SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 4. mars 2023

ÓSÝNILEGI VEGGURINN – Um Saknaðarilm eftir Elísabetu Jökulsdóttur

Elísabet Jökulsdóttir. Saknaðarilmur. JPV. 2022, 134 bls.

Nýjasta bók Elísabetar Jökulsdóttur, Saknaðarilmur, kom út á síðasta ári. Hún fjallar um sorg Elísabetar og söknuð eftir móður sinni, Jóhönnu Kristjónsdóttur (1940-2017) og ekki hvað síst uppgjör hennar við þeirra flókna mæðgnasamband. Sagan minnir um margt á ljóðabókina Dauðann í verkfæraskúrnum sem kom út árið 2017 en nú er meira kjöt á beinum.

Saknaðarilmur er stutt bók og kaflarnir margir hverjir stuttir sömuleiðis. Bókin geymir minningabrot sem gætu staðið ein og sér sem örsögur en því formi hefur Elísabet meistaratök á. Saman gefa þau þó afar heilstæða mynd af samskiptum mæðgnanna. Áður en sagan hefst er vísað í brot úr Bikarnum eftir Jóhann Sigurjónsson og gefur það tóninn, þangað er trúlega sóttur ilmurinn sem er í vel heppnuðum titli sögunnar samfara því að ýmsar tilfinningar vakna, gleðin lifnar við og sorgin grætur.

Líkt og er háttur Elísabetar þorir hún á meðan aðrir þegja. Hún er hispurslaus í lýsingum sínum og skefur hvergi utan af hlutunum. Mögulega hefur hún verið að ræða um ljóðabók sína Engan dans við Ufsaklett þegar mamma hennar setur ofan í við hana fyrir að ræða opinskátt um píkuna á sér í sjónvarpi: „Og afhverju var nauðsynlegt fyrir þig að tala um píkuna á þér?“. Elísabet svarar því til að hana hafi langað til að „sprengja upp heilann á fólki. Brjóta tabú“ frá því hún las Ástu Sigurðardóttur sextán ára gömul. Þetta hefur Elísabetu tekist nú sem fyrr og er kómíkin ekki heldur langt undan, líkt og sjá má í annarri athugasemd mömmunnar: „Ég man ekki eftir því að skapabarmarnir á þér hafi verið svona stórir“ (bls. 9-10).

Frásögn Elísabetar af samskiptum hennar við móðurina er mjög persónuleg en margt má rekja til forneskjunnar, líkt og Elísabet kallar það, og því harla kunnuglegt. Mamma hennar tilheyrir þeirri kynslóð sem á ekki vanda til að bera tilfinningar sínar á torg. Sem dæmi segir Elísabet á einum stað að hvorki mamma hennar né amma kunnu að faðma og að það hafi verið á hreinu að amma hennar hafði verið „ísköld móðir“ (bls. 39-40). Þegar Elísabet segist elska mömmu sína svarar hún: „Mér er ekkert mjög illa við þig heldur“ (bls. 110). Þá mátti Elísabet aldrei koma nálægt mömmu sinni en þegar hún liggur dáin í rúmi sínu sætir hún lagi, strýkur hana og kyssir (bls. 52).

Elísabet hlífir heldur ekki sjálfri sér og dregur ekkert undan þegar hún lýsir því hvaða áhrif alkóhólismi hennar og geðhvörf höfðu á hennar nánustu. Hún gengur mjög nærri sér þegar hún segir frá undanfara þess að hún missti forræðið á elsta drengnum sínum. Hann þurfti að horfa upp á slagsmál og ofbeldi en steininn tók úr þegar hún skildi hann eftir einan heima á meðan hún var að skemmta sér, fjögurra ára gamlan. Hann hafði vaknað og farið að leita að henni en þegar hann fann hana hvergi fór hann út í niðdimma nóttina, fyrst til vinkonu Elísabetar og þegar hún svaraði ekki hélt hann til vinar síns þar sem var tekið vel á móti honum (bls. 103).  

Þær eru margar tilfinningarnar sem ólga á milli þeirra mæðgna og öfgakenndar og engu líkara en að geðhvörfin sem hafa lengi háð Elísabetu hafi einnig sótt að mömmu hennar, þar sem skapsveiflur hennar eru æði miklar: „Þrátt fyrir skammir og ofsareiði brá mamma líka töfraljóma yfir bernsku okkar“ (bls. 38). Og brosið hennar getur borið „mestu hlýju og gleði heimsins“ (bls. 44). Þá er hún skemmtilega mótsagnakennd lýsing Elísabetar á mömmu sinni á einum stað:

 

Mamma gaf verið djöfulóð. Mamma var með mýkstu hendur í heimi og sagði oft; Ljósið mitt, ekki vera döpur ljósið.

    Svo sagði hún líka; Stráið mitt.

    Og svo var hún svo skemmtileg að það þvældist stundum fyrir henni. (bls. 53)

 

Elísabet orðar það svo á einum stað að „dauði mömmu var ekkert samanborið við hvernig samband okkar hafði verið …“ (bls. 79). Svo verða áföll sem eru aldrei gerð upp og er hún átakanleg lýsing Elísabetar á því sem hefur gerst í þessu húsi, hjá móður hennar:

 

Mamma mín, þetta var sami staðurinn, eldhúsið, og ég hafði verið borin útúr með lögregluvaldi, þetta var sami staðurinn sem hún sagði seinna: Augun í þér eru dauð, augun í þér voru blá einsog fjallavötn, þau eru dauð. Af því ég var í neyslu. Sami staðurinn og hún sagði: Rassinn á þér er að hverfa. Sami staðurinn og við borðuðum allan þennan kvöldmat, allan þennan morgunmat við þetta agnarsmáa borð í þessu agnarsmáa húsi sem geymdi allan heiminn (bls. 62).

 

Það eru lokaðar dyr á milli þeirra mæðgna (bls. 81). Þeim virðist vera um megn að opna þessar dyr og er mögulega ein skýringin sú að þær hafi verið of líkar; báðar tilfinningaríkar skáldkonur með áfallasögu að baki. Samband þeirra var „grískur harmleikur, amerísk sápuópera“, líkt og Elísabet kallar það í sinni kaldhæðni en kemst síðan að raun um að mamma hennar var alltaf að reyna að gefa henni ást (bls. 73). Það rennur upp stund milli stríða og er hún falleg lýsingin þegar þær mæðgur horfast í augu, skömmu áður en Jóhanna fellur frá:

 

Já, sagði mamma, og horfði djúpt í augun á mér, mjög djúpt einsog úr nýju landi, og ég horfði djúpt í augun á henni og þarna lá hún og ég stóð og við horfðumst í augu, þetta heita, varnarlausa en örugga augnaráð, umfram allt fullt af ást. Ég sá að hún elskaði mig.

   Og á leiðinni heim datt mér í hug að núna gæti hún dáið, því hún vissi að ég elskaði hana. (bls. 133)

 

Það er þessi „ósýnilegi veggur búinn til úr forneskju kynslóðanna“ sem kom í veg fyrir að Elísabet eignaðist það samband við mömmu sína sem hún þráði (bls. 134). Hún kemst þó að ýmsu eftir að Jóhanna er látin sem fær hana til að sjá mömmu sína í öðru ljósi og ennfremur til að losna við trúan og dyggan harm til fjörutíu ára. Þessi áhrifaríka saga er afar persónuleg og einlæg en í senn tæpitungulaus lýsing á öllum þeim mannlegu, margbreytilegu tilfinningum sem hrærast í okkur mannfólkinu og enginn kemst hæglega undan.

Tengt efni