SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn19. júní 2024

MAGNAÐ NÝTT LJÓÐ EFTIR ELÍSABETU JÖKULSDÓTTUR!

Ég er vöknuð klukkan sjö og búin að setja í stútfyllta uppþvottavélina, einhver kynni að segja að ég sé feig en þá heyri ég mömmu segja: Þú átt að fara varlega með orðin, sparlega með orðin, það er ekki hægt að leika sér að því tala um feigð.

Við lifum á forneskjulegum tímum. Forneskjan allsráðandi. Við horfum á þjóðarmorð í Sjónvarpinu. Þeir sem afbera það. Í fyrsta sinn heyrist ekkert þótt fótboltinn dekki fréttirnar. Við getum ekki afborið þetta, afsakið að ég segi við, ég er bara að reyna koma á sameiningu, sameina þjóðina. Hvaða kjaftæði! Auk þess borgar sig ekki að tala um þetta. Hvað þá gera eitthvað, við gætum orðið fyrir piparúðaárás! Áras já.

 

Vitund mín afber þetta ekki.
Heimur minn er hruninn.
Ytri heimurinn minn.
Er hann í tengslum við innri heiminn?
Eða gengur hnífsblað á milli?
Ég rígheld í innri heiminn minn.
Vitund mín nær ekki utan um þetta!
Er það satt?
Væri þetta annars að gerast.
Er ég góð manneskja?

 

Afhverju geri ég ekki neitt, ég ætlaðí að tala við Macron, en ég hef ekki látið verða af því, Þýskalandskeisara, Kónginn í Englandi, Drottninguna af Danmörku, allt þetta lið, ég ætlaði að undirbúa mig og hugsaði sem svo þau gætu ekki staðist göldrótta stelpu af Íslandi, hrekkjótta, með úthaf í kroppnum, berjalyng á geirvörtunum, og bláberjablá augu. Nei, Forneskjan mundu þau segja. Ég yrði að koma í dragt. Forneskjan uppábúin.

Nær vitund mín utanum gervigreind, ef hún kynnir sér málin já, en við, já við við við höfum aldrei komið til Palestínu, mamma lagði áherslu á ferðalög, þannig hverfa fordómar, sagði hún.

 

Ég er að minnsta kosti hætt að trúa.
Hætt að trúa á Vestrænt lýðræði.
Hætt að trúa á Evrópusambandið.
Hætt að trúa á hernaðarbandalög.
Byrjuð að trúa á landamæri.
En er ég góð manneskja?

 

Ég lem ekki barnabörnin, ég reyni að vera góð við þau, en er það einhver mælikvarði. Auðvitað er maður góður við börn.

En ég er byrjuð að efast um sjálfa mig, getur verið að innra með mér búi vannært skrímsli sem sem sem einhver illska, gömul illska sem hefur gegnsært frumurinar, gegnum aldirnar, er ég að njóta einhvers af þessu, svona get ég spurt, ég er orðin geðveik.

 

Hvað með kóngana og Macron.
Úrslitin í Frakklandi?
Ræðu forsætisráðherra á 17. júní.

 

Mér er sagt að ég geti ekkert gert. Tískublöðin segja mér að ég geti saumað mér kjól úr palestínska fánanum, eða treflinum, ég veit ekki hvort ég myndi þora því, hún Harpa, hún myndi þora því, hún gaf mér palestínskan klút um daginn en ég forðast að nota hann, þá er ég orðin partur af hópi.

 

Mér er ekki viðbjargandi.
Ég er alltaf að hugsa um að setja upp klútinn, en ég þarf hjálp.

 

Það eru ekki bara Palestínubúar sem þjást, þjást svo mikið að ég get ekki ímyndað mér það, en ég er góð manneskja, ég var að ræða þetta við sálfræðinginn minn í gær, að ég þjáist, og efist um sjálfa mig og heiminn. Mín trú er sú að mamma hafi fengið krabbamein þegar Sýrlandsstríðið byrjaði. Eina sem bjargar mér er fræðsla, að fylgjast með, hugsa um barnabörnin.

 

Hvað fleira get ég gert?
Meiraðsegja málaliðarnir þegja!
Það er klofningur
milli míns ytri og innri heims.
Uppþvottavélin mallar.

 

Ég hef komið til Palestínu, langaði alltaf aftur, ég get sagt barnabörnunum sögur: Einu sinni fyrir langa langa löngu var land sem hét Palestína.

Við erum ekki komin lengra.

Elísabet Jökulsdóttir, 19. júní 2024

Forsíðumynd fengin að láni frá The Economist

 

 

Tengt efni