VIÐTAL VIÐ DÆTUR ÞÓRU JÓNSDÓTTUR Í VÍÐSJÁ
Í þættinum Víðsjá á rás 1 í dag var viðtal við systurnar Kirstin og Elínu Flygenring, dætur Þóru Jónsdóttur ljóðskálds, í tilefni þess að vefurinn okkar stendur fyrir ljóðadagskrá til heiðurs Þóru í Gunnarshúsi að Dyngjuvegi 8 í Reykjavík næstkomandi sunnudag. Hér er hlekkur á þáttinn en viðtalið er í síðri hluta hans.
Dagskráin hefst kl. 14 og er áætlað að hún standi í um tvo tíma. Gestir eru hvattir til að koma í pontu og lesa ljóð eftir Þóru og einnig er öðrum skáldkonum boðið að lesa sín eigin ljóð, enda er dagskráin haldin í tilefni af Kvennaári 2025 og er hluti af viðburðadagskrá ársins. Skáldavefurinn býður upp á kaffi og vöfflur og vonar að gestir eigi notalega stund saman yfir ljóðalestri.
Þóra Jónsdóttir fæddist 17. janúar 1925 og fagnaði því 100 ára afmæli sínu á þessu ári. Hún er að öllum líkindum elsta núlifandi ljóðskáld á Íslandi.
Ýmislegt má lesa um Þóru og ljóðlist hennar hér á vefnum (sjá hér neðar). Við vonum að sjá sem flesta ljóðaunnendur í Gunnarhúsi næstkomandi sunnudag.