SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir13. júní 2024

FJALLKONA Í FEÐRAVELDI

Í anddyri Borgarbókasafnsins í Grófinni liggur stafli af bókinni Fjallkonan - ,,Þú ert móðir vor kær" og eru gestir og gangandi hvattir til að grípa með sér eintak. Bókin rataði í fréttir fyrir ekki svo löngu síðan þar sem það þurfti að farga þrjátíu þúsund eintökum sem stóð til að gefa þjóðinni þar sem skipta þurfti út inngangsorðum Katrínar Jakobsdóttur fyrir formála núverandi forsætisráðherra.

Bókin er gefin út í tilefni af áttatíu ára afmæli lýðveldisins af Stjórnarráði Íslands og er laglegasta bók sem geymir valdar greinar um íslensku fjallkonuna, með enskum og pólskum samantektum, og fjölda fallegra mynda. Þarna á meðal er umfjöllun Silju Aðalsteinsdóttur sem ber yfirskriftina „Fjallkonuljóð í áttatíu ár" og er gaman að glugga í hana.

Silja segir að frá árinu 1924 hafi það verið það fastur liður á Íslendingadeginum í Vesturheimi að fjallkona héldi ávarp. Sá siður hafi þó ekki komist á hér á landi fyrr en árið 1939 en þá flutti fjallkonan opinbert ávarp á Vestmannadeginum, 2. júlí, á Þingvöllum. Hugmyndin hafi verið sú að halda þennan dag Íslendinga vestanhafs og austan hátíðlegan ár hvert en hann hafi þó aðeins verið endurtekinn árið eftir og þá án þátttöku fjallkonunnar.  

Þegar fjallkona steig næst á stokk var það á lýðveldishátíðinni 17. júní árið 1944 á Þingvöllum og stóð þá til að hún flytti eitt af ljóðunum sem bárust í ljóðasamkeppni sem haldin var af tilefni lýðveldisstofnunarinnar. Sá flutningur féll þó niður og trúlega vegna veðurs sem var heldur afleitt þennan dag. 

Líkt og löngu er orðið kunnugt hlutu tvö skáld fyrstu verðlaun í fyrrnefndri ljóðasamkeppni. Annars vegar Hulda (Unnur Benediktsdóttir Bjarklind) og hins vegar Jóhannes (Jónasson) úr Kötlum. Það átti þó þennan hátíðisdag að flytja annað ljóð sem sent var í keppnina, eftir Guðmund Böðvarsson, en það fórst fyrir líkt og áður segir. Silja bendir á að seinna meir hafi fjallkonan flutt ljóð Jóhannesar í tvígang á þjóðhátíðardeginum á Austurvelli, árin 1969 og 1971, en einungis hluta af ljóði Huldu, árið 2016, og þá ekki þann hluta ljóðsins sem er hvað þekktastur.

Það er síðan ekki fyrr en 17. júní árið 1947 sem fjallkonan flytur ávarp í bundnu máli. Það var á Austurvelli og flutti þá Alda Möller leikkona ljóð eftir Tómas Guðmundsson. Tómas var afar vinsælt skáld og eru ljóð eftir hann flutt næstu árin, eða allt til 1951. Þá var sótt í smiðju annarra manna en síður til kvenna þó svo að kona flytji ævinlega ljóðið og gjarnan sé ort í orðastað konu, fjallkonunnar. 

Frá árinu 1947 til 1989 eru ávörpin öll eftir karlmenn og það er ekki fyrr en árið 1990 sem ljóðið er eftir konu. Þá er flutt ljóðið „Ísland" eftir Margréti Jónsdóttur. Síðan líða fjögur ár en þá er flutt ljóðið „Ísland" eftir Huldu (1995). Átta árum síðar er flutt ljóðið „Hvar sem ég verð eftir" Ingibjörgu Haraldsdóttur (2003) og tveimur árum síðar „Fjallkonan" eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur (2005). Árið 2006 er flutt ljóð Steinunnar Sigurðardóttur, „Einu sinni var landið", en síðan eru fimm ár í að „Ávarp fjallkonu" eftir Gerði Kristnýju (2011) er flutt.

Er á líður 21. öldina fjölgar aðeins ljóðunum eftir skáldkonur og flutt eru ljóðin „Íslands æviskeið" eftir Ingunni Snædal (2013), „Skín blessaða frelsi" (Úr „Söngvum helguðum Þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní 1944") eftir Huldu (2016), „Ávarp" eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur, „Ávarp" eftir Lindu Vilhjálmsdóttur (2018), „Ávarp" eftir Þórdísi Gísladóttur (2020) og loks „Ávarp" eftir Brynju Hjálmsdóttur (2022).

Blessunarlega fjölgar konum er nær dregur nútímanum, enda eigum við fjölmargar afar hæfar skáldkonur og -kvár. Það er þó afar sorglegt að sjá þessa hundsun kvenna framan af þar sem ekki einu sinni ljóð Huldu, annars vinningshafans í ljóðasamkeppninni vegna lýðveldisstofnunarinnar, er valið til flutnings fyrr en mörgum áratugum síðar, og þá aðeins hluti ljóðsins, og óþekktari, líkt og áður hefur verið nefnt.    

Það styttist mjög í þjóðhátíðardaginn en þá mun eflaust einhver vel valin kona sveipa sig hlutverki fjallkonunnar og flytja landsmönnum ljóð. Þá færi sannarlega vel á því að heiðra um leið skáldkonuna Huldu og flytja þann hluta af „Söngvum helguðum Þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní 1944" sem flest okkar þekkja, nefnilega „Hver á sér fegra föðurland"

 

Myndin af Aldísi Amah Hamilton er sótt á vef Reykjavíkurborgar. Hún var fjallkonan árið 2019.

Tengt efni