SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir13. október 2024

ÓGLEYMANLEG VEISLA - Boð 17. október

Þegar ein af okkar fremstu, reyndustu og mikilvægustu skáldkonum sendir frá sér bók um skáldið og skáldskapinn er skellt í viðburð sem allir bókmenntaunnendur mæta á.

Steinunn SIgurðardóttir hefur ort og skrifað  og reynt sig við fjölbreytilegustu bókmenntaform í rúma hálfa öld. Hún hefur frábært vald á tungumálinu, hugur hennar er sífrjór og leitandi, verk hennar eru í senn ljóðræn, sammannleg, gagnrýnin og beinskeytt. Hún fjallar í verkum sínum um ástina í ótal myndum, ofbeldi og uppeldi, kynferði, sambönd og sambandsleysi. Og ávallt hefur hún verið baráttukona fyrir verndun lands og tungu.

Hvernig verður skáldskapur til? Dagur í lífi skálds? Hvaðan kemur innblástur? Viðtöl, viðhorf, aðferðir, viðfangsefni, uppsprettur? Svör fást fimmtudagskvöldið 17. október kl 20 á bókakvöldi í bókabúð Sölku við Hverfisgötu. Freyr Eyjólfsson spjallar við Steinunni.

Á fb-síðu viðburðarins segir:

Hún sýnir inn í vinnuherbergin og hugarfylgsnin, flakkar um landið og heiminn og dregur upp myndir af harðri glímu sinni við form og stíl, persónur og sögusvið, ytri aðstæður og innri hindranir. Um leið lýsir hún umhverfi, lífsreynslu og atvikum sem hafa orðið henni kveikjur að skáldskap og hvatning til að halda út dagana og árin sem það tekur að komast á leiðarenda, ljúka verki – sem ekki er alltaf sjálfgefið að takist.
 
Allt þetta kryddar Steinunn með sínum einstaka húmor, þekkingu og ærslafullum stíl sem enginn leikur eftir, og býður lesendum til ógleymanlegrar veislu. 

Tengt efni