Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙10. júní 2024
HOW TO LOOK THE WAY YOU FEEL - eftir Önnu Valdísi Kro
Ljóð dagsins er eftir Önnu Valdísi Kro en það birtist í fyrsta hefti Ós pressunnar, sem kom út í október árið 2016.
Anna Valdís er einn af stofnendum tímaritsins en hún fæddist á Akureyri árið 1978 og á íslenska móður og norskan föður. Hún starfar sem leikskólakennari og rithöfundur og hefur skrifað texta fyrir bæði börn og fullorðna.
How to look the way you feel
Ég kem inn á biðstofuna
tilkynni komu mína
,,fáðu þér sæti, hann mun kalla á þig"
sest í græna sófann
finn líkama minn sökkva
augnlokin þyngjast
hjartað slá
,,gjörðu svo vel" segir sterk
og dimmrödduð karlmannsrödd
ég stend á fætur
dreg djúpt andann
fylgi honum eftir sem í leiðslu
inn í VÖLUNDARHÚSIÐ
litlaus skrifstofan heltekur
hvítan líkama minn
,,og hvernig viltu svo líta út?"
við horfumst í augu eitt augnablik
og mér líður eins og hann horfi í gegnum mig
inn í mig
,,ég vil vera hamingjusöm"
ég afklæðist sál og líkama
kem fram fyrir auglit dómarans
SPEGILSINS
hann hefur sverðið á loft
ristir svartar línur á hvítan líkamann:
hærri kinnbein, fyllri varir, smærra nef, strekktari húð, þrýstnari brjóst, mjórra mitti,
þrengri sköp, hvítari húð, sperrtari rasskinnar, þéttari augnhár, stæltari vöðva, grennri
ökkla ...
eftir hamskiptin
eru EVUKLÆÐIN gjörbreytt
sú sem var er ekki lengur
brosið meitlað í stein
húðin spegilslétt
geirvörtur hæstu tindar
mittið lækjarspræna
ég hamingjusöm?