafs. …  Þetta er það sögusvið sem skáldsagan hrærist á og síðar siglir Þorgerður á þrælakaupsskipi allt niður til Miklagarðs, til þeirrar borgar sem í dag heitir Istanbul. Á þessari löngu og hættulegu siglingaleið ber margt fyrir augu og ljóst að Vilborg Davíðsdóttir hefur unnið sína heimildavinnu af vandvirkni eins og hún á venju til.

En hvað er það Land næturinnar sem titill bókarinnar vísar til? Á blaðsíðu 193 má lesa eftirfarandi:

 

Ambáttirnar kalla Austurveginn land næturinnar og á vel við, að minnsta kosti eftir að vetraði; sól rís seint og sótsvart myrkur sígur á um miðdegi, snögglega eins og hendi sé veifað. Þó hafði ein þeirra, stúlka frá Kúrlandi, fyrir því að útskýra heitið fyrir Þorgerði á bjagaðri norrænu með öðru móti. Í öndverðu tímans, þegar æsir höfðu lyft jörðu úr sæ áttu þeir vist í landi óravegu til austurs héðan, í ægifagurri miðju veraldar sem heitir eftir þeim Asía hvar eilíft er sumar, og ákváðu að þar skyldi sól ávallt rísa að morgni. Hestar upphimins skyldu draga þaðan í vagni Nótt og son hennar Dag til vesturs þar sem sólin skyldi hníga til viðar hvert kvöld. Hér væri því land næturinnar; Evrópa á tungu goða og jötna.

 

Það má halda því fram að í sögulegum skáldsögum, líkt og þeim sem Vilborg Davíðsdóttir skrifar, séu settar fram sagnfræðilegar tilgátur í skáldskaparformi og á það svo sannarlega við í tilviki Vilborgar. Í bókum sínum um Auði djúpúðgu og Þorgerði Þorsteinsdóttur setur Vilborg í raun fram tilgátur um fjölbreyttari og flóknari landnámssögu Íslands en við finnum fyrir í sagnfræðiritum. Þær tilgátur hafa svo fengið stuðning í nýlegum rannsóknum, meðal annars á sviði bókmenntafræði, sagnfræði, fornleifafræði og erfðafræði. Sögulegar skáldsögur Vilborgar Davíðsdóttur eru því fyrirtaksdæmi um listræna úrvinnslu á fornum arfi sem byggir á fjölbreytilegum heimildum og rannsóknum fræðimanna. Lesandinn fær mikið fyrir sinn snúð því bækurnar eru afbragðs vel skrifaðar með viðburðaríkri og spennandi sögufléttu. Og eftir lestur skáldsagnanna finnst lesanda að hann sé allnokkuð fróðari en áður um líf fólks sem lifði á víkingaöld.

Ritdómurinn var fluttur sem pistill í þættinum Víðsjá á rás 1 á RUV 24. október 2023.

Tengt efni