SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir10. nóvember 2023

BÓL eftir Steinunni Sigurðardóttur

 

„Ekkert endist. Annað en Sorgin. Og Ofurástin“ segir á blaðsíðu 32 í nýju skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur, Bóli, og þar eru orðaðar tvær af þeim stóru tilfinningum sem skáldsagan hnitast um. Því hér tekst Steinunn enn á ný á við stóru þemun, Ástina og Dauðann, Sorgina og Eftirsjána, í skáldsögu sem er spennandi frá fyrstu síðu til þeirrar síðustu.

Frásögnin er lögð í munn Líneikar Hjálmsdóttur, bókmenntaþýðanda, sem í sögubyrjun er að leggja í leiðangur sem hún hefur undirbúið að það mikilli alúð að lesandinn fyllist grunsemdum og skynjar ógn sem vekur upp forvitni fyrir framhaldinu. Umgjörð frásagnarinnar er því ferðalag, þetta er vegasaga eða ferðasaga – líkt og skáldsaga Steinunnar Hjartastaður sem kom út 1995 og færði höfundi Íslensku bókmenntaverðlaunin. Og eins og í öllum góðum ferðasögum ferðast sögukonan ekki bara um Suðurlandsundirlendi Íslands heldur einnig um eigið líf og minningar.

Við fáum fljótt að vita að leiðin liggur í Sæluból, sumarbústað sem foreldrar Líneikar byggðu og viðhéldu af alúð og natni, eins og hún hefur sjálf gert eftir að þeirra naut ekki lengur við. Þetta er Bólið sem titill sögunnar vísar til, með orðum Líneikar: „minningarstaðurinn minn, æviverk elskandi handanna minna og handanna þeirra sem voru mér allt (bls. 204). Við fáum líka að vita að hennar „allra dýrustu minningar eru úr Sælubóli með Ásu“ (bls. 56), dóttur sem hún hefur misst og syrgir og þótt minningarnar um Ásu séu dýrmætar þá hafa komið þær stundir að þungi þeirra var óbærilegur, stundirnar þegar hún var ofsótt af „Sorgarfylgju“ (bls. 141).

Sorgarfylgja er eitt af nýyrðunum sem lesandi rekst á í Bóli og orð sem tengjast Sorginni er mýmörg, bæði gömul og ný. Kunnugleg eru orð eins og ástarsorg, sorglegur, sorgmædd, sorgbitin, sorgartónn, sorgardagur og sorgarsögur en nýstárlegri eru orð á borð við sorgarfylgja, sorgarsort, sorgarpest, sorgarléttir og jöklasorg, svo nefnd séu nokkur dæmi. Síðastnefnda sorgin tengist vitaskuld bráðnun jökla og yfirvofandi aldauða, sem Steinunn Sigurðardóttir orti um sitt magnaða heimslitakvæði Dimmumót sem kom út 2019. Ekki er ólíklegt að fyrirmynd Sælubóls sé einmitt sami sælustaður sem Steinunn orti um í fyrsta hluta þeirrar bókar. Bólið hvílir í nánd við „lyngbala við Lurkalæk“ þar sem sögukona hefur setið „í hraunbolla með bláklukkubreiðu og nesti, á pallinum með störu á vaxandi Bláskóginn, Sólarlagsskóg og hvítagullvæng Heimajökulsins“, svo vísað sé beint í söguna (bls. 204). Engan skyldi undra að höfundur fer á flug þegar hún lýsir náttúrunni á minningastaðnum besta. Undir lok bókarinnar er hún kveðja bústaðinn og við lesum:

 

Passa að fara hringinn til að athuga að allt sé eins og á að vera þegar bústaður er yfirgefinn, gluggar lokaðir, stilli hita á ellefu stig. Svo ekki komi saggi. Og ég staldra við og dáist að blómayndinu hans pabba, klettafrú, hvönn, ljónslappa, gullbrá, skoða útsýnisdýrðina yfir Sólarlagsskóginn sem trónir uppi í vestri eins og fyrirheitið land, til hliðar við jökulinn minn heittelskaða. Það sem eftir er af honum. Jöklasorgin grípur mig, jafnvel núna grípur hún mig. Að það skuli geta gerst að við tortímum heimsins hvíta himnaljósi. Hversu óhugsandi að Heimajökullinn minn, okkar pabba, mömmu, Ásu, muni aðeins lifa mig um hundrað ár eða svo, fara stöðugt hrakandi, tærast upp eins og sjúklingur með berkla, með krabbamein. Að svanavængurinn okkar felli hvíta fjöður eftir fjöður og verði að lokum rúinn innúr, alla leið að kolsvörtum dauðaham. (bls. 177)

 

Líkt og í Dimmumótum vofa hér líka yfir viss heimslit því „ófétishrúgaldið“ Bálkur hefur rumskað og tekið til „sinna tortímingaráða“ (bls. 203). Það er eldgos sem ógnar Bólinu „með sígrænu, lauftrjám, blómstjörnum, hleðslum, húsum, stígum, bogabrú yfir læk“ (bls. 203); ekkert virðist geta komið í veg fyrir að staðurinn fari undir hraun. Lýsingar Steinunnar á eldgosum eru ekki lýsingar á „túristagosum“ og fegurð, þvert á móti, það er eyðingarmátturinn í „Helvítishelvítinu“ sem spýr úr sér „voðagusum“ sem við lesum um í Bóli. Hér kemur tilvitnun sem ber vitni um þau meistaratök sem Steinunn Sigurðardóttir hefur á náttúrulýsingum og hvernig dregnar eru upp bæði fagrar og ófagrar hliðar náttúrunnar:

 

Í hverri einustu bílferð sakna ég þess að hafa hvorki pabba né mömmu með mér til að lesa landið. Þau fundu endalaust nýja vinkla á gamalkunnugri hlíð, smáfossum, og því sem stærra var, fjöll og jökull. Birtan var ein af sérgreinum þeirra, þau sáu landið síbreytilegt, alltaf í nýju ljósi, og heilluðust meiraðsegja af alls konar þoku. Dalalæðu, þokuslæðingi, lágþokublettum. Hvað hefðu þessar elskur sagt um kvöldlandið og undrabirtuna á minni leið? Formfurðulegir drættirnir djúpt skornir og ofurskýrir. Landslag yfirskilvitlegra mótsagna. Rómantískt, þó mótað af Ósköpum. Jarðskjálftum, eldgosum. Ógnarland – þar sem hvert fell og hver hóll er til alls vís. Þar sem hraunin breiða storkandi úr sér til áminningar og viðvörunar um að þau geti hvenær sem er haldið áfram að forpesta íslenska tilveru og leggja undir sig land með óstöðvandi eyðingarmættinum. Pabbi og mamma kenndu mér ekki bara að lesa rómantíska landið og Ógnarlandið, heldur líka Eyðilandið. Þannig ber ég kennsl á helsærðan svörð, eyðingarlitinn moldbrúna – sem svo margir eru blindir á. (bls. 22-23)

 

Frásögnin af ferðalagi sögukonu til Sælubóls og hættunni sem Bólinu stafar af rennandi hrauninu er aðeins eitt lag þessarar marglaga skáldsögu. Hér í upphafi var nefnt að Líneik fæst við bókmenntaþýðingar og hún hefur nýlagt lokahönd á handritið Ástarljóðasyrpa frá ýmsum löndum og sent til útgefanda. Áhugaverðar vangaveltur um þýðingar mynda eitt lag sögunnar og ef til vill má segja að höfundur setji þar fram kenningu um hvernig þýðandinn á að vinna og hvað hann á að forðast, auk þess sem Líneik leggur fram þýðingarþraut sem ýmsum þætti eflaust gaman að glíma við.  

Það er auðvitað engin tilviljun að það séu ástarljóð frá ýmsum löndum sem Líneik hefur verið að glíma við að þýða því Ástin í sínum fjölbreytilegu myndum hefur verið henni hugleikin. Ekki síst Ofurástin sem heltekur fleiri en eina persónu bókarinnar, meðal annars hefur hún leikið sögukonuna sjálfa grátt því ekki fékk hún þann sem hún elskaði mest, fremur en Alda í Tímaþjófnum eða Samanta í Ástin fiskana, svo nefndar séu tvær af skáldsögum Steinunnar sem fjalla um Ofurástina. Og ástin tengist leyndarmálum; mjög snemma í bókinni er minnst á svíðandi leyndarmál í fjölskyldu Líneikar og þau reynast fleiri en eitt: „Leyndarmál, leyndarmál, hvernig þau spóla í okkur, látiði mig þekkja það, allt sem við vitum ekki – en vitum þó – vitum einhvern veginn“ (bls. 96).

Hér hefur verið minnst á nokkur lög frásagnarinnar í Bóli og vísað til fyrri bóka Steinunnar nokkrum sinnum. Sá sem þekkir verk hennar mun sjá margar tengingar við fyrri sögur og ljóð höfundarins. Í Bóli birtist söguheimur Steinunnar eins og hann gerist bestur. Þótt hér hafi verið lögð áhersla þemu á borð við sorg og leyndarmál má ekki gleyma að aðall Steinunnar Sigurðardóttur eru náttúrlýsingar og kaldhæðinn húmor, þetta tvennt setur sterkan svip á Ból og ekki síst þess vegna er bókin yndislestur frá upphafi til enda um leið og frásögnin snertir viðkvæma strengi á meistaralegan hátt.

Ritdómurinn var fluttur í Víðsjá á rás 1, 6. nóvember 2023

Tengt efni