SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir20. júní 2024

FJALLKONAN FRÍÐ, FRJÁLS OG HNARREIST

Fjallkonan fríð er eins konar þjóðartákngervingur Íslands. Hún stígur á stokk og ávarpar fjöldann ár hvert á þjóðhátíðardegi Íslendinga en hver er hún þessi fjallkona, hvaðan kemur hugmyndin um hana og hvaða þýðingu hefur hún fyrir land og þjóð? 

Skáld.is mælir með nýja heimildaþættinum á rúv um íslensku fjallkonuna sem frumsýndur var 17. júní. Sem alltaf les ljóð ávarp), ýmist fornt eða frumsamið, eftir konur og karla.

Fyrsta ljóð skáldkonu sem fjallkona flutti var eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur:

ÁVARP FJALLKONU

Fjallkonan

Í þúsund ár
lá hún falin
í  köldum faðmi fjallsins
fjarri almannaleið
konan unga
sem Seyðfirðingar fundu
uppi á Vestdalsheiði
í fyrra sumar

Hver var hún?
Hvað var hún að vilja
einsömul
skartbúin
inni á Afrétt?

Var hún kannski á flótta
komin úr firði Loðmundar gamla
yfir Afréttarskarð
að leiTa fars utan
frá Seyðisfirði
heim til Suðureyja?

Miklu heldur vísindakona
sem kunni á mörgu skil
þekkti jurtir og steina
safnaði lífgrösum og hjálparrótum
ferðaðist óttalaus
um landið

Aufúsugestur hvar sem hún kom

Læknir
Nærkona
Ljósmóðir

Hnífinn sinn oddhvassa og beitta
notaði hún
til að stinga á meinum
til að skilja á milli
til að grafa upp rætur

II
Við lækinn undir klettinum
ætlaði hún að æja stundarkorn
Hún bar hönd fyrir augu
skyggndist um
gáði að fuglum
þekkti þá flesta
ekki sömu tegundar og heima
heldur sömu fuglarnir
þeir flugu hingað út
í stórum flokkum
á litlu vængjunum sínum
rétt eins og þau
sigldu yfir hafið í samfloti
byrþanin seglin eins og vængir
á víðum útsænum
fuglar og fólk
í óvissuferð
út í bláinn

III
Hér byggðu menn með lögum
gott land og fagurt

Hún brosti við
þegar henni var hugsað til kvennanna
sem áhyggjufullar
tróðu út skjóður sínar
með fræjum og græðlingum
jafnvel mold
allt fannst það hér
þarna niðri á hálsinum
ofan við lönguhlíðina
í lómatjörninni
vex reiðingsgrasið
þráðbeinir blómleggirnir teygja sig
upp úr álftakólfunum
með ilmandi klösum
af fimmgeislastjörnum

Hún bjó sig til að halda áfram
þá kvað við brestur
fjallið gliðnaði sundur
og umlukti hana
sterkum örmum

IV
Þúsund ár sem dagur

Fjallið hefur opnað sig

Frjáls og hnarreist
stendur hún
undir Sandhólatindi
fjallkonan okkar

 

Tengt efni