SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir22. júní 2024

SVONA ER ÞAÐ ÞETTA SUMAR

Sumarið er á næsta leiti með sólbaði og ljóðalestri. Eftirfarandi ljóð er eftir Magneu Matthíasdóttur, skáldkonu og birtist í bók hennar Þar sem malbikið endar (2023). Í ljóðabókinni eru 44 ljóð frá ýmsum tímum. M.a. er fjallað um sjálfsmynd nútímamannsins, nýja kynslóð  og sumarið.

SKÚRAR

svona er það þetta sumar
skin milli skúra
eða kannski hálfrökkur og kattaraugu og njóli
milli skúra
þeirra fáu sem eftir eru
milli byggingakrana
kannski bara skin milli byggingakrana
svona er sumar
ekki bara þetta heldur mörg önnur
með hálfa þjóðina á fjöllum
hinn helminginn í útlöndum
og enginn hér
nema auðvitað ferðamenn að taka sjálfur
hjá nýmáluðum skúrum
ekki þó milli þeirra
ekki einu sinni þótt þeir séu nýmálaðir og sjænaðir upp
eins og grásleppuskúrarnir á ægissíðu
sem við vorum send að teikna ár eftir ár
þeir myndrænu skökku hrörlegu skúrar
í teikniblokkum minninganna
svona er þetta
byggingakranarnir marka okkur torfarnar leiðir
milli ómálaðra blokka
sjæna varla upp njóla og ketti
og ráða ekki við húmið
sjálf sitjum við með tregablandin tár í augum
og rifjum upp minningar um skúra
í útlöndum eða á fjöllum
allt að fara til fjandans það ferst það ferst
þótt glói vín á skál
og þjóðskáldin svamli þar enn nálægt botni
á eilífri leið til sumarlandsins
svona er það
og upp er sprottin önnur kynslóð eins og njóli
okkur að óvörum
teiknar glaðbeitt byggingarkrana
nennir ekki þessum fjandans skúrum
klappar köttunum
veipar í rökkrinu
og skellir sér á fjöll eða til útlanda
í skini og skúrum
þetta er svona sumar

 

Mynd: woman_reading_in_sunny_garden.png. MidJourney

 

Tengt efni