SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 6. júlí 2024

500 KONUR Í SKÁLDATALI!

 

Í dag náðum við upp í 500 færslur í Skáldatalinu okkar. Tvær síðustu færslurnar eru um austfirsku skáldkonurnar Karlínu Friðbjörgu Hólm og Guðrúnu Valdimarsdóttur. Hvor þeirra hefur gefið út eina ljóðbók hjá Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi en félagið var stofnað 1996 og hefur gefið út fjölda ljóðabóka í fallegu og vönduðu formi.

 

 

 

 

Magnús Stefánsson, formaður félagsins, segir frá því í viðtali í Bændablaðinu 2023 að með félaginu hafi orðið til sameiginlegur vettvangur ljóðaunnenda og skálda. Félagið hefur verið hugsað sem sameiginlegur vettvangur höfunda og annarra ljóðaunnenda þar sem félagsmenn eru hvattir til, og studdir í, að gefa út eigin verk enda ljóðahefð Austfirðinga sterk.

Fyrsta bók hins nýja ljóðafélags, Raddir að austan – Ljóð Austfirðinga, var útgefin árið 1999, en þar má finna ljóð og lausavísur eftir 122 austfirska höfunda sem allir voru á lífi við útkomu bókarinnar. Tveimur árum síðar hóf félagið útgáfu á flokki ljóðabóka sem ber nafnið Austfirsk ljóðskáld og hefur útgáfan haldist árlega í aldarfjórðung.

Félag ljóðaunnenda á Austurlandi hefur gefið út 44 bækur á tæplega 25 árum. Flestar bækurnar eru eftir austfirsk skáld og allar eru þær unnar á Austurlandi. Félagið hefur hlotið verðlaun fyrir að hlúa að grasrótinni og varðveita verk látinna skálda.

Ljóðabók Guðrúnar Valdimarsdóttur, Bláklukkur, kom út árið 2011 og ljóðabók Karlínu Friðbjargar, Rætur og þang, kom út árið 2020. Af öðrum bókum sem félagið hefur gefið út má nefna Hugurinn einatt hleypur minn eftir Guðnýju Árnadóttur og Handan blárra fjalla eftir Iðunni Steinsdóttur.

 

Tengt efni