ÞÓRA JÓNSDÓTTIR ER HUNDRAÐ ÁRA Í DAG!
Þóra Jónsdóttir ljóðskáld á hundrað ára afmæli í dag og við óskum henni hjartanlega til hamingju og þökkum fyrir ljóðin!
Þóra fæddist 17. janúar 1925 á Bessastöðum á Álftanesi en flutti á barnsaldri með fjölskyldu sinni að Laxamýri í Suður-Þingeyjarsýslu og ólst þar upp. Móðir hennar er Elín Vigfúsdóttir á Laxamýri, húsfreyja og skáld. Nánar má lesa um ævi hennar í Skáldatalinu hér.
Þóra er tvímælalaust í hópi bestu ljóðskálda á Íslandi á tuttugustu öld en hún kom fremur seint fram á svið bókmenntanna, eins og títt var um konur af hennar kynslóð. Þóra er módernískt skáld og hefur sent frá sér fjölda ljóðabóka. 2005 kom út heildarsafn ljóða hennar, Landið í brjóstinu, sem er löngu uppselt og mætti gefa út aftur með viðbættum þeim bókum sem komu út eftir 2005.
Ritaskrá Þóru er eftirfarandi:
2019 Sólardansinn [ljóðrænar örsögur] 2013 Nokkur ljóð 2013 Elst milli hendinga 2010 Hversdagsgæfa [ljóðrænar örsögur] 2005 Landið í brjóstinu [safn fyrri ljóðabóka] 2003 Einnota vegur 2000 Far eftir hugsun 1996 Ljósar hendur [ásamt Ágústínu Jónsdóttur og Vilborgu Dagbjartsdóttur) 1995 Lesnætur 1991 Línur í lófa 1988 Á hvítri verönd 1983 Höfðalag að hraðbraut 1978 Horft í birtuna 1975 Leiðin norður [Leiðin heim] 1973 Leit að tjaldstæði
Ljóð Þóru voru því miður ekki mikið til umræðu í umfjöllun um módernisma í íslenskri ljóðlist lengi vel og hlaut Þóra fáar viðurkenningar á ferli sínum. Hún hlaut þó Viðurkenningu úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins árið 1995 og fimm árum síðar fékk handrit hennar að ljóðabókinni Far eftir hugsun viðurkenningu dómnefndar um Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar.
Á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands 2022 var haldin málstofa um verk Þóru Jónsdóttur undir yfirskriftinni DÝPIÐ ER ÓKANNAÐ og þar fluttu fyrirlestra bókmenntafræðingarnir Helga Kress, Ástráður Eysteinsson, Soffía Auður Birgisdóttir og Arnór Ingi Hjartarson og Magnús Sigurðsson bókmenntafræðingur og skáld.
Um ljóðlist Þóru Jónsdóttur má lesa eftirfarandi greinar: