SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir30. mars 2025

GUÐRÚN INGÓLFSDÓTTIR: LÖNG OG ÁSTRÍK SAMBÚÐ

Á morgun, mánudaginn 31. mars, heldur Guðrún Ingólfsdóttir bókmenntafræðingur fyrirlestur í fyrirlestraröð Miðstöðvar einsögurannsókna við Háskóla Íslands sem ber yfirskriftina Gammablossar: Mín aðferð. Fyrirlesturinn verður haldinn í Árnagarði, stofu 310 og hefst kl. 16.

Guðrún segir sjálf þannig frá:

 

 

Í fyrirlestrinum mun ég segja frá langri og ástríkri sambúð minni og handrita. Þó að bækur mínar byggi allar á handritarannsóknum er viðfangsefnið ólíkt milli bóka. Það gefur augaleið að beita þurfi ólíkum aðferðum. Hvert handrit er hús með mörgum vistarverum. Sum eru reisuleg, önnur lágreist. Öll hafa þau hinsvegar merkilega sögu að segja ef maður leggur eyrum við og leyfir þeim að tala til sín án þess að dæma þau af ytri ásýnd eða því hversu merkilegur efniviðurinn kann að þykja í upphafi þegar knúið er dyra.

 

Guðrún Ingólfsdóttir hefur skrifar mjög áhugaverðar og skemmtilegar bækur sem byggjast á handritarannsóknum hennar og án efa verður gaman að hlýða á hana segja frá. Hún hefur um langt árabil rannsakað íslenska bókmenningu fyrri alda og sér í lagi handrit kvenna. Árið 2011 kom út doktorsritgerð hennar Í hverri bók er mannsandi. Handritasyrpur, bókmenning, þekking og sjálfsmynd karla og kvenna á 18. öld, og 2016 sendi hún frá sér bókina Á hverju liggja ekki vorar göfugu kerlingar. Bókmenning íslenskra kvenna frá miðöldum og fram á 18. öld. 2021 kom síðan bókin Skáldkona gengur laus. Erindi nítjándu aldar skáldkvenna við heiminn. Með þessum fræðiritum sínum hefur Guðrún lagt fram drjúgan skerf til rannsókna á íslenskum bókmenntum.

Tengt efni